Komið þið sæl,
Í febrúar 2022 sótti ég um nafnið "Legolas" fyrir stóðhestinn minn undan Flækju frá Giljahlíð og Ljósálfi frá Syðri-Gegnishólum.
Eftirfarandi skýringu og rökstuðning lét ég fylgja með umsókninni.
Skýring: Legolas er nafnið á ljósálfinum í Hringadróttinssögu. Nafnið fór ekki sjálfkrafa inn þegar ég skráði Legolas í Worldfeng. Okkur finnst nafnið eiga sérlega vel við son Ljósálfs frá Syðri-Gegnishólum, sem er að auki alveg eins rauðskjóttur og faðirinn. Nafnið er nú þegar til á skráðum hrossum í Worldfeng.
Rökstuðningur: Nafnið Legolas er nú þegar til á skráðum hrossum í Worldfeng. Það er notað í íslenskri þýðingu sem nafn á ljósálfinum í Hringadróttinssögu. Legolas er fallegt nafn á Ljósálfssyni. Legolas beygist eins og Atlas, Nikulás, Nikolas, Andreas, Elías, Jeremías, Jónas, Lúkas og Matthías svo nokkur dæmi séu nefnd.
Við umsókn minni fékk ég höfnun á grundvelli þess að nafnið hafi verið sett á lista yfir höfnuð nöfn árið 2016. Í heild sinni var svarið svohljóðandi:
Sæl Hildur,
Nafnið Legolas er á lista yfir höfnuð nöfn í WorldFeng (WF) og hefur verið það allt frá árinu 2016. Því var hafnað þar sem það samræmist ekki nafnareglum WF (ekki íslenska og finnst ekki í íslenskum orðabókum). Þau hross sem finnast í WF með þessu tiltekna nafni voru öll skráð áður en að nafnareglur tóku gildi. Ég setti nafnareglur í viðhengi þessa pósts.
Kveðja, Kristín
Ég var og er undrandi á þessari höfnun og óskaði nánari skýringa sem og að nefndin myndi endurskoða afstöðu sína frá 2016 til nafnsins "Legolas". Svar sem ég fékk við því var eftirfarandi:
Sæl Edda
Samkvæmt reglum FEIF skulu nöfn sem skráð eru í WorldFeng vera á íslensku. Hvað sem skuli teljast vera íslenska er síðan vissulega ekki alltaf einfalt og hafa nöfn úr hringadróttinssögu reglulega skotið upp kollinum í þeim efnum. Mörg þeirra nafna sem þar koma fyrir eru á íslensku í þýðingu Þorsteins Thorarensen og er þau að finna í íslenskri orðabók (Frodo => Fróði, Gandalf => Gandálfur, Denethor => Dynþór osfrv.). Önnur nöfn voru ekki þýdd, t.d. Aragon, Legolas, Arwen, Galadriel, Éomer ofl. og er þau ekki að finna í íslenskri orðabók og því samkvæmt skilgreiningu ekki íslensk orð.
Það er ekki í verkahring skrásetjara WorldFengs að skera úr um hvað skuli teljast íslenska heldur er miðað við orðabækur til að fá úr því skorið en í vafatilfellum er leitað til sérfræðinga Árnastofnunar.
Með þeirri sameiginlegu ákvörðun allra aðildarlanda FEIF á aðalfundi samtakanna í febrúar 2016, að nöfn sem skráð eru í WorldFeng skuli vera íslensk, lokaðist á skráningu á nöfnum sem ekki eru skráð í nafnabanka WorldFengs. Það eru til að mynda 13 hestar skráðir í WorldFeng með nafnið Legolas, en allir eru þeir skráðir árið 2015 og fyrr.
Sú ákvörðun að hafna nafninu Legolas/Logólas byggir því á þeirri einföldu staðreynd að nafnið er ekki að finna í íslenskri orðabók og telst því ekki uppfylla þau skilyrði sem FEIF setur fyrir skráningu nafna í WorldFeng.
Kveðja, Kristín
Þarna var ég afvegaleidd, mér var tjáð trú um að ástæða höfnunarinnar væri að nafnið Legolas fyndist ekki í íslenskum orðabókum og staðhæft var að slíkt væri skylda samkvæmt reglum FEIF svo að nafn fengi brautargengi. Einnig var mér tjáð að þegar upp kæmu vafatilfelli væri leitað til sérfræðinga Árnastofnunar.
Leitaði ég því til Árnastofnunar og fékk eftirfarandi svör frá þeim:
Sæl.
Ég vil benda á nokkur atriði. Árnastofnun hefur ekkert með nöfn á hestum að gera, þau eru algerlega á vegum einkaaðila. Nöfn á dýrum eru almennt ekki í orðabókum (svo það fæst ekki viðurkenning á dýranafni eftir þeirri leið). Við hér á stofnuninni höfum því ekkert um þetta að segja, við höfum ekki úrskurðarvald í þessum efnum.
En þú þarft að fá einhverja úrlausn heyrist mér. Er þér mikið í mun að kalla hestinn Legolas? [..] Persónulega finnst mér samt að fólk megi kalla dýrið sitt það sem það vill.
Sennilega þarftu bara að hlíta reglum hestanafnanefndarinnar og finna annað nafn og geyma Legolas nafnið handa hesti sem ekki fer á sýningu eða í keppni eða slíkt. Því miður, en mér heyrist að nefndin fari eftir stífum reglum um hestanöfn.
Vandamál þitt er ekki að fá orðið inn í orðabækur heldur þarftu að telja hestanafnanefndinni hughvarf. Nöfn á hestum eru ekki viðfangsefni stofnunarinnar.
Kveðja, Þórdís
Það er að segja, Árnastofnun telur nöfn á hestum ekki vera viðfangsefni stofnunarinnar og vísar málinu alfarið til Hestanafnanefndar.
Þá tók Kristín í Hestanafnanefnd fram í svarinu til mín að nokkur nöfn úr Hringadróttinssögu höfðu verið samþykkt þar sem þau töldust hafa verið þýdd, þar á meðal voru Fróði, Gandálfur og Dynþór. Þá var haldið fram að nöfnin Aragorn, Legolas, Arwen, Galadríel og Éomer hefðu ekki verið þýdd og því verið hafnað.
Vil ég benda á að nöfnin Aragorn, Legolas, Arven og Galadríel fengu öll íslenska fallbeygingu og voru þannig og þar með þýdd. Varla getur staðist að fella eigi nöfn af þeirri einu ástæðu að nefnifall þeirra standi óbreytt, sem er meira til marks um að nafnið falli vel að íslensku máli heldur en hið gagnstæða. Umrædd nöfn eru öll fallbeygð í íslenskri þýðingu Hringadróttinssögu. Hér er Aragorn, um Aragorn, frá Aragorni, til Aragorns. Hér er Legolas, um Legolas, frá Legolasi, til Legolasar. Hér er Arven, um Arven, frá Arven, til Arvenar. Hér er Galadríel, um Galadríel, frá Galadríel, til Galadríelar.
Þá vil ég einnig benda á að hestur fékkst skráður í WorldFeng með nafnið Aragon árið 2018, eftir að nafnareglurnar tóku gildi, að auki eru tveir hestar skráðir með það nafn árið 2016. Aragon er leyfilegt en Aragorn og Legolas eru það ekki?
Nafnareglur FEIF eru svohljóðandi:
G5.3.6 Nafngiftir íslenskra hrossa í WorldFeng (p. 28)
Hestaeigendur skrá nafn og uppruna hrossa sinna í WorldFeng. Hvert hross má nefna að hámarki tveimur nöfnum. Hross verður að nefna áður en þau eru sýnd í kynbótadómi, eða í keppni sem er skráð í WorldFeng. Ekki er hægt að breyta því þar eftir. Enn fremur er ekki hægt að breyta nafni á hrossi eftir að það er komið með skráð afkvæmi í WorldFeng. Hestaeigendur hafa nafnabanka WorldFengs (listi með samþykktum nöfnum) til viðmiðunar við nafnagjöf, en sé það nafn sem þeir hafa í huga ekki í nafnabankanum, geta þeir sótt um leyfi fyrir nafninu. Nafni sem hlýtur samþykki er bætt inn í nafnabankann.
Eftirtaldar reglur gilda um nafngiftir á hrossum sem skráð eru í WorldFeng:
- Nöfn sem eru skráð í WorldFeng eiga að vera á íslensku og samræmast íslenskum rithætti og málfræðireglum.
- Nöfn skulu vera í karlkyni fyrir stóðhesta/geldinga og kvenkyni fyrir hryssur, hvorugkyns orð eru ekki leyfð sem nöfn. Nöfn sem eingöngu samanstanda af skammstöfunum eru ekki leyfð.
- Nöfn sem eru ruddaleg eða hafa klúra meiningu, nöfn sem þykja ekki smekkleg eða eru dónaleg gagnvart trúar-, eða þjóðfélagslegum hópum eru ekki leyfð.
- Forsetning sem samsvarar íslensku forsetningunni „frá“ á tungumáli viðkomandi lands skal vera notað; íslensku forsetninguna „frá“ eða forsetninguna „fra“ má líka nota.
Ljóst er að engin krafa er gerð í nafnareglum FEIF um að nöfn skuli finnast í íslenskum orðabókum, en eftirfarandi kröfur eru gerðar og allar eru þær uppfylltar fyrir nafnið Legolas:
[x] nafn skal vera á íslensku og samræmast íslenskum rithætti og málfræðireglum, Legolas tekur íslenska beygingu sem samræmist vel íslenskum rithætti og málfræðireglum og fellur því vel að íslensku máli, þar að auki er nafnið vel þekkt meðal íslendinga
[x] nafn skal vera í karlkyni fyrir stóðhesta/geldinga og kvenkyni fyrir hryssur
[x] nafn skal ekki samanstanda eingöngu af skammstöfun
[x] nafn má ekki vera ruddalegt, hafa klúra meiningu, vera ósmekklegt eða dónalegt gagnvart trúarhópum eða þjóðfélagslegum hópum
Með þessu bréfi óska ég eftir því að Hestanafnanefnd endurskoði aftur ákvörðun sína frá 2016 um höfnun á nafninu Legolas.
Þá óska ég eftir að tekið sé skýrt fram á hvaða forsendum í nafnareglum FEIF nafninu Legolas sé hafnað verði það aftur niðurstaða Hestanafnanefndar.
Vil ég benda á að ástæðan sem mér var að endingu gefin fyrir höfnun nafnsins árið 2022 frá Kristínu, að nafnið Legolas finnist ekki í íslenskri orðabók, eigi sér ekki stoð í nafnareglum FEIF.
Þá vil ég að auki árétta að nafnið Legolas finnst í ýmsum rafrænum íslenskum fréttagreinum:
- https://www.ruv.is/frettir/innlent/eins-og-ad-legolas-og-aragorn-vaeru-ad-rappa
- https://www.mbl.is/folk/frettir/2018/06/20/skotinn_i_motleikkonu_sinni_i_leyni/
- https://www.mbl.is/folk/frettir/2005/08/08/valdamikil_ungmenni_i_draumaborginni_vestanhafs/
- https://www.mbl.is/folk/frettir/2004/06/14/orlando_bloom_kynthokkafyllsti_karlmadur_bretlandse/
- https://www.mbl.is/folk/frettir/2004/03/18/vilja_fa_orlando_bloom_til_ad_leika_james_bond/
- https://www.mbl.is/folk/frettir/2003/02/25/freestyle_keppni_tonabaejar_haldin_um_helgina_fjor_/
- https://www.mbl.is/frettir/taekni/2002/09/30/synishorn_fra_turnunum_tveimur_a_netid/
- https://www.mbl.is/folk/frettir/2002/08/07/undirbuningur_fyrir_turnana_tvo/
- https://www.visir.is/g/2013131209713/orlando-bloom-hefur-aldrei-lesid-hringadrottinssogu
- https://www.visir.is/g/2018180629757/jatadi-ad-hafa-verid-skotinn-i-cate-blanchett
- https://www.visir.is/g/2010681139471/bloom-i-hobbitanum
- https://www.visir.is/g/2004407280363/brosnan-haettur-sem-bond
- https://www.visir.is/g/2004406140478/orlando-bloom-kynthokkafyllstur
- https://www.visir.is/g/2019190829417/reynslunni-rikari-eftir-sambandid-vid-kerr-en-vill-aldrei-aftur-skilja
- https://www.visir.is/g/20212095099d/einhleypan-dreymir-um-hotelstefnumot-i-hvitum-badslopp
sem og í rafrænum íslenskum orðasöfnum:
Legolas (Nn) frá Giljahlíð IS2019135855 verður í Stóðhestabók Eiðfaxa 2024 undir nafninu Legolas, ritnefnd stóðhestabókarinnar fjarlægði "Nn" án þess að ég kæmi þar nærri. Legolas á afkvæmi á hverju ári síðan 2022 og stefnt er með hann í kynbótasýningu fyrir Landsmót 2024.
Hross verður að nefna áður en þau eru sýnd í kynbótadómi, eða í keppni sem er skráð í WorldFeng. Því liggur á að fá niðurstöðu í þetta mál.
Virðingarfyllst,
Edda