Skip to content

Instantly share code, notes, and snippets.

@Loknar
Last active July 18, 2021 00:30
Show Gist options
  • Save Loknar/22bb6d8bd4c09753aa06945a5e092059 to your computer and use it in GitHub Desktop.
Save Loknar/22bb6d8bd4c09753aa06945a5e092059 to your computer and use it in GitHub Desktop.

Stjörnustrengir

Einhverstaðar í órafjarlægð á jaðri myrkurs heimsins, í rúminu milli glitrandi stjarnanna, var lítil pláneta.

Á plánetu þessari bjó lítil stúlka einsömul. Stúlkan vissi ekki uppruna sinn. Sama hve mikið hún reyndi þá gat hún ekki munað það. Hún hugsaði og hugsaði en ekkert nýtt kom upp í hugann. Það eina sem hún gat munað var nafnið hennar, Karína, og ..

.. og hún hafði kunnáttu og þekkingu til að komast af.

Þrátt fyrir smæð plánetunnar var hún brimfull af fjölbreyttu lífi, jafnt flóru sem fánu, en Karína var ein.

Karína ferðaðist og ferðaðist meira og kom að lokum að því að hún hafði farið um og séð alla plánetuna. Þrátt fyrir von um hið gagnstæða þá var henni orðið ljóst að engan annan en hana eina var þar að finna.

Með einsemd sína staðfesta hófu dagarnir að verða einsleitir og renna saman, ganga, næra sig, endrum og eins syngja, sofa .. vakna.

Að endingu fór einsleitni daganna að verða verulega íþyngjandi, Karína hafði séð allt og skoðað ítarlega, smakkað allt það sem fánan og flóran höfðu uppá að bjóða, en hún tók það í sátt sem hluta af lífi hennar á þessari plánetu, það var ekkert meira að óska sér.

Á næturrölti í endurskini frá eina fylgitungli litlu plánetunnar kom Karína auga á eitthvað nýtt og framandi. Þunnur strengur spunninn úr ljósi hékk frá himni niður á yfirborð plánetunnar, í gegnum hálfmána fylgitunglið frá sjónarhorni Karínu. Hangandi frá himnum niður á jörðina bærðist strengurinn til í léttum næturvindinum, þrátt fyrir silfrað tunglsljósið gaf hann frá sér tindrandi djúprauðan glampa.

Strengurinn var sterkur, fíngerður og örlítið hlýr viðkomu, þegar Karína kom við hann hann varð ljósið frá honum örlítið bjartara þar sem hún snerti hann. Hún reyndi að klifra upp strenginn en hann var svo þunnur að hún náði ekki almennilegu gripi á honum og féll niður í jörðina.

"Hvert gæti hann legið?" sagði hún spyrjandi við stjörnubjart himinhvolfið, án þess að búast við svari. Strengurinn lá lengra upp í himinhvolfið en Karína gat séð, undrandi og forvitin lá hún í grasinu með strenginn annarri höndinni og starði á eftir honum upp í himinhvolfið. Að endingu greip hún strenginn báðum höndum og lagðist á hliðina, augnlokin urðu þung og hún dottaði.

Morgunsólin hóf að skína yfir fjallgarðana þegar Karína hrökk upp af léttum blundi sínum. Eitthvað hafði kippt í strenginn. Af ótta við að missa strenginn úr höndum sér kreppti hún hnefana fastar utanum hann. Var einhver að slá takt í gegnum strenginn? Kannski var þetta merki, eða hugsanlega skilaboð.

Forvitnin náði yfirhöndinni og hún hristi strenginn mikið og snögglega. Í dágóða stund hreyfðist strengurinn ekki, en skyndilega barst henni svar í formi álíka sterkra sveifla og hún hafði sjálf sent.

Einhver var á hinum enda strengsins! Dásamlega hlý tilfinning hóf að dreifast um búk Karínu. Hún hristi strenginn af öllum lífs og sálarkröftum, sendandi skilaboðin "Hér er ég!" Hún sendi alla hamingju sína til þess sem hélt í hinn enda strengsins, þessi einhver langt langt í burtu svaraði með sinni eigin hamingju.

Karína hóf að eyða nær öllum dögum sínum í návígi við strenginn. Jafnt í vöku sem í draumi áttu skilaboðin í gegnum strenginn hug hennar allan. Það var engin leið að túlka raunverulega meiningu skilaboðanna, hún vissi ekki einu sinni hvort manneskjan á hinum endanum talaði sama tungumál og hún. En það gerði lítið til. Í hvert sinn sem henni bárust skilaboð frá hinum endanum réði hún vart við hamingjuna í brjósti sér, og þessi einhver á hinum endanum passaði að senda henni ávallt svar.

Dag einn fékk hún loks hugmynd. Auðvitað! Jafnvel þó þau gætu ekki skilið skilaboð hvors annars þá voru öðruvísi skilaboð sem hún gat miðlað í gegnum strenginn. Hún stökk á fætur og lagði leið sína í nærliggjandi skóg, safnaði saman miklu magni af köngulóavef og bjó til úr honum girni. Að því loknu fann hún heppilega trjágrein og spennti upp boga. Því næst lagði hún leið sína aftur að strengnum. Hún dró inn andann og hóf að humma laglínu sem hún mundi óljóst eftir einhverstaðar frá, og prufaði sig svo áfram að spila laglínuna á strenginn með boganum sem hún hafði gert sér.

Alveg eins og svo oft áður var strengurinn hljóður um stund, en svo kom svar ólíkt þeim sem höfðu áður komið. Rétt eins og hún hafði einhver sent laglínu gegnum strenginn frá hinum endanum. Laglínan var eins og ekkert sem Karína hafði heyrt áður. Tónar strengsins bárust um himinhvolfið úr fjarska, blönduðust síðan saman og ómuðu líkt og himnesk hljómsveit að störfum.

Frá þeim degi hóf hjarta Karínu að breytast. "Ég vil hitta þig," Löngun hennar varð sífellt sterkari. "Ég vil óska þér góðan daginn, og góða nótt," hún vildi syngja söngva fyrir viðkomandi fyrir framan varðeld, og tala um ferðalög sín, hún vildi matreiða og snæða með viðkomandi, og ræða komandi daga. Hún gat ekki haldið aftur af tilfinningunum sem hömuðust innra með sér.

"Tími til að hittast," hugsaði hún, "tími til að klifra upp strenginn."

Karína hóf undirbúninginn, hún smíðaði tól til að auðvelda sér að hafa grip á strengnum, hún útbjó hanska og styrkti þá vel svo þeir myndu ekki slitna og láta hana missa takið á strengnum. Nú gat hún klifrað strenginn sem áður hafði verið óklífanlegur og hún komst alla leið upp fyrir skýin. Þaðan lá þráðurinn áfram upp í bláan himininn. Hún sá fyrir sér að ferðalagið yrði langt og strembið, raunveruleikinn var sá að hver sá sem beið hennar á hinum endanum bjó á einhverri stjörnunni þarna lengst uppi í himingeimnum. Ef hún ætlaði sér að þrauka ferðalagið þangað yrði hún að undirbúa sig enn meir.

Hún vissi að fyrir ofan fjöllin varð loftið þunnt og kuldinn nístandi. Hún hóf að kafa í vötnum plánetunnar til að þjálfa getu sína til að halda lengi í sér andanum. Hún tók einn og einn dag þar sem hún át ekkert til að byggja upp þol sitt gegn hungri. Líklega yrði hún tilbúin fyrir ferðina þegar hún gæti auðveldlega þolað hungur í nokkra daga samfleitt.

Hún rannsakaði hvaða fánu og flóru var hægt og ekki hægt að elda þannig að máltíðirnar varðveittust óspilltar. Hún fann leiðir til að auka varðveislutímann verulega.

Dag einn í undirbúningsferlinu hugsaði Karína "Ég ætti að taka með einhverja litla gjöf!" Hún útbjó litla hola kristalkúlu og lagði aftur í ferðalag um plánetuna. Hún týndi til örlítinn bita af plánetunni, smáar tegundir flóru og fánu, og pakkaði þeim í kristalkúluna. "Vonandi kann manneskjan á hinum endanum að meta þessa gjöf," hugsaði hún.

Að lokum rann dagurinn upp. Karína fór með bæn fyrir æðri máttarvöld á himnum og sór þess eið að snúa einn daginn aftur til þessa lands. "Bless." Karína leit einbeitt upp strenginn, "Jæja," sagði hún staðföst, strengurinn skein skærar af rauðum bjarma í rauðleitu ljósi sólarlagsins, "Af stað, upp og í burtu!"

Af ákafa hífði hún sig upp strenginn, upp fyrir fjöllin, upp fyrir skýin, í gegnum fárviðri og hríðabyl. Hún hélt áfram þar til vindana lægði. Karína leit upp í sídökknandi bláa víðáttuna, hún var dýpri og drungalegri en nokkuð annað sem Karína hafði áður séð. Líkami hennar var léttur. Henni til undrunar varð einnig léttara að anda. Samanborið við myrkur himingeimsins var ljósið skínandi að neðan óvenjulega sterkt. Hún leit niður á litlu plánetuna sína, heimilið sitt, litla og kringlótta eins og gjöfin í ferðatöskunni hennar, plánetan var umvafin rauðum bjarma, svo falleg. Skyndilega kviknaði örlítill vottur af eftirsjá, heimþrá, söknuði innra með Karínu, einhver kunnugleg lykt barst nefi hennar. En hún gat ekki hætt við núna, "Ég verð að halda áfram," hugsaði hún.

Að endingu var Karína komin svo hátt upp að hún varð þyngdarlaus. Ólíkt því sem hún hafði mátt venjast á plánetunni þá gat hún núna unnið sig áfram upp strenginn með annarri höndinni. Hún greip epli úr bakpokanum sínum og fékk sér bita. Á hraðanum sem hún var komin á víbraði strengurinn við það eitt að halda utanum hann. Með því að sleppa og grípa strenginn gat hún sent skilaboð áleiðis áfram á undan sér. Skyndilega sá Karína að boginn hennar hafði losnað úr greipinni á bakpokanum, hún sleppti takinu á eplinu og rétt náði að grípa í endann á boganum, hún hafði næstum glatað boganum sem hún hafði lært að nota til að spila á strenginn. "Munaði mjóu," sagði hún við sjálfa sig, "bíddu .. hvar er eplið mitt?" Hún litaðist um eftir því og sá það fljóta rólega í burtu frá henni, hún gæti ekki náð því án þess að sleppa takinu á strengnum. Skyndilega hóf það að skreppa saman og visna með óhugnarlegum hljóðum. Skelfd horfði hún á það fjarlægjast hana og að lokum hverfa í myrkrið. Þetta var í fyrsta sinn sem hún hafði heyrt epli deyja. Ef hún myndi óvart svífa í burtu frá strengnum eins og eplið fengi hún vafalaust sömu örlög, fljóta rólega í burtu án þess að fá nokkru að gert, visna og deyja.

Til að slá á hræðsluna og róa taugarnar lagði Karína bogann á strenginn og hóf stressuð að raula og spila lag á strenginn. Með ekkert sjáanlegt fyrir neðan eða ofan hana flaut hún í gegnum endalaust tómið. Óttaslegin með augun lokuð hélt hún dauðahaldi í strenginn, ef hún myndi opna augun fengi hún eflaust kvíðakast, svo hún hélt þeim lokuðum og hélt í strenginn með annarri höndinni og spilaði með boganum á strenginn með hinni höndinni. Hún einbeitti sér að laglínunni. Þegar stuttri spilun hennar var lokið hlustaði hún gaumgæfilega, biðin virtist óbærilega löng. "Gerðu það svaraðu," hugsaði hún.

Loks barst svarið. Hún heyrði laglínuna ókunnugu mun betur en hún hafði nokkurn tímann gert heima á litlu plánetunni sinni. Karína opnaði augun, það var enn eitthvað sem hún gat treyst á í þessu endalausa tómi. Strengurinn tengdi hana við áfangastað hennar sem og heimilið sem hún hafði lagt af stað frá. "Engar áhyggjur, þetta verður allt í lagi," hugsaði hún. Þetta ferðalag út í hið ókunnuga, þrátt fyrir lamandi hræðsluna sem hafði heltekið hana skömmu áður þráði hún að halda áfram ferðinni. Hún tjóðraði bogann við bakpokann, greip með báðum höndum utanum strenginn og hóf að auka hraðann meðfram strengnum enn meira.

Þegar Karína átti minna en einn fimmta eftir af nestinu sínu hóf hún að reyna að borða einungis á þriggja daga fresti. Þó var hún orðin það örmagna að hún átti erfitt með að skynja hvað tímanum leið. Klifurbúnaðurinn hennar og sérstaklega hanskarnir höfðu hægt og bítandi skemmst og slitnað upp að er virtist við núning frá strengnum, en jafnvel á þessum gríðarlega hraða sem Karína hafði byggt upp var strengurinn hlýr og mjúkur viðkomu í berum lófum hennar. Hún var orðin máttvana, en svo lengi sem hún passaði að sleppa ekki takinu á strengnum hélt hún áfram ferðinni og endrum og eins fann hún jafnvel mátt til að bæta örlítið í hraðann. Oftar nýtti hún þó máttinn til að spila lag á strenginn með boganum sínum. Lagið sem svaraði henni á strengnum var eini stuðningurinn sem hún hafði á ferðalagi sínu.

Á för sinni blöstu stjörnur í allskonar formum og stærðum við henni. Sumar glitruðu kröftuglega, aðrar sprungu í tætlur í löngum fallegum sprengingum, en Karína gat ekki nálgast neina þeirra, þær einfaldlega flugu framhjá henni. Fyrir Karínu voru þær ekki annað en bara ljóstýrur. "Ég hef látið þig bíða eftir mér í dágóðan tíma," muldraði hún og hélt svo áfram að spila þar til hún dottaði. Þegar hún vaknaði leið henni eins og í vakandi draumi, var það ímyndun eða voru svörin farin að berast fyrr?

Meðal óteljandi stjarnanna fyrir framan hana virtist strengurinn benda á punkt, smám saman hóf að skína ljóstýra frá punktinum. Karína virti punktinn fyrir sér hálfpartinn milli svefns og vöku, þetta var hnöttur sá hún. Skyndilega glaðvaknaði hún, hjartað tók að berja hraðar í brjósti hennar, með meiri krafti en hún hélt að hún hefði í sér jók hún hraðann þar til hún áttaði sig á að líkast til þyrfti hún heldur að minnka hraðann.

Þessi pláneta var mun stærri en sú sem Karína hafði komið frá, og hún skartaði einhverskonar gullfallegri skífu utanum sig og í það minnsta fimm fylgitunglum. Karína starði á plánetuna með tárin í augunum, hún mundi vart eftir því að blikka, "En falleg pláneta," hugsaði hún. "Vó!" Jafnvel úr þeirri fjarlægð sem var enn í plánetuna fann hún þyngdina sína aukast greinilega á meðan hún hægði ferðina með togi í strenginn. Hún lagaði til grip sitt á strengnum og náði að hægja ferðina niður í það sem virtist vera staðar numið miðað við plánetuna. Með þyngdaraflið að vopni lét hún sig síga rólega niður.

Karína sendi boð niður strenginn og fékk nær samstundis svar. Svo stutt eftir, hún var nánast komin. Þyngdaraflið var orðið svo mikið að hún gat ekki með góðu móti sent boð niður strenginn lengur, hún varð að nýta allan núning sem hún hafði til að halda aftur af því að auka hraðann niður á við. Daufur vindur hóf að leika um hana. Karína mundi skyndilega eftir svolitlu sem hún hafði kviðið fyrir, hún yrði að þrauka ferðalagið í gegnum ískaldan himininn og þykk skýin. Með öll klifurtólin ónýt hafði hún ekki annað um að velja en að vefja strengnum utanum sig fyrir meiri núning. Núningurinn skaðaði hana ekki sem betur fer, annað en hann hafði gert við verkfærin hennar. Haglél skall harkalega á bera húð hennar en hún umbar það. Hún gat séð endimörk skýjahulunnar fyrir neðan sig.

Eins og að leiktjöldum væri svipt frá blasti skyndilega yfirborð plánetunnar við henni, full eftirvæntingar virti hún yfirborðið fyrir sér. Bíddu. Gígar? Risavaxnir gígar á öllu yfirborðinu, allstaðar, líka þar sem strengurinn endaði? Strengurinn titraði endrum og eins við fljúgandi grjóthnullunga sem hæfðu hann. "Nei .. nei .." muldraði Karína vantrúa, þetta gat ekki verið rétt. Hún sendi boð niður strenginn. Hún sá víbringinn ferðast niður strenginn, skoppa af yfirborðinu og skila sér upp til hennar aftur slátt fyrir slátt. En .. einhver .. einhver hlaut að vera hérna, hvað með laglínurnar? Það gat ekki verið að laglínurnar væru líka .. Karína hóf upp bogann, en áður en hún náði að spila hæfði hana skyndilega sterk vindhviða sem reif hana lausa frá strengnum.

Hún féll bjargarlaust á meðan hún reyndi í örvæntingu að hugsa upp eitthvað sem hún hefði á sér sem gæti bjargað henni. "Ekkert," hugsaði hún með skelfingu, örstuttu síðar skall hún í yfirborð plánetunnar af slíkum krafti að eftir varð lítill gígur. Hún skoppaði tvisvar eða þrisvar á yfirborðinu áður en hún hóf að renna á yfirborðinu í það sem virtist vera nokkra kílómetra áður en hún staðnæmdist loksins.

Hún var enn á lífi. Hún gat ekki andað af sársauka, hún reyndi að tala, öskra, ekkert, í stað raddarinnar kom skvetta af blóði út um varir hennar. En, þrátt fyrir hve slösuð, andlaus og kvalin hún var þá leið ekki yfir hana. Eftir langa stund náði hún að rétta sig upp í grúfu, eftir aðra lengri náði hún að draga andann. "Sár.. sársaukinn .. er .. óbærilegur" kveinaði hún með andköfum. Loks þegar hún fann kraft til að rétta sig upp blasti við henni rítingslaga steinn sem stungist hafði djúpt í miðjan kvið hennar. "Maginn minn .. hvað á ég að gera .." kjökraði hún. Hún lokaði augunum, greip um steininn og togaði af lífs og sálar kröftum, og í hvert sinn sem henni tókst að safna saman kröftum reyndi hún aftur, í fleiri skipti en hún gat talið uppskar hún einungis lamandi og blindandi sársauka, þar til rítingslaga grjótið losnaði úr kvið hennar.

Eftir að því er virtist heil eilífð fann hún styrk til að stíga á fætur og haltra upp á hæð í grenndinni, töluvert blóð vall enn úr svöðusárinu á kviðnum svo hún skildi eftir sig dökkrauða slóð í annars rauðum sandinum. Þegar upp á hæðina var komið leit hún í kringum sig.

Það var ekki stingandi strá að sjá á þessari hrjóstugu plánetu. Gígar eftir loftsteina í eflaust öllum stærðum og gerðum huldu yfirborðið í allar áttir. Hafið sem hafði virst fagurblátt úr fjarlægð geislaði frá sér óhugnarlegum ljóma sem gat eflaust brætt húðina af hverjum þeim sem hætti sér of nærri.

Höfðu öll lögin bara verið lygi? Þessar fallegu tilfinningaríku laglínur bara vindur og önnur náttúruöfl að gera henni grikk? Var hlýja tilfinningin sem Karína hafði fundið líka .. lygi? Kannski hafði hún leyft ástríðunni vellandi innra með sér spila með sig, látið hana sjá eitthvað sem var ekki til staðar? "Það .. getur ekki .." Þegar hugmyndin hafði tekið yfir hug hennar fann hún hjartað sitt bresta. "EINHVER!!! ER EINHVER .. ÞARNA ÚTI?!?!" grét hún. Það kom ekkert svar. Einungist vælið í vindinum sem var tekinn að aukast, svo mikið að vælið yfirgnæfði grátinn hennar.

Hún starði í átt að strengnum sem hún hafði komið hingað með. Jafnvel þó hún hefði viljastyrkinn til að ferðast aftur heim, í þessu þyngdarafli, þá hafði hún hvorki líkamlegan styrk né burði til að klifra upp strenginn.

Karína mundi skyndilega eftir bakpokanum sínum sem hékk enn á bakinu hennar, undarlega heillegur eftir brotlendinguna. Hún tók hann af sér og fór í gegnum innihaldið. Henni til undrunar virtist gjöfin, kristalkúlan sem innihélt örlítinn bita af litlu plánetunni hennar, vera heil, ósködduð. Karína lyfti kristalkúlunni varlega uppúr bakpokanum en nánast samstundist klofnaði kristalkúlan með háværum bresti. Innihaldið visnaði, dó og lak niður í yfirborðið líkt og sandur. Samhliða því brast hjarta Karínar öðru sinni á plánetunni eyðilegu, hún var sannarlega ein.

Karína grét, hægt og rólega gleymdi hún sársaukanum frá sárum sínum, enn grét hún er hún loks sofnaði. Hana tók að dreyma, og í draumum sínum heyrði hún þjakaða rödd. "Þetta .. er ég," áttaði hún sig á, í draumnum birtist hún sjálf, sitjandi á grúfu, grátandi, hristandi strenginn aftur og aftur, tár streymdu niður kinnarnar þar sem hún grét niðurbrotin. Karína reyndi að ávarpa sjálfa sig, "Þetta er nóg .. hættu að gráta .. þú varst ein alveg frá upphafi .." seinustu orðin ómuðu í huga hennar þegar hún vaknaði, "Hvað var það aftur allt sem ég sagði?" hugsaði hún. Hún var leið og einmana, en sársaukinn frá sárum hennar hafði dvínað umtalsvert.

Þremur mánuðum síðar

Veðurskilyrðin voru hörð. Tvo af hverjum þremur dögum féll grjót af himnum eins og haglél, hina dagana annaðhvort þyrlaði harður vindur upp ryki og sandi eða rigndi sýruregni. Karína fylgdist með óblíðu veðrinu úr skjóli sem hún hafði fundið sér. Hún hugsaði aftur til dagsins sem hún hafði komið hingað, þá hafði verið heiðskírt og allt að því logn miðað við veðrið sem hafði dunið eftir það. "Kannski var það heppni .. eða óheppni." hugsaði hún. Svöðusárið á kvið hennar hafði gróið að mestu. Á gömlu litlu plánetunni sinni hafði Karína fylgst með hinni ýmsu fánu, dýrum sem höfðu hlotið höfðu að er virtist álíka alvarlega áverka og Karína hlaut við brotlendinguna, þau höfðu aldrei þraukað lengi. Í raun skildi Karína ekki hvernig á því stóð að hún var enn á lífi. "Ég hef enn þessa tilfinningu innra með mér sem hvetur mig að halda áfram," sagði hún, "hey, Karína,"

Til að leiða hugann frá einmanaleikanum hafði hún gert fígúru úr steini. Nafn fígúrunnar var það sama og hennar eigið. Hún óttaðist að hún myndi ekki umbera það ef eitthvað með annað nafn en hennar eigið mundi glatast eða eyðileggjast. Við hvert tækifæri hóf hún samræður við fígúruna svo hún ætti ekki hættu á að glata tungumálinu sínu, jafnvel þó henni liði að hluta eins og það gæti í raun ekki gerst.

Þessar skrítnu undarlegu laglínur sem hún hafði heyrt héðan á gömlu plánetunni sinni, þetta höfðu væntanlega bara verið einhverjar tálsýnir, hyllingar ..

"Vindinn er að lægja!" sagði Karína við Karínu. Steinhaglélið var hætt, það var farið að stytta upp, Karína vissi að lognið átti þó einungis eftir að vara mest í örfáar klukkustundir. Í snatri lagði hún af stað í leit að æti.

Karína fór í gegnum grjóthrúgur og týndi frá þá steina sem litu út fyrir að vera ætir. Þessir tilteknu "ætu steinar" voru eitraðir haglsteinar sem höfðu nýlega fallið og voru umluktir einskonar öskukleprum, en Karína hafði fundið leið til að aðskilja eitrið frá þessum steinum. Bragðsnautt en drykkjarhæft vatn seitlaði einnig upp úr vatnsuppsprettum sem birtust og þornuðu upp daglega, en Karína var komin með tilfinningu fyrir því hvar uppspretturnar væri að finna dag frá degi.

Í þessum uppsprettum hafði Karína fundið lífverur sem hún hafði gefið nafnið "svartar skrúfur", hún veiddi þær og slægði það litla kjöt sem fékkst af þeim. Fyrsta skiptið sem hún hafði fundið svona uppsprettu hafði hún vaðið útí vatnið, þann dag höfðu lífverurnar hegðað sér eins og iglur, bitið hana og sogið blóð, sú sundferð hafði orðið mikil þrekraun.

Jafnvel á eins líflaust útlítandi plánetu og þessari þá var engu að síður lífverur að finna sem nærðust á eitri. Karína var furðulostin yfir því. Hún prófaði að matreiða og borða kjötið sem hún hafði slægt af svörtu skrúfunum, en uppskar háan hita og þunga drauma í heila tvo daga, eftir það át hún þær ekki aftur. "Já já, færið ykkur bara frá, svörtu skrúfur, svörtu svörtu skrúfur" raulaði hún. Þökk sé eiturétandi íglunum hafði hún drykkarhæft vatn, það kom enn fyrir stöku sinnum að ein og ein þeirra náði að bíta hana, en hún kippti sér minna og minna upp við það þó bitin væru vissulega ónotaleg. Hún varð að gera sér að góðu grjót til átu eitthvað lengur, hún efaðist samt stórlega um að nokkur lífvera gæti lifað á grjóti einu og sér.

Einn daginn hafði rauði strengurinn horfið á braut, leiðin heim var ekki lengur bara torfær heldur var hún alveg horfin.

Ganga.

Næra sig.

Endrum og eins syngja lag.

Sofa ..

Aftur og aftur án frávika af nokkru tagi.

Þessa dagana var ekkert meira sem Karína gat vonast eftir.

Ennþá sá hún í draumum sínum sjálfa sig, hristandi strenginn. "Þessi strengur, ég vildi óska að ég hefði aldrei fundið hann."

Þegar hún loks sleppti takinu af strengnum flæddu hugsanir í koll hennar.

Mánuði síðar

Þegar Karína sneri aftur í skýlið sitt sá hún að Karínu-fígúran hennar hafði eyðilagst. "Hvað gerðist!?" kallaði hún undrandi. Hún virti fyrir sér skýlið og sá að steinhaglið hafði veikt svo mikið loftið á hellismunnanum sem hún hafði löngum gert sér að góðu að hann hafði loks hrunið. "Þú féllst í minn stað litla mín, ekki satt? Hvíl í friði, Karína hin fjórða." Hún var við það að kasta fígúrunni frá sér þegar hún tók eftir að steinninn var flugbeittur þar sem hann hafði klofnað. "Bíddu við, ég get mögulega haft not af þér sem hníf," hugsaði hún. Hingað til hafði reynst henni ómögulegt að smíða tól og verkfæri úr efniviði plánetunnar, en þessi steinn var beittur sem glerbrot, hann ætti mögulega eftir að koma að góðum notum í einhverri klípunni.

Áður en steinhaglélið tæki að falla á ný safnaði Karína saman fórum sínum og lagði af stað í leit að nýju og öruggara skjóli. "Veðrið er einstaklega heiðskírt og gott .." hugsaði hún, "vonandi helst það svona alveg fram á kvöld." Þetta góða veður ætti eftir að auðvelda henni mjög leitina að nýju skjóli. Hún hélt í átt að hafinu eitraða, áður þegar hún hafði reynt að nálgast það hafði hún guggnað vegna ertingar í augum hennar eftir því sem hún nálgaðist hafið, en núna virtust augun hennar ná að aðlagast birtunni sem geislaði frá hafinu. Svöðusárið á kvið hennar var alveg gróið og meltingin var orðin betri. Hugsanlega var líkami hennar orðinn betri í að brjóta niður það sem hún át á þessari plánetu. Að auki fannst henni líkami sinn allverulega léttur, upp að því marki að hún gat hæglega stokkið á milli toppa risavaxinna oddhvassra steinjaka sem mikið var af hér um slóðir. Hún staðnæmdist á toppi eins slíks og virti fyrir sér svæðið í kring "Að fara nær hafinu en þetta er hættulegt," hugsaði hún, "kannski ætti ég að halda í átt að þessum holulegu veðurbörðu fjallgörðum?"

Skyndilega.

Fannst henni eins og einhver hefði kallað til hennar. "Var ég að ímynda mér þetta?" Hún sperrti eyrun.

Niðurinn í stormasömum vindum í órafjarlægð.

Gufustrókar rísandi frá hafinu eitraða.

Fjarlægur dynjandi niður frá steinhagléli.

Daginn sem hún kom hingað hafði veðrið verið álíka og nú ef ekki bara eins.

Þessi tónn ..

"ÉG HEYRÐI ÞAÐ!!!"

Karína stökk niður af toppi jakans, þar sem hún lenti við rætur hans spyrnti hún sér í áttina að uppruna hljóðsins. Létt á fæti stökk hún, flaug hún, um landslagið, í átt að hafinu, þar til hún loks sá það.

Þar sem hafið eitraða og bjarta mætti landinu, í gjá, eða firði frekar, með tröllvaxna steingerða jaka gnæfandi skávallt yfir fjörðinn frá sitthvorum endum, úti á litlu nesi í miðjum firðinum, var kunnuglegur þunnur strengur, spunninn úr ljósi, hangandi frá himni niður á grannt nesið, nema strengurinn var ekki rauður, heldur blár, bjarminn frá honum litaði upp fjörðinn og tröllvöxnu yfirhangandi jakana.

Karína hélt áleiðis niður á nesið. Spíralskreyttur blár strengurinn bærðist til í vindinum. Tónninn sem hafði leitt hana hingað heyrðist ekki lengur. "Hafði hann komið frá strengnum?" spurði hún sig. Hún hafði ferðast nokkuð víða um plánetuna þann tíma sem hún hafði verið hérna, aldrei hafði hún tekið eftir eða grunað að annar strengur væri hérna. Hún trúði þessu varla enn. Var hann nýtilkominn? Eða hafði hann alltaf verið hérna? Bíðandi eftir henni? Bíðandi eftir að hún fyndi hann?

Niðurinn í fjarlægum vindum, sláttur fallandi steina í órafjarlægð, það var það eina sem hún heyrði. Tónninn sem hafði áður heyrst frá strengnum var ógreinanlegur. Það eina sem barst eyrum hennar voru fjarlæg bergmál. Karína hugsaði aftur til endurtekinna drauma sinna.

Á þessum punkti fannst henni ólíklegt að næsta stjarna hefði nokkurn ábúanda.

Og næstu stjörnur handan hennar.

Það var allt eins líklegt að engan og ekkert væri þar að finna.

Niðurbrotinn ferðalangur, þjakaður af einmanaleika, gat vart hreyft sig.

"Það er ekki ég. Ég get enn .."

Sorgmæddur kallaði þessi einhver út í tómið.

"Þetta er allt í lagi. Ég heyri það klárlega."

"Eitthvað kallaði til mín, og ég kom hingað."

"Ég get ennþá .. hreyft hendur mínar og fætur, svo .."

".. svo gerðu það, ÞRAUKAÐU!!" kallaði Karína og togaði þéttingsfast í strenginn.

Í órafjarlægð, lengst úti í tindrandi tóminu, barst sterkur kippur í bláan streng í höndum einmana ferðalangs.

Þessi yfirþyrmandi einmanaleiki sem Karína hafði mátt þola, kannski var það draumur, óskhyggja. En aftur hóf tónninn að óma frá strengnum. Karína leit upp í miðdægurhimininn, og sá þyrpingu stjarna í gegnum op í skýjunum. Stormurinn kæmi ekki fyrr en tæki að kvölda, og hún var með allar eigur sínar á sér. Henni til undrunar vafðist spíralstrengurinn auðveldlega í höndum hennar.

"Það tók töluverða stund, en ég fann loks strenginn." Karína þakkaði fyrir sig og kvaddi. "Takk, og bless."

"Ég er fullviss um að ferðalagið verður erfitt. Er ég tilbúin?" Karína hóf upp hnífinn sinn, "Karína .. hversu lengi hef ég látið þig bíða? Ég verð að drífa mig af stað, er það ekki?" Hún hóf hnífinn á loft og tók að skera langt hárið sitt sem hafði fengið vaxa óhindrað þann tíma sem hún hafði eytt á þessari plánetu. Þegar hárið var stuttklippt slíðraði hún hnífinn og greip af festu og áræðni í strenginn. "Jæja þá!" Í augum hennar glitraði stjarnan sem hún hafði sjónar á. Af öllum kröftum hífði hún sig af stað upp í himininn. "Af stað!"

Einhverstaðar í órafjarlægð á jaðri myrkurs heimsins, liggur lítil pláneta, þar sem lítil stúlka bjó einsömul. Þessi stúlka er ekki lengur hérna. Hún mun ekki koma aftur heim, hún er á ferðalagi, langt, langt í burtu.

Karína var enn þarna úti einhverstaðar, flakkandi milli stjarna, ein, á ferð um himinhvolfið.

Og á meðan strengur stjörnumerkis var þræddur, bærðust á næstu plánetu draumar um heimsóknir úr órafjarlægð.

Ef einhverntímann skyldir þú rekast á stjörnustreng, skaltu handleika hann vandlega. Hann gæti borið með sér nið fjarlægra vinda og einmanaleika hennar. Svo þegar niður vindanna ef yfirgnæfður af stórkostlegum tón, þætti mér vænt um ef þú sendir til baka uppáhalds laglínuna þína.

Ganga,

borða,

endrum og eins syngja söng,

og að endingu, sofa ..

Þetta, ásamt komandi morgundeginum .. er það mikilfenglegasta sem hægt er að óska sér.


https://imgur.com/a/f9tpg

Sign up for free to join this conversation on GitHub. Already have an account? Sign in to comment