Skip to content

Instantly share code, notes, and snippets.

@Loknar
Last active August 4, 2020 19:38
Show Gist options
  • Save Loknar/66c21821e4d9d7f0e24ccabbecad064e to your computer and use it in GitHub Desktop.
Save Loknar/66c21821e4d9d7f0e24ccabbecad064e to your computer and use it in GitHub Desktop.
Íslensk þýðing á Worm, kafla 1.1, https://parahumans.wordpress.com/2011/06/11/1-1/

Ormur

Stutt athugasemd frá höfundi: Þessi saga er ekki hugsuð fyrir unga eða viðkvæma lesendur. Lesendum sem vilja forðast kveikjuvanlíðan er ráðlagt að sleppa því að lesa Orm.

Kafli 1 - Myndbreyting

Myndbreyting 1.1

Fimm mínútur voru eftir af kennslustundinni og það eina sem ég gat hugsað um var, klukkustund er of langur tími fyrir matartíma.

Frá upphafi annar hafði ég hlakkað til hlutans í Heimsmálatímum hjá Herra Gladly þar sem við mundum fjalla um skikkjur. Nú þegar komið var að því gat ég ekki einbeitt mér. Ég var eirðarlaus, færði pennan úr hönd í hönd, smellandi honum, eða annars hugar teiknandi fígúru í hornið á blaðsíðunni við hliðina á hinum skissunum. Augun mín voru líka eirðarlaus, flakkandi frá klukkunni fyrir ofan kennslustofuhurðina og aftur á klukkuna. Ég var ekki að meðtaka nógu mikið af kennslunni hjá Herra Gladly til að halda þræðinum á efninu. Vantaði tuttugu mínútur í tólf; fimm mínútur eftir af kennslustundinni.

Hann var líflegur, greinilega áhugasamur um efnið sem hann var að fara yfir, og til tilbreytingar hlustuðu nemendur af athygli. Hann var svona týpa af kennara sem reyndi að gerast vinur nemenda sinna, týpa sem gekk undir viðurnefninu "Herra G" í stað "Herra Gladly". Hann átti það til að enda kennslustundirnar aðeins fyrr og spjalla við vinsælu krakkana, notaðist mikið við hópavinnu svo aðrir gætu hangið saman í hóp með vinum sínum í tíma, og lét nemendur gera 'skemmtileg' verkefni eins og þykjustunni réttarhöld og fleira.

Ég sá fyrir mér að hann hafi verið einn af 'vinsælu' krökkunum sem gerðist síðan kennari. Líklega taldi hann sig vera uppáhalds kennara allra nemendanna. Ég velti fyrir mér hvernig hann hann mundi bregðast við ef hann heyrði hvað mér fyndist um það. Mundi það brjóta sjálfsmynd hans eða mundi hann hrista það af sér og flokka sem óhjákvæmilegt frávik, frá litlausu stelpunni sem aldrei tjáði sig í tíma?

Ég gægðist yfir öxlina. Madison Clements sat tvær raðir til vinstri og tvær raðir til baka. Hún spottaði mig horfa og glotti og pírði augun, ég leit aftur á stílabókina mina. Ég reyndi að leiða hjá mér ljótu súru tilfinninguna sem mallaði í maganum. Ég leit upp á klukkuna. Ellefu fjörutíu-og-þrír.

"Segjum þetta gott hér," sagði Herra Gladly, "Mér þykir það leitt, en ég er með heimanám handa ykkur inn í helgina. Hugsið um skikkjur og hvernig þær hafa haft áhrif á heiminn í kringum ykkur. Gerið lista ef þið viljið, en það er ekki skylda. Á mánudaginn skiptum við okkur í fjögurra manna hópa og sjáum hvaða hópur er með besta listann. Fyrir sigurhópinn mun ég kaupa verðlaun úr sjálfsalanum."

Fagnaðaróp hljómuðu, og hávaði yfirtók kennslustofuna. Hljóð úr námsbókum skellt saman, rennilásum rennt upp, ískur í stólum og skvaldur dundi í eyrum. Hópur nemenda sem voru meira virkir í félagslífinu en aðrir flykktust til Herra Gladly til að spjalla.

Ég? Ég gekk rólega frá bókunum og þagði. Ég hafði eiginlega ekkert glósað hjá mér; það voru nokkrar skissur og skrítlur á blaðsíðunni og tölur á hliðinni þar sem ég hafði talið niður mínúturnar að matarhlé eins og um væri að ræða niðurtalningu á tímasprengju.

Madison var að spjalla við vini sína. Hún var vinsæl, en ekki einhver fegurðardís eins og stereotýpu vinsælu stelpurnar í sjónvarpsþáttunum voru. Hún var 'aðdáunarverð' í staðinn. Grönn. Hún spilaði upp ímyndina með himinbláum prjónum í axlarlöngu brúnu hárinu og krúttlegu viðmóti. Madison var í straplausum toppi og gallabuxnapilsi, sem var fáránlegt í mínum augum þar sem það var enn snemma vors og við gátum séð andardráttinn okkar í kuldanum á morgnanna.

Ég var ekki alveg í stöðu til að gagnrýna hana. Drengir voru hrifnir af henni og hún átti vini, á meðan það gilti á engan hátt um mig. Eini kvenlegi eiginleikinn sem ég hafði var dökkt hrokkið hár sem ég hafði leyft að vaxa langt. Fötin sem ég klæddist sýndu lítið eða ekki neitt og voru tiltölulega litlaus.

Strákar voru hrifnir af henni, held ég, af því að hún var aðlaðandi án þess að vera ógnvekjandi.

Bara ef þeir vissu.

Bjallan hringdi með dynjandi bjölluslætti og ég var fyrst út um dyrnar. Ég hljóp ekki, en gekk þó rösklega á meðan ég nálgaðist stigaganginn að þriðju hæð og lagði leið mína inn á kvennaklósettið.

Það var hálf tylft stelpna þar inni nú þegar, sem þýddi að ég þurfti að bíða eftir að salernisbás losnaði. Ég horfði stressuð á baðherbergishurðina, hjartað mitt sökk í hvert sinn sem einhver opnaði hana og gekk inn.

Um leið og salerni losnaði strunsaði ég inn og læsti hurðinni. Ég hallaði mér að veggnum og andaði rólega frá mér. Það var ekki léttir sem ég fann fyrir. Léttir lét manni líða betur. Mér mundi ekki líða betur fyrr en ég væri komin heim. Nei, ég var bara aðeins minna óróleg.

Það liðu kannski fimm mínútur áður en ró færðist yfir salernisherbergið. Ég gægðist undir básinn í báðar áttir og sá að hinir básarnir voru auðir. Ég settist á klósettið og tók upp brúna nestispokann minn og byrjaði að borða.

Hádegismatur á salerninu var orðinn að venju núna. Á hverjum skóladegi kláraði ég þar hádegismatinn úr brúna nestispokanum mínum, vann svo heimavinnu eða las bók þar til hádegishléið kláraðist. Eina bókin sem ég var með og hafði ekki lesið bar nafnið "Triumpvirate" og var ævisaga þriggja þekktra meðlima í Protectorate. Ég hugsaði með mér að vinna frekar í heimanáminu sem Herra Gladly setti fyrir frekar en að lesa, því ég hafði ekki notið þess að lesa hana hingað til. Mér fannst ævisögur ekki spennandi og ekki hjálpaði að ég hafði sterkan grun um að þessi væri meira og minna uppskálduð.

Ég komst ekki langt með þetta plan mitt, ég var ekki einu sinni búin með pítuvefjuna mína. Hurðin á kvennaklósettinu opnaðist með látum. Ég fraus. Ég vildi ekki láta heyrast skrjáfur í nestispokanum og koma þannig upp um hvað ég væri að gera, svo ég sat grafkjurr og hlustaði.

Ég náði ekki að greina raddirnar. Skvaldrið var samofið flissi og rennandi vatnsbunu í vöskunum. Það var bankað á hurðina á klefanum mínum sem fékk mig til að kippast við. Ég hundsaði það en manneskjan bankaði aftur.

"Upptekið," kallaði ég hikandi.

"Ó jeminn, þetta er Taylor!" kallaði ein stelpan fagnandi, við bættist hvísl frá annarri stelpu, ég rétt náði að greina svarið frá fyrri stelpunni, "Já, gerum það!"

Ég stóð snöggt upp og brúni nestispokann minn féll niður á flísalagt gólfið. Ég rauk að hurðinni, tók lásinn af og ýtti. Hurðin haggaðist ekki.

Það heyrðist hljóð úr básunum sitthvoru megin við mig, svo fyrir ofan mig. Ég leit upp til að sjá hvað var í var í vændum og við mér tók gusa í andlitið. Mig sveið í augun og ég blindaðist tímabundið af stingandi vökvanum og sá síðan bjagað í gegnum blaut gleraugun mín. Ég fann lykt og bragð þegar vökvinn rann niður nefið og munninn á mér. Trönuberjasafi.

Þær létu ekki staðar numið þar. Ég var rétt búin að taka af mér gleraugun þegar Madison og Sophia gægðust upp yfir í básinn hjá mér, báðar vopnaðar opnum flöskum. Ég beygði höfuðið niður og reyndi að skýla höfðinu með höndunum áður en þær hvolfdu innihaldinu yfir mig.

Vökvinn rann niður í hálsmálið á mér, fötin mín urðu rennblaut, vökvinn freyddi þegar hann rann í gegnum hárið á mér. Ég reyndi aftur að opna hurðina á básnum, en stelpan hinumegin hélt henni lokaðri með því að halla sér að henni.

Ef stelpurnar sem helltu djús og gosi yfir mig voru Madison og Sophia, þá var stelpan hinumegin við hurðina Emma, leiðtogi tríósins. Ég fann reiðina hellast yfir mig við uppgötvunina, ég skellti mér af fullum þunga á hurðina en áorkaði engu og skórnir mínir runnu í bleytunni, ég féll á hnén í pollinn á gólfinu.

Tómar flöskur með greip og trönuberja merkimiðum féllu í gólfið í kringum mig. Flaska af appelsínugosi skoppaði af öxlinni á mér og í djúspollinn og rúllaði inn í básinn við hliðina á mér. Lyktin af blönduðu sullinu var yfirþyrmandi sæt.

Hurðinni á básnum var skellt upp, og ég starði á stelpurnar þrjár. Madison, Sophia og Emma. Madison var krúttleg, hafði ekki tekið út mikinn kvenlegan vöxt ennþá, Sophia og Emma voru hinsvegar búnar að taka út mikinn vöxt og voru orðnar svaka skutlur. Sophia var dökkleit, grönn og með íþróttamannslegan vöxt sem hún hafði unnið sér inn með íþróttaiðkun, hún var í keppnishlaupaliði skólans. Rauðhærða Emma, var með vöxt sem flestir strákar þráðu. Hún var nógu snoppufríð til að fá stöku starf við amatör módel störf fyrir fatalínur í verslunum og mollum. Þær grétu af hlátri allar þrjár, en ég meðtók það varla. Athygli mín var öll á ólgandi blóði dælast í eyrun á mér, og aðkallandi ógnvægleg 'smelluhljóð' sem hvorki minnkuðu né róuðust þó ég bæri hendur fyrir eyrun á mér. Ég fann dropana seytla niður handleggina og bakið á mér, kalda og greinilega nýkomna úr köldum sjálfsalanum.

Ég treysti mér ekki til að segja eitthvað sem mundi hvetja þær til frekari verka, svo ég þagði.

Ég klifraði varlega á fætur og sneri baki í þær til að taka skólatöskuna mína af klósettkassanum. Ég hikaði örlítið þegar ég sá hana. Hún hafði áður verið kakígræn, en var núna með dökkfjólubláa bletti, megnið af greipaldin safanum hafði hæft hana. Ég skellti henni á bakið á mér og setti hendurnar í strappana og sneri mér við. Stelpurnar voru horfnar. Ég heyrði baðherbergishurðina lokast og hlátrasköllin sem höfðu ómað hættu. Eftir stóð ég ein í baðherbergisbásnum, rennblaut.

Ég gekk að vaskinum og starði á sjálfa mig í rispuðum lituðum speglinum fyrir ofan vaskinn. Þunnar varirnar og breiðan svipmikinn munn hafði ég frá móður minni, en augun og klunnalegan vöxtinn hafði ég frá pabba. Dökkt hárið mitt var gegnsósa og klístrað upp við hársvörðinn, hálsinn og axlirnar. Ég var í brúnni hettupeysu og grænum bol innanundir, en hvor tveggja voru hulin fjólubláum, rauðum og appelsínugulum blettum. Gleraugun voru klístruð, hulin marglita dropum af blöndu af safa og gosi. Það dreitlaði af nefinu mínu og féll af nefbroddinum ofan í vaskinn.

Ég greip pappírsþurrku, þurrkaði gleraugun og setti þau aftur á mig. Þau voru enn klístruð og álíka erfitt að sjá í gegnum þau, ef ekki verra.

Djúpa andardrætti, Taylor, sagði ég við sjálfa mig.

Ég tók gleraugun aftur af mér, strauk af þeim með blautri þurrku, en þau voru enn kámug sá ég.

Taumlaust öskur uppfullt af heift og gremju slapp út um varir mínar og ég sparkaði af alefli í ruslafötuna við hliðina á vaskinum, fatan og klósettbursti við hlið hennar flugu á vegginn. Þegar það var ekki næg útrás slengdi ég skólatöskunni af bakinu og kastaði frá mér með báðum höndum. Ég var hætt að nota skápinn minn; ákveðnir einstaklingar höfðu brotist í og stolið eða misþyrmt innihaldi hans í minnst fjögur skipti. Skólataskan var þung, í henni voru allar námsbækur og stílabækur og annað sem ég taldi mig þurfa fyrir dagana. Ég heyrði eitthvað í töskunni brotna þegar hún skall í vegginn.

"Hvað í andskotanum !?" öskraði ég í tómu baðherberginu, röddin endurómaði af flísuðum veggjum baðherbergisins. Tár brutust fram úr augunum.

"Hvað í fjandanum á ég að gera !?" Mig langaði að berja eitthvað. Til að ná mér niðri á ósanngirni heimsins. Ég var við það að berja spegilinn en náði að halda aftur af mér. Það var svo smálátlegt að það hefði eflaust látið mér finnast ég enn ómerkilegri í stað þess að sefa gremjuna sem kraumaði í mér.

Þetta ástand hafði ég þraukað í gegnum allt frá fyrsta degi menntaskólans, fyrir einu og hálfu ári síðan. Kvennasalernin höfðu verið mér griðarstaður. Það hafði verið einmanalegt og ómerkilegt, en það hafði hingað til verið staður sem ég gat flúið til og fengið að dúsa í friði, staður þar sem ég var utan ratsjár stelpnanna. Núna hafði ég það ekki lengur.

Ég vissi ekki einu sinni hvað ég ætti til bragðs að taka með tímana eftir hádegið. Við áttum að skila miðannaverkefni í List og sköpun í dag, og ég gat ekki mætt í tímann svona útlítandi. Sophia yrði þar og ég sá fyrir mér sjálfsumglaða glottið á henni ef ég mundi sýna mig svona, eins og ég hefði reynt en klúðrað að lita allar eigur mínar.

Að auki hafði ég grýtt töskunni minni í vegginn og ég efaðist um að verkefnið mitt væri enn í heilu lagi.

Suðið á brún meðvitundar minnar fór versnandi. Hendurnar titruðu þegar ég beygði mig og greip í vaskinn, ég dró djúpt andann og andaði hægt frá og lét varnir mínar falla. Í þrjá mánuði hafði ég haldið aftur af mér. En núna? Mér gat ekki verið meira sama.

Ég lokaði augunum og fann suðið kristallast saman í heilsteyptar upplýsingar. Óteljandi eins og stjörnur á næturhimninum, fylltu litlir hnútar af flóknum gögnum svæðið í kringum mig. Ég gat beint athyglinni að hverjum og einum þeirra, valið upplýsingar. Öldur af gagnahnútum höfðu af einskonar eðlishvötum nálgast mig allt frá því ég fékk gusuna í andlitið. Þær svöruðu undirmeðvitundarhugsunum mínum og tilfinningum, jafn mikið og þær endurspegluðu gremju mína, reiði, hatur gagnvart þessum þremur stúlkum, hjartað mitt dundi og hendurnar titruðu. Ég gat stýrt öldunum, látið þær stoppa eða beint þeim hvert sem er nánast án þess að hugsa einu sinni um það, jafn eðlislægt og að lyfta hendinni eða hreyfa fingurna.

Ég opnaði augun. Ég fann adrenalín streyma gegnum líkamann, blóð dælast um æðarnar. Um mig fór hrollur sökum kaldra drykkjanna sem tríóið hafði sturtað yfir mig, eftirvænting skók mig en einnig vottur af ótta. Á hverju einasta yfirborði baðherbergisins voru pöddur; Flugur, maurar, köngulær, margfætlur, þúsundfætlur, kakkalakkar, bjöllur, geitungar og býflugur. Með hverri sekúndu sem leið streymdu fleiri inn um opinn gluggann og ýmsa aðra innganga inn í baðherbergið, með óvæntum hraða. Sumar skriðu inn um rauf við niðurfallsrörið í gólfinu á meðan aðrar flæddu inn um þríhyrningslaga gat í loftinu þar sem frauðhlíf hafði brotnað af, eða inn um opinn gluggann þar sem flögnuð málning losnaði af timburverkinu og sígarettustubbar í gluggasyllunni duttu niður á gólf. Þær söfnuðust saman í kringum mig og dreifðu sér yfir allt yfirborð sem var í boði; frumstætt samansafn merkja og svara, bíðandi frekari fyrirmæla.

Æfingar sem ég hafði stundað í leyni sögðu mér að ég gat stýrt stöku skordýri til að hreyfa fálmarana sína, eða látið hjörðina í heild marsera að vild. Með einni hugsun gat ég einangrað ákveðinn hóp, eftir þroska eða tegundum, úr hjörðinni og beint þeim eins og ég vildi. Pödduher sem lét fullkomlega að stjórn.

Það yrði svo létt, svo auðvelt að taka Carrie á þetta og mála skólann rauðan. Láta tríóið fá það sem þær áttu svo innilega skilið, láta þær sjá eftir öllu því sem þær höfðu látið mig ganga í gegnum: hótunartölvupóstarnir, ruslið sem þær skildu eftir á borðinu mínu, flautan -flauta mömmu minnar- þær stálu henni úr skápnum mínum. Það var heldur ekki bara þær. Aðrar stelpur höfðu gengið á lagið og einhverjir strákar líka, 'óvart' gleymt mér þegar verið var að útbíta verkefnum, tekið undir fúkyrðin og flóð subbulegra tölvupósta, til að ganga í augun á þremur af vinsælli og sætari stelpunum í árganginum.

Ég var allt of vel meðvituð um að ég kæmist ekki upp með svo dramatíska atlögu, ég mundi nást fljótt ef ég réðist á samnemendur mína. Það voru þrjú teymi af ofurhetjum og fjöldi stakra hetja starfrækt í borginni. Mér stóð samt eiginlega á sama. En hugsunin um pabba að horfa á eftirmálana í sjónvarpsfréttum, vonbrigði hans á mér og skömm? Það var meira stuðandi, en þó ekki nóg til að yfirvinna reiðina og gremjuna.

Nema hvað ég var betri en það.

Með léttu andvarpi sendi ég pöddurnar sem ég hafði sankað að mér í burtu. Tvístrist. Orðið sjálft var ekki svo mikilvægt heldur réði hugmyndin á bak við það. Pöddurnar hófu að yfirgefa salernið, hverfandi ofan í sprungur og holur í flísunum og út um opinn gluggann. Ég gekk upp að hurðinni og hallaði mér að henni svo enginn gæti opnað hana á meðan pöddurnar kláruðu að yfirgefa svæðið.

Eins mikið og mig langaði að snappa, þá gat ég í raun ekki fylgt því eftir. Jafnvel núna þegar ég hafði verið svona líka niðurlægð þá tókst mér að sannfæra mig um að taka aftur upp skólatöskuna og halda af stað inn ganginn. Ég hélt af stað út úr skólanum, gaf því engan gaum að nemendur störðu og flissuðu þegar ég mætti þeim, og greip fyrsta strætisvagninn sem lá í áttina heim. Vorkuldinn bætti á óþægindin af því að vera gegnvot, ég skalf af kulda.

Ég ætlaði að verða ofurhetja. Það var markmiðið sem ég notaði til að halda sönsum á tímum sem þessum. Það var það sem kom mér fram úr rúminu á morgnana og í skólann á skóladegi. Það var klikkaður draumur sem gerði hlutina þolanlega. Það var eitthvað til að hlakka til, eitthvað til að vinna að. Það gerði mér kleift að forðast að dvelja á þeirri staðreynd að Emma Barnes, leiðtogi tríósins, hafði einu sinni verið besta vinkona mín.


Næsti hluti

Sign up for free to join this conversation on GitHub. Already have an account? Sign in to comment