Skip to content

Instantly share code, notes, and snippets.

@Ernir
Created October 28, 2017 15:33
Show Gist options
  • Star 0 You must be signed in to star a gist
  • Fork 0 You must be signed in to fork a gist
  • Save Ernir/9b3e8fcf2e9f69b345c7e3b42e621671 to your computer and use it in GitHub Desktop.
Save Ernir/9b3e8fcf2e9f69b345c7e3b42e621671 to your computer and use it in GitHub Desktop.
Um úthlutun þingsæta á Íslandi

Um úthlutun þingsæta á Íslandi

Við á Íslandi búum ekki við sérstaklega gegnsætt þingsætaúthlutunarkerfi. Við höfum einhvers konar hugmynd um að mörg atkvæði gefi mörg þingsæti og að atkvæðavægi eftir landshlutum sé ekki jafnt, en úthlutunaraðferðirnar eru oft ekki á hreinu. Sérstaklega á þetta við um jöfnunarsætakerfið, sem virðist almennt vera talið óskiljanlegt.

En þetta er ekki óskiljanlegt. Vandamálið er bara að það er erfitt að skilja kerfið með því að skoða niðurstöður þess eingöngu, sem er það sem gerist þegar við setjumst fyrir framan kosningasjónvarpið. Ef við lítum á aðferðirnar sjálfar eru þær ekki jafn hrikalegar.

Ég tók saman nokkur orð til útskýringar.

Kjördæmaskipting Íslands

Íslandi er skipt í sex kjördæmi. Hvert kjördæmi hefur sjö til ellefu kjördæmissæti auk eins eða tveggja jöfnunarsæta. Meiri munur er á íbúafjölda kjördæmanna en þingsætafjölda, svo að mismörg atkvæði eru að baki hverju þingsæti á milli kjördæma. Jöfnunarsætin vega upp á móti þessu þegar kemur að flokkunum - flokkur sem fær mörg atkvæði en fá kjördæmissæti fær mörg jöfnunarsæti.

Úthlutun í sætin fer fram í skrefum. Fyrst er öllum kjördæmissætum fyrir hvert kjördæmi um sig úthlutað, síðan er jöfnunarsætunum útdeilt.

Úthlutun kjördæmasæta

Á Íslandi er notuð regla sem kölluð er aðferð D'Hondt. Hún byggist á endurteknum deilingum.

Atkvæði til hvers flokks eru talin í hverju kjördæmi um sig.

Fyrir hvern flokk eru síðan framkvæmdar jafn margar deilingar og kjördæmissæti eru í kjördæminu. Fyrst er deilt með tölunni 1, svo tölunni 2, og svo framvegis þar til komið er upp í fjölda kjördæmissæta. Fyrir flokk sem fær 10000 atkvæði í kjördæmi með 7 kjördæmasætum væru þá reiknaðir út eftirfarandi kvótar:

  • 10000/1 = 10000
  • 10000/2 = 5000
  • 10000/3 = 3333 (sirka)
  • 10000/4 = 2500
  • 10000/5 = 2000
  • 10000/6 = 1666 (sirka)
  • 10000/7 = 1428

Þessir útreikningar eru framkvæmdir fyrir alla flokka í kjördæminu.

Væru fjórir flokkar í framboði í kjördæmi með sjö kjördæmasætum, þar sem flokkur með listabókstafinn A fær 10000 atkvæði, flokkur B fær 9000 atkvæði, flokkur C fær 5500 atkvæði og flokkur D fær 2400 atkvæði gætum við sett alla þessa kvóta upp í eina töflu:

Flokkur 1 2 3 4 5 6 7
A 10000 5000 3333 2500 2000 1666 1428
B 9000 4500 3000 2250 1800 1500 1285
C 5500 2750 1833 1375 1100 916 785
D 2400 1200 800 600 480 400 342

Til að ákvarða hvaða flokkar fá kjördæmissætin eru síðan stærstu tölurnar valdar úr þessari töflu. Í þessu kjördæmi væri t.d. fyrst fundin talan sem efst er til vinstri í töflunni. Sá frambjóðandi sem var efstur á lista flokks A væri þar með orðinn fyrsti þingmaður kjördæmisins. Annar þingmaður kjördæmisins væri efsti frambjóðandinn á lista B, og svo framvegis, þar til búið er að fylla í öll sjö kjördæmissætin. Hér væru niðurstöðurnar:

Flokkur 1 2 3 4 5 6 7 Kjördæmissæti
A 10000 5000 3333 2500 2000 1666 1428 3
B 9000 4500 3000 2250 1800 1500 1285 3
C 5500 2750 1833 1375 1100 916 785 1
D 2400 1200 800 600 480 400 342 0

Hér fengu flokkar A og B hvor um sig 3 kjördæmissæti. C fékk eingöngu eitt og D fékk alls ekkert. Hefði verið eitt kjördæmissæti í kjördæminu til viðbótar hefði 2. frambjóðandi lista C verið næstur inn.

Á Íslandi er þessari aðferð er beitt í hverju kjördæmi til að úthluta kjördæmissætunum. Þá á eftir að úthluta jöfnunarsætunum.

Úthlutun jöfnunarsæta

Á Íslandi eru alls níu jöfnunarsæti. Úthlutun þeirra fer fram í þremur skrefum.

  1. Landstölulisti er settur saman
  2. Úthlutunarskrár settar saman fyrir hvern flokk
  3. Jöfnunarsætum er úthlutað.

Skoðum hvert skref um sig.

Landstölulisti settur saman

Við úthlutun jöfnunarsæta er tekið tillit til heildarfjölda atkvæða sem hver flokkur fékk á landsvísu og hversu mörg kjördæmissæti hver flokkur hefur fengið.

Fyrst þarf að athuga hina margumtöluðu 5% reglu. Flokkar koma ekki til greina við úthlutun jöfnunarsæta nema flokkurinn hafi fengið 5% atkvæða á landsvísu.

Fyrir flokka sem náðu yfir 5% atkvæða á landsvísu eru reiknaðar út landstölur fyrir hvern flokk.

Fyrsta landstala flokks er heildarfjöldi atkvæða sem flokkurinn fékk deilt með fjölda kjördæmakjörinna þingmanna sem flokkurinn fékk, að viðbættum einum. Sem dæmi má taka Samfylkinguna í kosningunum 2016, en þá fékk flokkurinn 10893 atkvæði á landinu öllu og einn kjördæmakjörinn þingmann. Fyrsta landstala Samfylkingarinnar er þá 10893/(1+1) = 5446,5. Næsta landstala Samfylkingarinnar er heildarfjöldi atkvæða deilt með fjölda kjördæmakjörinna að viðbættum tveimur, sem var 10893/(1+2) = 3631.

Landstölur fyrir alla flokkana eru reiknaðar. Níu hæstu landstölurnar mynda landstölulista, sem notaður er við úthlutun jöfnunarsæta.

Árið 2016 voru níu hæstu landstölurnar eftirfarandi (listi af mbl.is):

  1. Samfylkingin (S): 5.446,5
  2. Björt framtíð (A): 4.526,0
  3. Viðreisn (C): 3.974,0
  4. Samfylkingin (S): 3.631,0
  5. Björt framtíð (A): 3.394,5
  6. Viðreisn (C): 3.311,7
  7. Vinstrihreyfingin - grænt framboð (V): 3.016,1. 6
  8. Viðreisn (C): 2.838,6
  9. Píratar (P): 2.744,9

Úthlutunarskrá

Auk landstölulista þarf að búa til úthlutunarskrá fyrir hvern flokk. Úthlutunarskrá er listi sem inniheldur þá tvo frambjóðendur flokks í hverju kjördæmi um sig sem næstir voru því að komast í kjördæmissæti.

Til dæmis hlaut þáverandi formaður Samfylkingarinnar, Oddný Harðardóttir, ekki kjördæmissæti í kosningunum 2016, þó að Samfylkingin hafi fengið 6,38% atkvæða í Suðurkjördæmi (sem hún bauð fram í). Þetta var hærra hlutfall en nokkurs staðar annars staðar fyrir Samfylkinguna, svo Oddný fór efst á úthlutunarskrá Samfylkingarinnar. Næsti frambjóðandi Samfylkingarinnar í Suðurkjördæmi (Ólafur) er síðan reiknaður sem svo að hann hafi helming atkvæðahlutfalls Oddnýjar.

Heildarúthlutunarskrá Samfylkingarinnar 2016 varð eftirfarandi:

  1. Oddný G. Harðardóttir (Suður): 6,38%
  2. Guðjón S. Brjánsson (Norðvestur): 6,29%
  3. Össur Skarphéðinsson (Reykjavík suður): 5,58%
  4. Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Reykjavík 1. norður): 5,21%
  5. Árni Páll Árnason (Suðvestur): 4,75%
  6. Erla Björg Guðmundsdóttir (Norðaustur): 4,0%
  7. Ólafur Þór Ólafsson (Suður): 3,19%
  8. Inga B. Bjarnadóttir (Norðvestur): 3,14%
  9. Eva H. Baldursdóttir (Reykjavík suður): 2,79%
  10. Hildur Þórisdóttir (Norðaustur): 2,67%
  11. Helgi Hjörvar (Reykjavík norður): 2,6%
  12. Margrét Gauja Magnúsdóttir (Suðvestur): 2,38%

Útdeiling jöfnunarsæta

Að lokum er jöfnunarþingsætunum útdeilt. Við útdeilingu er farið niður landstölulistann. Fyrir hvern flokk á landstölulistanum er fundinn frambjóðandi á úthlutunarskrá. Efsti frambjóðandinn á úthlutunarskrá flokksins sem ekki er þegar búinn að fá jöfnunarsæti og er í kjördæmi þar sem ekki er búið að úthluta öllum jöfnunarsætunum fær jöfnunarsæti.

Þannig fékk Oddný þingsæti í síðustu kosningum. Samfylkingin var efst á landstölulistanum og Oddný var efst á úthlutunarskrá Samfylkingarinnar, svo hún fékk jöfnunarþingsæti Suðurkjördæmis.

Úthlutun jöfnunarsæta í kosningunum 2016 varð eftirfarandi:

  1. Oddný G. Harðardóttir (S, Suður)
  2. Nichole Leigh Mosty (A, Reykjavík suður)
  3. Benedikt Jóhannesson (C, Norðaustur)
  4. Guðjón S. Brjánsson (S, Norðvestur)
  5. Theodóra S. Þorsteinsdóttir (A, Suðvestur)
  6. Jón Steindór Valdimarsson (C, Suðvestur)
  7. Andrés Ingi Jónsson (V, Reykjavík norður)
  8. Pawel Bartoszek (C, Reykjavík suður)
  9. Halldóra Mogensen (P, Reykjavík norður)

Og þar með er öllum þingsætum úthlutað.

Athugasemdir

Undirritaður hefur nokkrar athugasemdir við útreikninga þessa kerfis.

  • Hægt er að ná kjördæmakjörnum þingmönnum án þess að ná 5% markinu á landsvísu. Hægt er að ná inn kjördæmakjörnum óháð því hver heildarfjöldi atkvæða er.

  • Flokkar sem eru sterkir í Reykjavík en veikari á landsbygðinni fá fleiri jöfnunarsæti. Þetta sést sérstaklega vel á jöfnunarsætaúthlutun Viðreisnar 2016, þar sem flokkurinn fékk þrjú af jöfnunarsætunum níu. Á móti sést t.d. að Framsóknarflokkurinn fékk engin jöfnunarþingsæti.

  • Kjördæmaskiptingin hefur gríðarlega mikil áhrif á hvaða frambjóðendur fá sæti, þó að atkvæðavægið sé að nokkru leyti jafnað út með jöfnunarsætakerfinu.

  • D'Hondt úthlutunin hyglir stærri flokkum á kostnað þeirra minni. Þetta er ekki einhver illkvittni, heldur bara afleiðing af því að stærstu flokkarnir fá þingsæti fyrst. Öll námundun í kerfinu er því þeim í hag. Þessi reikniregla ásamt 5% markinu við úthlutun jöfnunarþingsæta gerir smáflokkum með dreift fylgi á landsvísu erfitt fyrir. Síðan er það lesandans að dæma hvort það sé endilega slæmt.

  • Við núverandi aðstæður, þar sem flokkarnir eru margir og fylgi þeirra dreift, veitir kerfið ekki sérstaklega góða atkvæðanýtingu. Atkvæði smáflokka detta dauð niður og jöfnunarsætin duga ekki til að jafna fullkomlega út atkvæðavægi. Þessu mætti breyta með því að stilla af fastana í kerfinu (t.d. fjölda þingsæta eða prósentumúrinn við jöfnunarþingsætaúthlutun) eða með því að taka upp annað kosningakerfi.

  • Jöfnunarsætakerfið er óreiðukennt í þeim skilningi að lítil breyting á atkvæðatölum getur haft mikil áhrif á þingsætaröðun. Þetta er ekki það sama og að kerfið sé flókið, en þetta gerir mjög erfitt að sjá fyrir sér lokaniðurstöður út frá fyrstu tölum.

Ég vona að þetta geri kosningasjónvarpið í kvöld skemmtilegra og lýðræðið örlítið gegnsærra.

-Eiríkur Ernir Þorsteinsson

Heimildir

Sign up for free to join this conversation on GitHub. Already have an account? Sign in to comment