Skip to content

Instantly share code, notes, and snippets.

Show Gist options
  • Save Loknar/fb328cb8edce82b3d09f2085f729956d to your computer and use it in GitHub Desktop.
Save Loknar/fb328cb8edce82b3d09f2085f729956d to your computer and use it in GitHub Desktop.

Upprifjun endurtalningarinnar í norðvestur

opnumynd

Sveinn Flóki Guðmundsson rifjar upp norðvesturmálið sem blossaði upp í kjölfar þingkosninganna 2021.


Norðvestur-málið vakti athygli mína sérstaklega þar sem það kom upp í kjördæminu mínu. Þó innsýn mín í þetta mál sé að megninu til einungis í formi lestrar, hlustunar og áhorfs á fréttir og annað efni sem birt var um þetta mál þá skal tekið fram að mikil vinna fór fram af minni hálfu að fylgjast með þróun málsins. Ég átti ekki þátt að þessu máli annan en þann að kæra kosningarnar til kjörbréfanefndar. Ég eyddi megninu af mínum frítíma frá lokum september til loka nóvember í að fylgjast með því sem gerðist. Ég horfði á og fletti upp nánast hverri einustu frétt, skimaði yfir flest öll þau gögn sem undirbúningskjörbréfanefnd birti um þetta mál og oft þegar ég varð uppiskroppa með nýtt efni til að kynna mér fór ég að leita uppi umræður um málið á samfélagsmiðlum og stundum eldri fréttir sem gætu tengst eða varpað einhverri aukinni innsýn í málið. Stundum rakst ég á vísbendingar, tilgátur og getgátur um hvað nákvæmlega átti sér stað og af hverju. Ég varð heltekinn af þessu máli, það átti hug minn allan yfir þennan tíma.

Lögreglan rannsakaði málið og fann engar sannanir um kosningasvindl

Skellum okkur í þetta.

Kosningum til Alþingis okkar Íslendinga árið 2021 lauk formlega kosningavökulega séð morguninn 2021-09-26 þegar kjörstjórnir allra kjördæma höfðu tilkynnt lokatölur til kosningavakta helstu fréttastöðva.

RÚV.is - "Þessi taka sæti á Alþingi- konur í meirihluta þingmanna" (2021-09-26T10:49)

Málið verður til þegar yfirkjörstjórn norðvesturkjördæmis ákveður skyndilega rétt eftir hádegi 2021-09-26 að framkvæma endurtalningu. Þessi ákvörðun rataði í fréttirnar um klukkan 15:00 þann dag, þó að endurtalningin sjálf hafi að vísu hafist nokkuð fyrr samkvæmt greinargerð sem við förum nánar í síðar.

Vísir.is - "Telja öll atkvæði aftur í Norðvesturkjördæmi" (2021-09-26T14:57)

RÚV.is - "Öll atkvæði í Norðvesturkjördæmi talin aftur" (2021-09-26T15:12)

Ástæðan sem gefin var fyrir endurtalningunni til fréttastöðva var að mjög fá atkvæði skildu á milli hvaða frambjóðendur næðu svokölluðum jöfnunarþingsætum. Því var haldið fram að ákvörðunin að framkvæma endurtalningu hefði verið tekin af yfirkjörstjórn norðvesturkjördæmis einni.

Málið fer á flug þegar frambjóðandi fyrsta sætis Pírata í norðvestur, Magnús Davíð Norðdahl, mætir á Hótel Borgarnes þar sem atkvæðin í norðvestur höfðu verið talin og endurtalning var nú í fullum gangi. Þegar kjörbréfanefndir framkvæma talningu atkvæða hvílir á þeim lagaleg skylda að kalla til fulltrúa allra flokka í framboði til að sinna eftirlitshlutverki. Misfarist að ná í einhvern fulltrúa eða hafi fulltrúi ekki tök á að mæta ber kjörbréfanefnd lagaleg skylda að útnefna aðila til að sinna eftirlitshlutverki fyrir viðkomandi. Þegar kom að fulltrúa fyrir flokk Pírata hafði yfirkjörstjórn norðvestur ekki náð í aðila sem yfirkjörstjórn taldi vera fulltrúa Pírata fyrir norðvesturkjördæmi.

Fyrir vikið frétti Magnús fyrst af endurtalningunni í fjölmiðlum eftir klukkan 15:00. Hann hringdi í yfirkjörstjórnina og fór fram á að endurtalning skyldi ekki hefjast fyrr en hann væri mættur á staðinn til að sinna eftirlitshlutverki fyrir hönd flokks Pírata. Beiðni hans var hafnað. Þegar Magnús mætti var endurtalningin komin vel á leið og óskaði Magnús eftir að fá að vita hverjir hefðu verið viðstaddir þegar innsigli kjörgagna hefðu verið rofin við upphaf endurtalningar. Þá og þar er honum tilkynnt af formanni yfirkjörstjórnar norðvesturkjördæmis, Inga Tryggvasyni, að kjörgögnin höfðu ekki verið innsigluð milli lokatalna um morguninn og upphafs endurtalningar eftir hádegi, en engar áhyggjur, atkvæðin höfðu verið geymd örugg í læstu rými hótelsins.

Hafði inngangurinn að rýminu í það minnsta verið innsiglaður? Neibb.

Endurtalningunni lauk um klukkan 18:00 og jeminn eini urðu sko breytingar.

Málið er að jöfnunarþingsætakerfið okkar virkar einhvernveginn svona: Við höfum ákveðinn fjölda jöfnunarþingsæta, þessum sætum er skipt niður á þingflokka útfrá heildaratkvæðafjölda þeirra, þ.e.a.s samanlagður fjöldi atkvæða yfir öll kjördæmi. Einungis flokkar sem ná yfir 5% greiddra atkvæða á landsvísu fá úthlutað jöfnunarþingsæti. Þessum sætum er síðan ráðstafað til frambjóðenda flokkanna sem fengu úthlutuð sæti útfrá hlutfalli milli greiddra atkvæða í kjördæmi og fjölda atkvæða sem vantaði upp á að tiltekinn flokkur næði inn öðrum þingmanni í kjördæminu. Nánari útskýringu á ferlinu er hægt að kynna sér hér: Vísindavefurinn.is - "Hvernig virkar kosningakerfið á Íslandi?" (2017-10-12).

Til að útskýra nánar, ef breyting verður á því hvaða flokkur nær inn jöfnunarþingmanni í einu kjördæmi, þá getur það valdið keðjuverkunaráhrifum fyrir öll jöfnunarþingsæti sem ráðstafað er eftir fyrstu riðlunina, flokkarnir fá ef til vill aftur sama fjölda jöfnunarþingsæta, en þeim er ráðstafað til annarra frambjóðenda.

Í þessu máli hélst fjöldi jöfnunarþingsæta milli flokkanna óbreyttur, hið ofangreinda raungerðist. Guðmundur Gunnarsson, frambjóðandi Viðreisnar, hafði fyrir endurtalningu fengið ráðstafað jöfnunarþingsæti Viðreisnar í norðvesturkjördæmi, en eftir endurtalningu færðist ráðstöfun jöfnunarþingsætis fyrir Miðflokkinn í norðvesturkjördæmi. Í staðinn var jöfnunarþingsæti Viðreisnar ráðstafað til Guðbrands Einarssonar í Reykjavík-Suður og þannig koll af kolli riðluðust jöfnunarþingsætin milli kjördæma eins og dómínó kubbar, þar til fjöldi breyttra rassa í þingsætum var orðinn 5. Það er að segja, 5 frambjóðendur út, 5 frambjóðendur inn. Endurtalningin hafði þannig áhrif á stöðu 10 frambjóðenda!

althingi.is - "Skipting þingsæta milli kjördæma"

(Langi þig kæri lesandi að prófa að vinna þig í gegnum þessi keðjuverkunaráhrif sem urðu við endurtalningu í norðvestur í Alþingiskosningunum 2021 þá gæti þessi vefslóð hjálpað: Stjórnarráðið - "Norðvesturkjördæmi" (2021), þarna má nálgast framboðslista Alþingiskosninganna 2021 fyrir öll kjördæmi.)

Þetta er svolítið skondið, eða grátlegt ef satt skal segja. Skoðum snöggvast breytingarnar sem urðu milli lokatalna um morguninn og endurtalningar eftir hádegið:

Tölur um morguninn Tölur að kvöldi eftir endurtalningu mismunur
Greidd atkvæði 17666 17668 2
Auð atkvæði 394 382 -12
Ógild atkvæði 24 35 11
Framsókn (B) 4443 4448 5
Viðreisn (C) 1072 1063 -9
Sjálfstæðisflokkur (D) 3887 3897 10
Flokkur Fólksins (F) 1513 1510 -3
Sósíalistaflokkur Íslands (J) 721 728 7
Miðflokkur (M) 1283 1278 -5
Frjálslyndi Lýðræðisflokkurinn (O) 72 73 1
Píratar (P) 1082 1081 -1
Samfylking (S) 1196 1195 -1
Vinstri Græn (V) 1979 1978 -1

(Þessa ofangreindu töflu er hægt að finna hér og þar á íslenskum fréttaveitum, vefmiðlum og samfélagsmiðlum. Dæmi um frétt sem inniheldur tölurnar má sjá hér: Kjarninn - "Fundargerð yfirkjörstjórnar: Mannleg mistök hörmuð og skekkjan í bunkunum útskýrð" (2021-09-29T19:27))

En bíddu vá ha? Í alvöru? Hver einasti dálkur breyttist? HVER OG EINN EINASTI? MEIRA AÐ SEGJA FJÖLDI GREIDDRA ATKVÆÐA?!?? Vá, klikkað! (Og sorglegt, ef ég á að vera alveg hreinskilinn.) Breytingarnar sem skipta máli eru -9 atkvæðin fyrir Viðreisn (og -5 fyrir Miðflokkinn). Þessar breytingar urðu til þess að Miðflokkurinn fékk hærri hlutfallstölu en Viðreisn í norðvesturkjördæmi, og þannig féll jöfnunarþingsæti Miðflokksins í hendur frambjóðanda Miðflokksins í norðvesturkjördæmi og Viðreisn fékk ráðstafað jöfnunarþingsæti sínu annarstaðar. Ekkert af hinum breytingunum hafði nein áhrif á úrslitin.

En þessi yfirþyrmandi fjöldi villna gerði vitanlega allt vitlaust svo vægt sé til orða tekið.

Daginn eftir kærði Karl Gauti Hjaltason, sem misst hafði jöfnunarþingsæti Miðflokksins undir rass Bergþórs Ólasonar, endurtalninguna í norðvestur til lögreglu, nánar tiltekið til lögreglunnar á Vesturlandi, sem hefur starfsstöð í Borgarnesi.

RÚV.is - "Karl Gauti kærir endurtalningu atkvæða til lögreglu" (2021-09-27T10:57)

Þennan sama dag tilkynnti Magnús Davíð Norðdahl, frambjóðandi í fyrsta sæti fyrir Pírata í norðvestur, að hann væri að vinna í kosningakæru til Kjörbréfanefndar sem samkvæmt íslenskum lögum á að taka til meðferðar slíkar kærur og aðrar formlegar kvartanir er varða framkvæmd kosninga. (Þetta kjörbréfanefndardæmi er satt að segja óhemju áhugavert, vegna þess að í Kjörbréfanefnd sitja nýkjörnir þingmenn, og megintilgangur Kjörbréfanefndar er að leggja fram tillögu um hvort þingið eigi að dæma kosningarnar löglegar eða ekki, sem hinir nýkjörnu þingmenn hafa semsagt lokaorð um samkvæmt almennt samþykktri túlkun á íslenskum lögum. Já, ákveðið túlkunarskref á sér stað í þessu.)

RÚV.is - "Kærir kosningar í NV-kjördæmi og vill kjósa aftur" (2021-09-27T11:23)

Landskjörstjórn vill "fá að vita hvað gerðist" og sendir formlega beiðni til yfirkjörstjórnar norðvestur þar sem óskað er ítarlegar skýrslu um hvað átti sér stað fyrir, á meðan, og eftir að endurtalning átti sér stað. Síðar koma upp á yfirborðið upplýsingar um að formaður Landskjörstjórnar og formaður yfirkjörstjórnar norðvesturkjördæmis spjölluðu saman í síma í kringum hádegið rétt áður en ákveðið var að fara í endurtalningu.

RÚV.is - "„Við viljum fá að vita hvað gerðist“" (2027-09-27T16:38)

Ingi Tryggvason, formaður yfirkjörstjórnar norðvestur, svarar formlegu beiðninni frá Landskjörstjórn sem og einhverjum af spurningunum sem flæða til hans frá fjölmiðlum. Hann fullvissar alla um að kjörgögnin hafi verið alveg örugg, geymd í læstu herbergi, engin þörf á að hafa áhyggjur. Hann segir mannlegum mistökum (og excel reiknivillu er varðar fjölda greiddra atkvæða) um að kenna fyrir breytingunum sem komu fram í endurtalningu.

Ekki löngu eftir þessar yfirlýsingar fara instagram myndir að grípa athygli fjölmiðla, myndir teknar í mannlausu talningarýminu á Hótel Borgarnesi og birtar milli loka talningar um morguninn og hádegisins þar sem ákveðið var að fara í endurtalningu, birtar af tengdadóttur eiganda hótelsins. Myndunum er í kjölfarið snögglega eytt af instagram en það breytir engu, þær eru nú hringsólandi á veraldarvefnum.

Ingi áréttar fyrri fullyrðingar sínar og gerir lítið úr hinum meintu instagram myndum og segir að ef þær séu í raun til þá hafi þær eflaust verið teknar rétt áður en yfirkjörstjórnin fór úr rýminu og læsti því um morgnuninn.

Kjarninn.is - "Talningarskekkjan í Borgarnesi kom í ljós um leið og einn bunki var skoðaður" (2021-09-27T18:37)

Vísir.is - "Tengdadóttir hótelstjóra eyddi myndum af óinnsigluðum atkvæðum" (2021-09-28T13:25)

mbl.is - "Innsláttarvilla hafi ráðið úrslitum í norðvestur" (2021-09-28T15:38)

RÚV.is - "Telur sig hafa verið á staðnum þegar myndir voru teknar" (2021-09-28T16:10)

RÚV.is - "Grundvallaratriði að unnt sé að treysta kosningum" (2021-09-28T19:10)

Samhliða þessu öllu eru formenn stjórnarflokkanna farnir að ræða saman um áframhaldandi samstarf og eyða engum orðum í neinar yfirlýsingar um stöðuna sem upp er komin í norðvestur. Og skyndilega er eins og íslenska þjóðin ranki við sér og enduruppgötvi, bíddu já, þingið ákveður sjálft hvort þingkosningarnar hafi verið löglega framkvæmdar eða ekki. Eða, eins og við höfum túlkað stjórnarskrá okkar í áratugi, nýkjörið þing ákveður sjálft hvort kosningarnar sínar voru löglegar eður ei. (Þetta var einn af mörgum ágöllum sem voru teknir til skoðunar við gerð nýrrar stjórnarskrár, en stjórnlagaþingskosningarnar 2011 voru dæmdar ólöglegar af íslenskum dómstólum. Þingkosningar er aftur á móti ekki hægt að fara með fyrir dómstóla, þingið hefur lokaorðið samkvæmt gildandi lögum.)

Kristín Edwald, formaður Landskjörstjórnar, les upp bókun Landskjörstjórnar um að ekki hafi borist ásættanleg staðfesting frá yfirkjörstjórn norðvesturkjördæmis um að meðferð kjörgagna hafi verið fullnægjandi. Hún hefur ekkert meira um málið að segja og neitar að svara neinum spurningum fjölmiðla, Landskjörstjórn gefur út kjörbréf samkvæmt endurtalningunni og segir málið ekki lengur í sínum höndum heldur í höndum Alþingis.

RÚV.is - "Ekki staðfest að meðferð kjörgagna var fullnægjandi" (2021-09-28T18:51)

Á þessum tímapunkti hafa fjölmiðlar farið að fjalla töluvert um Inga Tryggvason og hans yfirlýsingar sem virðast hvað eftir annað stangast á við staðreyndir sem fljóta upp á yfirborðið í þessu máli. Ein slík staðreynd er að atkvæðin í norðvestur voru handleikin áður en allir í yfirkjörstjórn voru mættir aftur í Hótel Borgarnes um hádegið 2021-09-26, og löngu áður en nokkur eftirlitsaðili var mættur á svæðið. Önnur staðreynd er að ekki var skipt um lás á hurðinni að rýminu og því var í raun engin leið að vita hversu margir höfðu aðgang að lyklum að henni. (Og ég er ekki að grínast, síðar koma þær upplýsingar á yfirborðið að annar inngangur er að rýminu, úr starfsmannarými, sem er með rennihurð og ekki einu sinni er hægt að læsa!)

Ingi Tryggvason hefur sinnt störfum á stjórnsýslusviðinu í Borgarnesi/Borgarbyggð í áratugi, og sumarið 2020 fékk hann stöðu héraðsdómara. Gamlar fréttir taka að fljóta upp á nýjan leik er varða fortíðarstjórnsýslustörf hans. Gamlar fréttir um hagsmunaárekstra í tengslum við nauðungarsölu íbúðar þar sem Ingi fór fram á uppboðið og keypti síðan íbúðina sem fulltrúi bankans á sama uppboði. Ingi hefur nefnilega líka starfað slatta í fasteignabransanum. En hann sannarlega toppar sig í skelfilegum almannatengslum þegar hann svarar spurningum fréttamanns um hvers vegna atkvæðin voru bara ekki innsigluð frá morgni til hádegis þann 2021-09-26 að þetta hafi bara verið venjan í kjördæminu í mörg ár og gegnum margar kosningar.

Jeminn! Í alvöru? Hvernig dettur manninum í hug að þetta fegri málið eitthvað? Hann gerir líka lítið úr kostum þess að nota innsigli, og gefur í skyn að innsiglin séu tilgangslaus og algjörlega óþörf. Hann svarar líka spurningunni um hvort hann eða yfirkjörstjórnin hafi með þessu gerst sek um lögbrot með spurningunni

"Er ólöglegt að gera mistök?"

Bara til að undirstrika, þessi maður hefur starfað sem lögmaður í áratugi og hefur starfað sem héraðsdómari síðan sumarið 2020.

Jóhann Hjalti Þorsteinsson á Facebook, birtir myndband um notkun kosningainnsiglanna (2021-09-28T09:17)

Kjarninn - "Orðin hans Inga frá A til Ö – „Af því að ég veit það“" (2021-09-29T13:00)

DV.is - "Kjörgögn meðhöndluð áður en kjörstjórn var öll mætt - Búið að upplýsa lögreglu" (2021-09-30T17:46)

DV.is - "Hver er þessi Ingi Tryggvason? „Okkur þykja þetta vera kaldar kveðjur frá dómsmálaráðherra til flokksbræðra sinna“" (2021-10-01T19:00)

Það kemur í ljós að nokkrir aðilar voru nokkrum sinnum einir í rýminu með óinnsigluðum atkvæðunum, þar á meðal Ingi sjálfur, en hann mætti hálftíma á undan öllum öðrum meðlimum yfirkjörstjórnar norðvestur. Þetta fæst staðfest þegar lögregla skoðar myndefni öryggismyndavéla hótelsins, sem því miður sýndu einungis ytra svæðið við inngang rýmisins en ekkert sem fór fram innan þess.

Fólk fer að skilja hversu svakalega alvarlegt þetta mál er, lögmæti kosninganna er í húfi, umræður hefjast um hvaða leiðir séu í boði til að leysa málið. Fólk innan stjórnarflokkanna virðist einnig loks vera að ranka við sér eftir sigurvímu kosninganna og fatta hversu alvarlegt málið allt saman er. Fjöldinn allur af stjórnmálafræðingum fara að birta skoðanir sínar á málinu, þeir eru flestallir sammála um að það sem gerðist sé "mjög vont", en eru þó ekki sammála um nákvæmlega hversu alvarlegt málið sé. Sumir halda því fram að málið ógildi kosningarnar á meðan aðrir staðhæfa að það sem gerðist sé "ekki nógu alvarlegt" til að ógilda kosningarnar.

Vísir.is - "„Ger­sam­lega ó­leysan­legur stjórn­skipu­legur vandi“" (2021-09-29T10:33)

RÚV.is - "Kemur til greina að kalla Alþingi fyrr saman" (2021-09-29T19:31)

Fréttablaðið.is - "Síðari talningin hljóti að standast" (2021-09-30T18:55)

Fréttablaðið.is - "Um ó­gildingu kosninga" (2021-10-01T06:00)

Fréttablaðið.is - "Er ekki bara best að vera þokka­lega sáttur?" (2021-10-01T06:00)

Fréttablaðið.is - "Brotin leiði ekki til ógildingar kosninga" (2021-10-01T07:56)

Kjarninn.is - "Kjörbréfanefndar þingsins bíður langþyngsta úrlausnarefni aldarinnar" (2021-10-01T08:00)

Kjarninn.is - "Transparency lýsir yfir áhyggjum af viðbrögðum formanns yfirkjörstjórnar" (2021-10-01T10:50)

Stjórnarskrárfélagið Facebook póstur, skjáskot af grein í Morgunblaðinu eftir Björn Leví Gunnarsson með titilinn "Endurtalning, uppkosning eða hvað?" (2021-10-01T11:58)

Kjarninn.is - "Er ekki bara best að vita hvort þingmenn séu réttkjörnir?" (2021-10-02T08:00)

En er nokkuð vandamál til staðar þar sem jöfnunarþingsætin héldust óbreytt milli talninga?

Þetta var mjög vinsæl röksemdarfærsla þeirra sem töldu málið ekki nógu alvarlegt. Gefandi í skyn að þetta þýddi að í raun hefðu ekki orðið neinar breytingar á niðurstöðum kosninganna. En að gefa það í skyn er rangt, og það fyndna er, við fengum einmitt ferskt sýnidæmi um nákvæmlega hvers vegna það er rangt, vegna þess að nokkrum dögum síðar gerðist eftirfarandi.

Birgir Þórarinsson, nýkjörinn þingmaður Miðflokksins, ákvað að segja skilið við flokk sinn og ganga til liðs við Sjálfstæðisflokkinn, einungis örfáum dögum eftir nýliðnar kosningar og löngu áður en þing hafði færi á að koma saman. Og honum er frjálst að gera það, íslenskir þingmenn eru einungis bundnir eigin sannfæringu samkvæmt gildandi stjórnarskrá (sem er gott, finnst mér, en er önnur umræða). Svo það skiptir greinilega máli hvaða frambjóðendur nákvæmlega ná þingsæti. Að gefa í skyn að engar breytingar áttu sér stað á niðurstöðum kosninga bara vegna þess að fjöldi kjörinna þingmanna milli flokka hélst óbreyttur er einfaldlega rangt. QED. Þetta er ekki til rökræðu.

Það að svona gerist, að þingmaður gangi úr flokki sínum og til liðs við annan er ekki óalgengt í íslenskri stjórnmálasögu, en að slíkt skuli gerast svo skömmu eftir kosningar og áður en þing hefur komið saman hefur aldrei áður gerst í sögu íslenska lýðveldisins, og olli þetta nokkurri reiði meðal almennings. Birgir Þórarinsson staðhæfði að ástæður hans fyrir að segja skilið við Miðflokkinn væri 3 ára gamalt mál þekkt undir nafninu Klaustur málið, samhliða hlutum sem voru honum ekki að skapi er varðaði kosningabaráttu flokksins í nýliðnum þingkosningum. En í alvöru talað, ef það var málið hvers vegna í ósköpunum dró hann sig þá ekki úr framboði þá og þegar? Þetta er ótrúlega lágkúrulegur verknaður, og ég segi það sem manneskja sem hefur ekki mikið dálæti á Miðflokknum, einmitt vegna áðurnefnds Klaustur máls ásamt öðrum hlutum.

RÚV.is - "Klaustursmálið ýtti Birgi úr Miðflokknum" (2021-10-09T04:38)

Hvað gerðist sem var svona alvarlegt?

Leynilegar kosningar eru staðallinn í lýðræðisríkjum samtímans. Þetta kerfi er mikið lofað fyrir að veita þegnum pólitíska leynd og í skjóli atkvæðaleyndar er komið í veg fyrir að hægt sé að hafa áhrif á atkvæði einstaklinga með hótunum, fjárkúgunum eða mútum. En það er einn hængur á. Eftir að kjósandi hefur látið atkvæði sitt af hendi ofan í kjörkassa þá er ómögulegt fyrir kjósandann að staðfesta hvort atkvæðið skilaði sér (og skilaði sér óbreytt) í niðurstöður kosninganna. Kjósendur þurfa að leggja traust sitt á að atkvæði þeirra séu meðhöndluð af strangri virðingu, að eftirlitsaðilar ólíkra hagsmunaaðila séu ávallt viðstaddir við meðhöndlun atkvæða til að tryggja að atkvæðum sé hvorki breytt né meðhöndluð á nokkurn annan óréttlátan hátt. Kjósendur verða einnig að treysta því að á milli þess sem atkvæðin eru handleikin séu þau undir númeruðu og ófalsanlegu innsigli sem ekki er hægt að rjúfa án þess að á sjái, og geri ómögulegt að eiga við atkvæðin á meðan innsiglið er órofið. Keðja trausts, ef svo má að orði komast. Og þessi keðja trausts, hvaða eftirlitsmenn voru viðstaddir þegar staðfest var að innsigli væri órofið og í samræmi við fyrri innsiglun, og þegar atkvæði voru handleikin, þetta þarf allt að vera uppi á yfirborðinu og aðgengilegt fyrir kjósendur að rýna í. En svoleiðis er það í rauninni ekki. Við Íslendingar erum værukærir og tökum því sem gefnu að leynilegu kosningarnar okkar séu framkvæmdar rétt og heiðarlega. En það er ekki sjálfgefið.

Við Íslendingar erum ekki einir um værukæru, þegnar lýðræðisríkja samtímans virðast taka þessu almennt sem gefnu, og lítil vitræn umræða þrífst um nákvæmlega hvers vegna, tæknilega, game-theory-lega, við eigum að treysta úrslitum leynilegra kosninga.

Og í þessu norðvestur máli, þá var þessi keðja trausts rofin. Nokkrum sinnum. Kjörgögnin voru geymd í meintu öruggu (en algjörlega ekki öruggu) rými hótelsins, kjörgögnin voru óinnsigluð og aðgengileg einstaklingum án nokkurrar yfirsjónar. Og bein afleiðing er sú að við kjósendur höfum enga órofna keðju trausts til að stóla á, sem þýðir að kjósendur hafa ekkert til að ábyrgjast að ekki hafi verið átt við atkvæði eða þau meðhöndluð á annan óásættanlegan hátt.

Hvað nákvæmlega er "nógu alvarlegt" til að ógilda kosningar?

Í heilbrigðum heimi? Það að brjóta þessa keðju trausts væri nógu alvarlegt. Sem leiðir okkur að þeirri staðreynd hversu ótrúlega brothættar leynilegar kosningar í raun og veru eru. Það eina sem þarf til að valda kosningalegri ringulreið er að ráðast á kjörgögnin, brjóta þessa keðju trausts á einn eða annan hátt. Á tímapunkti varð þetta ein röksemdafærsla fyrir því hvers vegna málið væri ekki nógu alvarlegt til að ógilda kosningarnar, að fyrri talning ætti einfaldlega að gilda þar sem hún hefði órofna keðju trausts, sem ég í fullri sanngirni verð að viðurkenna að þykir rökrétt fyrir mér, en ég var og er smá á báðum áttum með skoðun mína á þessu. En stend ég við þá skoðun mína að fyrri talning var langt í frá besta lausn þessa máls.

Hannes Þórður Þorvaldsson á Facebook, skjáskot af grein í Morgunblaðinu eftir hann með fyrirsögnina "Alltaf hægt að fella kosningu eftir á?" (2021-10-11T17:36)

En í raunheimum? Fer eftir gildandi lögum í gefnu ríki, og hversu góð og ónæm þessi lög eru fyrir útúrsnúningi túlkunar, og jafnvel þó þau séu nokkuð ónæm fyrir slíku þá virðist fólki hvað eftir annað takast að komast upp með allskonar útúrsnúninga sem ættu aldrei með nokkru móti að líðast.

Tökum íslensku lögin þágildandi í þessu máli sem dæmi, þau voru eftirfarandi:

104. gr.

Að talningu lokinni skal loka umslögum með ágreiningsseðlum með innsigli yfirkjörstjórnar og eiga umboðsmenn lista rétt á að setja einnig fyrir þau innsigli sín. Yfirkjörstjórn sendir [ráðuneytinu] 1) eftirrit af gerðabók sinni viðvíkjandi kosningunni ásamt ágreiningsseðlunum sem [ráðuneytið] 1) leggur fyrir Alþingi í þingbyrjun með sömu ummerkjum sem það tók við þeim.

Þá skal yfirkjörstjórn setja alla notaða kjörseðla undir innsigli og skal gildum og ógildum kjörseðlum haldið sér. Kjörseðlana skal geyma þar til Alþingi hefur úrskurðað um gildi kosninganna, sbr. 120. gr., enda sé þeirra eigi þörf vegna kæru sem beint hefur verið til lögreglustjóra. Að því búnu skal eyða kjörseðlunum og skrá yfirlýsingu um það í gerðabók yfirkjörstjórnar.

Yfirkjörstjórn skal búa um allar kjörskrár í innsigluðum umbúðum og senda [ráðuneytinu] 1) sem geymir þær í eitt ár, en að því búnu skal eyða þeim.

Alþingi.is - "Lög um kosningar til Alþingis (2000/24)" (útgáfa 151c)

(ath: ný kosningalög voru samin og færð í lög á Alþingi fyrir síðustu þingkosningar, en lögin látin taka gildi um áramótin 2022-01-01, sjá Alþingi.is - "Kosningalög (2021/112)" (version 151c))

En bíddu við, blasir ekki við samkvæmt lögum þessum að yfirkjörstjórn norðvestur braut lög þar sem kjörgögnin voru ekki innsigluð eftir talninguna morguninn 2021-09-26?

Ingi Tryggvason útskýrði þetta svona, yfirkjörstjórnin var "ekki alveg búin með alla talningavinnuna", þau höfðu ekki formlega lýst yfir lokum "talningafundarins", þau ákváðu að "fresta" lokum talningafundarins, þangað til eftir hádegi svo allir gætu farið heim og sofið í nokkrar klukkustundir áður en komið væri aftur á Hótel Borgarnes og talningafundi þá formlega slitið.

Er slík "frestun" eða eitthvað álíka nefnt í lögum í tengslum við kosningaferlið?

Nei. Enganveginn. Þetta er bara útúrsnúningur og ætti enganveginn að fá að líðast. Þrátt fyrir það hefur ekkert ennþá gerst sem gefur til kynna að tekið verði á þessu máli og yfirkjörstjórn norðvesturkjördæmis verði refsað fyrir lögbrot sín. Þó er rétt að nefna að lögreglukæra Karls Gauta Hjaltasonar er enn að velkjast um í dómskerfinu, þrátt fyrir að Lögreglustjórinn á Vesturlandi hafi fyrst reynt að fría yfirkjörstjórn norðvestur ábyrgð með boðun greiðslu hlæilega lágrar sektargreiðslu sem allir meðlimir yfirkjörstjórnar norðvestur ákváðu að greiða ekki, og svo reyndi lögreglustjórinn aftur með því að taka sér það vald að vísa málinu frá, galin valdníðsluaðgerð sem Karl Gauti Hjaltason síðar kærði. Fleiri lögreglukærur hafa verið lagðar fram, ein af Jóni Þór Ólafssyni, fyrrum þingmanni Pírata, kæran hans varðar Inga Tryggvason og störf hans sérstaklega. Einnig lagði Indriði Ingi Stefánsson fram lögreglukæru. Og einhverjir fleiri mögulega.

Skessuhorn.is - "Gunnar Örn Jónsson er nýr lögreglustjóri á Vesturlandi" (2021-03-23T16:28)

Vísir.is - "Oddviti yfirkjörstjórnar norðvestur kærður til lögreglu fyrir mögulegt kosningasvindl" (2021-11-24T13:01)

Fréttablaðið.is - "Styttist í á­kærur á hendur yfirkjörstjórn" (2022-01-27T05:00)

Vísir.is - "Sagan endalausa í Norðvestur" (2022-02-24T07:30)

RÚV.is - "Mál yfirkjörstjórnar Norðvesturkjördæmis fellt niður" (2022-03-14T12:20)

Fréttablaðið.is - "Komust undan refsiábyrgð með því að borga ekki sektirnar" (2022-03-14T14:40)

mbl.is - "Túlka vafann Inga í hag" (2022-03-14T23:50)

RÚV.is - "Karl Gauti kærir lögregluna á Vesturlandi" (2022-04-08T06:05)

Gömlu "Lög um kosningar til Alþingis (2000/24)" lögin innihalda líka eftirfarandi.

117. gr.

Það [eru] kosningaspjöll [..] að rangfæra atkvæðagreiðslu, hvort heldur er með því að eyðileggja eða breyta atkvæði sem greitt hefur verið, eða á annan hátt.

Í heilbrigðum heimi væri það að rjúfa keðju trausts á greiddum atkvæðum jafngilt því að eyðileggja atkvæðin. En því er miður að ekki er sérstaklega skilgreint í íslenskum lögum að slíkt sé raunin.

Kjarninn.is - "„Það er búið að eyðileggja atkvæðin í þessu kjördæmi“" (2021-10-17T12:16)

Förum snöggvast yfir þá valmöguleika sem í boði voru.

Valmöguleiki Kostir Gallar Mín persónulega skoðun
láta endurtalningu í norðvestur gilda minnsta vesen til styttri tíma rofin keðja trausts fyrir öll atkvæði í norðvesturkjördæmi, mögulegt beint kosningasvindl: sjá útkomuna og hversu tæpt var á hvaða frambjóðendur kæmust inn, möguleg freisting fyrir hendi að breyta útkomu með hættulausri aðgerð í skjóli ómögulegrar sönnunarbyrðar langversti valkosturinn, í raun ekki lýðræðislegur möguleiki, gjörsamlega ótæk og óásættanleg niðurstaða sem mun draga dilk á eftir sér
láta fyrri lokatölur í norðvestur gilda ekki mikið vesen til styttri tíma, ekki ástæða til að óttast beint kosningasvindl ómögulegt að sannreyna úrslitin þar sem kjörgögn eru ónýt, talning framkvæmd af yfirkjörstjórn sem er rúin trausti, fjöldi annarra vankanta sem lýst er í greinargerð undirbúningsnefndar fyrir rannsókn kjörbréfa ekki frábær niðurstaða, mun betri þó en endurtalningin, jaðrar við að vera ásættanleg þar sem mögulegt beint kosningasvindl er ekki fyrir hendi
endurkosning í norðvesturkjördæmi íslensk kosningalög sem voru í gildi á þessum tíma tilgreina þetta sérstaklega sem valmöguleika, mætir gagnrýni kjósenda í öðrum kjördæmum sem vildi ekki kjósa aftur þar sem þeirra kosning var löglega framkvæmd (já, þetta voru rök sem fólk kom með) að framkvæma endurkosningu er mikil vinna, meiriháttar munur á forsendum sem kjósendur í norðvesturkjördæmi hafa til að beita atkvæði sínu umfram kjósendur annarra kjördæma í raun undarlegt að þetta sé löglegur valmöguleiki, sem kjósandi í þessu kjördæmi er ég vissulega hlutdrægur, tel því þennan valmöguleika betri en endurtalningu og fyrri talningu
endurkosning í landinu öllu lýðræðislegasta leiðin kosningar eru heljarinnar vinna, mesta vesen til styttri tíma þetta er leiðin, þetta er rétta leiðin

(Ofangreinda töflu kynnti ég fyrir undirbúningskjörbréfanefnd á lokuðum Zoom fundi, og hún var einnig birt í gögnum kjörbréfanefndar á vef alþingis, sjá: https://www.althingi.is/altext/erindi/152/152-111.pdf, eitt af fjölmörgum skjölum í "opinberu" rannsókninni sem undirbúningskjörbréfanefnd framkvæmdi og vísað var í í upphafi greinarinnar.)

Fókusum aðeins á inngangsspurninguna. Lögreglan rannsakaði málið og fann engar sannanir um kosningasvindl

Málið er, það að færa fram óyggjandi sannanir um að kosningasvindl hafi verið framkvæmt í leynilegum kosningum er svo gott sem ómögulegt. Það er ekki hægt (eða á allavega ekki að vera hægt) að rekja atkvæði aftur til kjósanda, og jafnvel þó það væri hægt væri ómögulegt fyrir kjósandann að færa sönnur fyrir því hvað hann eða hún hafi yfir höfuð kosið. Í raun er bara mögulegt að færa fram óyggjandi sannanir um kosningasvindl í leynilegum kosningum ef viðkomandi var beinlínis staðinn að verki.

En jeminn eini hvað vísbendingarnar eru víða í þessu máli sem stinga stoðum undir þá tilgátu að kosningasvindl hafi í raun og veru verið framið.

Vísbending 1: Venja búin til sem gefur ákveðnu fólki færi á að vera í einrúmi með óinnsigluðum atkvæðum sýnist því svo. Og eins og sjálfur formaður yfirkjörstjórnar sagði, þessi venja hefur verið við lýði í mörg ár, í gegnum margar kosningar.

Vísbending 2: Keðja trausts fyrir greidd atkvæði var rofin, það er staðreynd að hópur fólks fékk tíma í einrúmi án yfirsjónar með óinnsigluðum atkvæðum. Ingi Tryggvason tilheyrir þessum hópi fólks, hann var að handleika atkvæðin þegar næsti meðlimur yfirkjörstjórnar mætti á svæðið í hádeginu 2021-09-26 samkvæmt greinargerð undirbúningsnefndar fyrir rannsókn kjörbréfa.

Vísbending 3: Niðurstöður kosninganna breyttust milli lokatalna um morguninn og eftir endurtalningu. Breytti stöðu 10 frambjóðenda, 5 misstu sæti sitt, 5 öðluðust sæti í þeirra stað.

Vísbending 4: Þessi vísbending er einkar safarík. Munið þið eftir atkvæðunum 9 sem viðreisn missti í endurtalningunni? Sem ollu því að jöfnunarsætin riðluðust? Öll þessi 9 atkvæði voru í sama 50 atkvæða bunkanum, þeim fyrsta sem Ingi Tryggvason er sagður hafa tekið upp og skoðað í endurtalningu samkvæmt greinargerð undirbúningsnefndar fyrir rannsókn kjörbréfa. Þetta er staðreynd. Lestu greinargerðina ef þú trúir mér ekki. Textinn þar sem þetta kemur fram er eftirfarandi:

Í greinargerð yfirkjörstjórnar til landskjörstjórnar, dags. 28. september 2021, kemur fram að atkvæði hafi verið talin í 50 atkvæða bunka.

Á fundum nefndarinnar með yfirkjörstjórn var spurt nánar út í athugun á C-lista atkvæðum. Þrír fulltrúar í yfirkjörstjórn sögðu að yfirkjörstjórn hafi öll verið saman komin þegar ákveðið var að skoða atkvæði C-lista. Einn fulltrúi taldi að fjórir fulltrúar yfirkjörstjórnar hafi verið komnir í talningarsal þegar atkvæðin voru skoðuð. Annar fulltrúi sagði að hann hafi ekki verið kominn þegar atkvæðin voru skoðuð.

Oddviti sagði að rangt flokkuð atkvæði hefðu fundist í fyrsta bunkanum sem hann tók. Einn fulltrúi yfirkjörstjórnar staðfesti þetta í samtali við nefndina. Annar fulltrúi í yfirkjörstjórn sagði í samtali við nefndina að þegar gerð var athugun á C-lista atkvæðunum hafi komið strax í ljós að það væri flokkunarvilla í C-lista kassanum. Viðkomandi sagði að bunkinn með rangt flokkuðum atkvæðum hafi legið ofarlega í kassanum og að yfirkjörstjórn hafi farið saman í gegnum atkvæðin, þ.e. þau hafi hvert og eitt tekið bunka. Þriðji fulltrúinn í yfirkjörstjórn, sem var viðstaddur þegar bunkar úr C-lista kassanum voru teknir upp, segir að villan hafi fundist í efstu bunkunum. Fjórði fulltrúi yfirkjörstjórnar sagði að kassi með C-atkvæðum hafi verið upp á borði þegar hann kom og hann hafi ekki verið viðstaddur þegar rangt flokkuðu atkvæðin í C-lista bunka fundust, en hann minnti að þessi níu atkvæði sem C-listi fór niður um, hafi verið í fyrsta bunkanum.

Þessi vísbending blasir bara við, hún er þarna beint fyrir framan okkur, á glámbekk, svartur texti á hvítum pappír. Flest okkar sem kærðum kosningarnar til kjörbréfanefndar bentum sérstaklega á þetta atriði, hversu galið það væri, hversu ótrúlegt, hversu ólíklegt það væri að þetta yfir höfuð gæti gerst líkindalega séð. Að fyrsti 50 atkvæða bunkinn sem Ingi Tryggvason á að hafa tekið upp hafi innihaldið öll þau atkvæði sem komu þessu öllu af stað. En þetta var þæft, engar undirtektir, ekki nefnt, ekki orð um það. Og samt sem áður liggja þessar upplýsingar bara þarna, í dagsljósinu, svartur texti á hvítum pappír.

Vísbending 5: Þegar greinargerð undirbúningskjörbréfanefndar fyrir rannsókn kjörbréfa er lesin verður nokkuð ljóst að ákvörðunin um endurtalningu var ekki tekin af allri yfirkjörstjórn norðvestur, henni var komið af stað af Inga Tryggvasyni einum.

Vísbending 6: Í tilkynningu yfirkjörstjórnar norðvestur til fjölmiðla um endurtalninguna um klukkan 15:00 þann 2021-09-26 var gefið sérstaklega í skyn að breytinga mætti vænta.

Vísbending 7: Bergþór Ólason var eini þingmaður af 5 sem komust inn eftir endurtalningu sem kaus með staðfestingu eigin kjörbréfs.

Kjarninn.is - "Bergþór sá eini sem hlaut sæti eftir endurtalningu sem samþykkti eigið kjörbréf" (2021-11-26T07:26)

Vísbending 8: Meintir hagsmunaárekstrar í eldri stjórnsýslustörfum Inga Tryggvasonar.

Vísbending 9: Djúpar rætur Inga Tryggvasonar og Bergþórs Ólasonar í Borgarnesi sem og í stjórnsýslustörfum svæðisins. Faðir Bergþórs var um tíma bæjarstjóri í Borgarnesi og þeir feðgar hafa tengsl við byggingarfyrirtækið sem byggði viðbyggingu við Hótel Borgarnes og áttu það um tíma. Þessar vísbendingar er vissulega ef til vill auðvelt að stimpla sem fabúleringar en vísbendingar eru þetta samt.

Ókei fókusum aftur, í síðasta skipti ég lofa. Lögreglan rannsakaði málið og fann engar sannanir um kosningasvindl

Lögreglan fann engar "beinar" sannanir fyrir því að kosningasvindl hafi verið framið, en eins og ég hef áður gert tilraun til að útskýra, þá er sönnunarbyrðin í leynilegum kosningum svo gott sem ómöguleg, sem er ástæða þess að keðja trausts kjörgagna er svona mikilvæg. En djísöss kræst lítið á vísbendingarnar. Og takið eftir hvað sumar þeirra eru ógnvekjandi. Og takið eftir hvernig Lögreglustjórinn á Vesturlandi hefur dregið lappirnar í þessu máli.

Eitt enn sem var nokkuð undarlegt, ákveðin Gallup könnun. Ítarefni könnunarinnar var birt seint, spurningarnar voru óvenju leiðandi, langt var seilst til að ná fram ákveðnu narratívi.

RÚV.is - "Ólíkar skoðanir á lausn í Norðvesturkjördæmi" (2021-10-14T22:13)

Gallup.is - "Skiptar skoðanir um lausn í Norðvesturkjördæmi" (2021-08-25)

Aftur að þróun málsins

Inga Sæland, formaður Flokks Fólksins, var fyrsti meðlimur undirbúningskjörbréfanefndar til að tjá skoðun sína á málinu opinberlega eftir langa rannsókn. Og hver var skoðunin? Að ekkert hefði komið fram sem gæfi til kynna að endurtalningin ætti ekki standa, að ekki væri þörf á endurkosningu.

Vísir.is - "Engin gögn komið fram sem sýna fram á að önnur talning eigi ekki að standa" (2021-11-16T17:35)

Vísir.is - "Telur ekkert hafa komið fram sem sýni að önnur talning í NV-kjör­dæmi eigi ekki að gilda" (2021-11-16T20:02)

RÚV.is - "Hallast að því að seinni talningin í Norðvestur gildi" (2021-11-16T21:38)

mbl.is - "Segir enga ástæðu til þess að kjósa aftur" (2021-11-17T13:45)

Í kjölfarið steig nefndarmeðlimur fyrir hönd Pírata, Björn Leví Gunnarsson, fram og sagði að þetta væri skoðun meirihluta þeirra sem sætu í nefndinni.

Kjarninn.is - "Ríkjandi viðhorf í nefndinni að seinni talningin í Borgarnesi skuli gilda" (2021-11-17T20:00)

Þetta kom mörgum nokkuð á óvart. En fyrir okkur sem fylgst höfðum ítarlega með umræðunni? Við höfðum séð í hvað stefndi vikunum saman. Augljósasta vísbendingin var hvernig áframhaldandi viðræður formanna stjórnarflokkanna þróuðust. Það var augljóst í hvað stefndi.

mbl.is - "„Við sjáum alveg til lands í þessu samtali“" (2021-10-29T19:27)

Vísir.is - "Kynning ríkisstjórnar gæti dregist um eina til þrjár vikur" (2021-11-10T11:55)

Nokkrum dögum síðar varð svo fyllilega ljóst að valmöguleikinn að láta endurtalninguna gilda þrátt fyrir að keðja trausts hafði verið rofin yrði fyrir valinu. Kjörbréfanefndin birti yfirlýsingu sem allir meðlimir hennar studdu fyrir utan einn, þar kom fram að einu tveir valkostirnir sem þættu yfir höfuð koma til greina væri að láta síðari talningu gilda, eða kjósa aftur einungis í norðvesturkjördæmi. Hinir tveir valkostirnir höfðu verið slegnir út af borðinu. Vankantar þess að kjósa aftur einungis í norðvesturkjördæmi höfðu að auki verið mjög vel kynntir fyrir almenningi. Þrátt fyrir alla þá vankanta kysi ég persónulega þá lausn fram yfir endurtalninguna. En það var bara ég, og það var óvinsæl skoðun. Og ég skil það vel.

Kjarninn.is - "Allir nefndarmenn sammála um að „fyrri talning“ geti ekki gilt" (2021-11-23T18:59)

Og loks eftir kvalafulla forsögu, þann 2021-11-25 gerðist það. Hið nýkjörna Alþingi kom saman. Heitar umræður stóðu yfir allan daginn, fram á kvöld. Ég gerði mér ferð niður á Austurvöll um klukkan 18:30, það var enginn þar, ég fór á einn barinn í nágrenninu og fékk mér öl og hlustaði áfram á útsendingu Alþingis í eyrunum í gegnum snjallsímann, ég rölti aftur út á Austurvöll fyrir framan Alþingishúsið kringum 20:30, það var enginn þar, ég hlustaði þar áfram á útsendinguna innan úr Alþingishúsinu, hlustunin var átakanleg á köflum en ég hlustaði á hana til enda, meira að segja ömurlega yfirlýsingu Bergþórs Ólasonar, ég hlustaði þegar umræðum lauk klukkan 21:27 og kvíðvænleg kosningin hófst. Eftir umræður dagsins hafði fengist í gegn að kosið yrði um alla fjóra valmöguleikana. En Alþingi kaus samt versta mögulega valkostinn, og þannig fór það. Smánarblettur á sögu lýðræðis okkar Íslendinga. Alþingi hafði lagt blessun sína yfir ólögmætar kosningar. Þær væru lögmætar. Hvítt væri svart. Ónýt kjörgögn væru örugg og áreiðanleg. Allt væri í hinu stakasta lagi.

Megi hver og einn einasti þingmaður sem átti þátt í þvi að svo varð raunin eiga ævarandi skömm fyrir. Megi sagan dæma ykkur.

Kjarninn - "Öll kjörbréfin 63 staðfest af Alþingi" (2021-11-25T21:34)

Þetta mál verður eflaust að endingu sent til Mannréttindadómstóls Evrópu. Sé niðurstaða Mannréttindadómstólsins að íslensku þingkosningarnar 2021 hafi verið ólöglegar þá kannski loksins verða einhverjar afleiðingar í þessu máli. Þá kannski loksins munu allir þeir þingmenn sem lögðu blessun sína yfir endurtalninguna ólögmætu og höfnuðu öllum öðrum möguleikum hypja sig af þingi. Þið eigið ekkert erindi á Alþingi Íslendinga.

En þær vonir mínar eru ekki háar. Jafnvel þó Mannréttindadómstóllinn dæmdi þingkosningarnar ólöglegar á einn eða annan hátt. Það eina sem getur knúið fram afleiðingar er að almenningur átti sig á ruglinu sem fengið hefur að viðgangast og fari að beita sér gegn því! Og það hefur hann ekki gert hingað til.

Vísir.is - "Skora á Katrínu að segja af sér og boða mál fyrir Mannréttindadómstólnum" (2021-11-29T10:37)


Höfundur er óbreyttur borgari – í hópi þeirra sem kærðu þingkosningarnar 2021 til kjörbréfanefndar og reyndi að beita sér fyrir lýðræðislegri lendingu þessa máls.

Sign up for free to join this conversation on GitHub. Already have an account? Sign in to comment