Skip to content

Instantly share code, notes, and snippets.

@Loknar
Last active August 1, 2020 13:38
Show Gist options
  • Save Loknar/41930e57acc2b832bd217ac6065dd078 to your computer and use it in GitHub Desktop.
Save Loknar/41930e57acc2b832bd217ac6065dd078 to your computer and use it in GitHub Desktop.
Íslensk þýðing á Worm, kafla 1.3, https://parahumans.wordpress.com/2011/06/18/gestation-1-3/

Myndbreyting 1.3

Æfingaáætlunin mín samanstóð af því að hlaupa á hverjum morgni og annan hvern eftirmiðdag. Í því ferli hafði ég öðlast nokkuð góða þekkingu á austurhluta borgarinnar. Á uppvaxtarárunum höfðu foreldrar mínir sagt mér hluti eins og "halda sig innan Boardwalk". Jafnvel á þessum hlaupatúrum mínum hafði ég haldið mig innan Boardwalk svæðisins og forðast óróahluta bæjarins. Núna var sunnudagskvöld og ég var úti í búningi brjótandi reglurnar.

Ég hafði litað og málað búninginn á föstudaginn, keypt nokkra tímabundna hluti fyrir búninginn (belti, festingarnar fyrir grímuna og hlífðargleraugun) á laugardeginum og klárað nauðsynlegustu smáatriðin á sunnudeginum áður en ég hélt út um kvöldið. Búningurinn var ekki fullkláraður ennþá, ég ætlaði að bæta við brynjum á fleiri staði, en mikilvægustu svæðin voru brynvarin - andlit, bringa, hryggur, magi og helstu liðamót. Hönnun grímunnar var með gulum hlífðarglerum, eini liturinn á svörtum og gráum búningnum, og á henni var brynja sem var eins og bitkjálkar skordýrs í útliti en líka til að verja kjálkana mína. Gríman skildi hárið mitt eftir frjálst, sem gerði afturhluta höfuðsins töluvert berskjaldaðan, en það var bara ein af fórnunum sem ég þurfti að færa til að fara út í ókláruðum búning.

Það var rétt eftir miðnætti, og ég var að fara yfir mörkin á betri hluta bæjarins til hluta bæjarins þar sem eiturlyfja hórur og glæpamenn héldu til. Fjarlægðin milli þessara staða var þynnri en fólk hefði haldið.

Boardwalk svæðið var ferðamannasvæði. Á norður-til-suðurs svæðinu meðfram ströndinni voru verslanir sem seldu fatnað á yfir þúsund dali, kaffihús með svívirðilega dýru kaffi og timburlagðir gangstígar og strandir þar sem túristar sóttu í frábært útsýni yfir hafið. Frá nánast öllum stöðum á Docs bryggjuhverfinu var hægt að sjá eitt helsta kennileiti Brockton Bay, Protectorate höfuðstöðvarnar. Að auki við að vera undur í arkítektúr og hönnun með bogum og turnum var PHQ byggingin fljótandi miðlægar höfuðstöðvar sem teymi af ofurhetjum höfðu í aðstöðu og heimili, kúlulaga gegnsær orkuhjúpur huldi bygginguna og hún var útbúin fullkomnu eldflaugavarnakerfi. Það hafði aldrei komið upp þörf til að nota það, en ég varð að viðurkenna að það fylgdi því ákveðin öryggistilfinning.

Ef haldið var vestur frá Boardwalk svæðinu, burtu frá hafinu, endaði maður á svæði sem heimamenn kölluðu 'Docs' eða 'Bryggjuhverfið'. Þegar innflutnings- og útflutnings viðskipti í gegnum Brockton Bay þornuðu upp hafði verið fjöldinn allur af fólki sem stóð skyndilega uppi atvinnulaust. Ríkustu og útsjónarsamari borgarbúum hafði tekist að þéna mikið fé á að fjárfesta í nýjum tækni- og bankainnviðum, en fólkið sem hafði starfað á skipum og í vöruhúsum hafði fáa möguleika að velja úr. Það stóð frammi fyrir valmöguleikunum að flytja á brott úr Brockton Bay, vera um kjurrt og grípa þau láglaunastörf sem buðust eða snúið sér að glæpastarfsemi.

Þetta hafði allt stuðlað að uppsveiflu á fjölda starfandi ofurillmenna á svæðinu. Möguleikarnir á miklum fjármunum samofið fjölda viljugra þorpara og skósveina gerðu borgina að aðalbælinu fyrir illmenni í lok tíunda áratugarins. Það voru nokkur stormasöm ár þegar hetjur hófu að skipuleggja sig og koma upp höfuðstöðvum og fótfestu á svæðinu, en þeim hafði tekist það fyrir rest, og núna stóð yfir einhverskonar jafnvægistímabil. Hvað varðar skikkjur, fjölda íbúa með krafta, var Brockton Bay ekki meðal efstu fimm borga í Bandaríkjunum, en það var líklega á meðal tíu efstu.

Með því einu að ferðast frá einni svæðisblokk til annarrar gastu séð hve miklar breytingar höfðu orðið á svæðinu. Þegar ég lagði leið mína í gegnum Docs bryggjuhverfið gat ég séð gæði umhverfisins minnka hratt. Það var nóg af vöruhúsum og íbúðum á svæðinu til að jafnvel hinir fátækustu gætu fundið húsaskjól, svo eina fólkið á götum úti voru meðvitunarlausir fylliraftar, hórur og meðlimir glæpaklíka. Ég tók krók framhjá öllum sem ég sá og hélt lengra inn í svæðið.

Á meðan ég gekk, notaði ég krafta mína til að safna saman í hjörð skordýra, en hélt þeim leyndum, lét þau ferðast rétt yfir nærliggjandi þök og í gegnum innvols bygginga. Ef einhver tæki eftir undarlegri hegðun kakkalakkanna hjá sér gæti viðkomandi haldið að eitthvað undarlegt væri í gangi, en það var ekki ljós í mörgum gluggum þessa stundina. Ég efaðist satt að segja um að megnið af húsunum hérna hefði rafmagn.

Skortur á lýsingu á svæðinu fékk mig til að stoppa og færa mig upp við hlið byggingar þegar appelsínugulur blettur birtist skyndilega á miðri götunni framundan. Bletturinn var frá loga úr sígarettukveikjara og ég gat greint nokkur andlit í kringum hann. Þeir voru asískir, sumir klæddir í hettupeysur, aðrir með höfuðbönd eða í langermabolum, en allir voru klæddir sömu litunum. Rauður og grænn.

Ég vissi hvaða lið þetta var. Þetta voru meðlimir í klíku sem skildi eftir sig merkinguna 'Azn Bad Boys', eða ABB, um alla austanverða borgina. Þónokkrir nemendur í skólanum mínum voru víst meðlimir. Hvað varðar glæpakúltúrinn í Brockton Bay var þessi klíka enginn smáfiskur. Þó hinir dæmigerðu meðlimir væru bara almennt fólk ættað frá Kóreu, Japan, Víetnam og Kína, krakkar úr menntaskólum Brockton Bay og frá lágstéttarsvæðum sem höfðu verið neyddir til að ganga til liðs við klíkuna, þá var klíkunni stýrt af valdamiklum einstaklingum. Klíkur voru iðulega ekki kynþáttatengdar hvað varðaði gilda meðlimi, svo það sagði sína sögu að leiðtogar þessarar klíku höfðu getu til að draga inn meðlimi frá svo mörgum mismunandi þjóðernum án þess að láta klíkuna sundrast.

Gatan var óupplýst, svo geta mín til að sjá var bundin við tunglskinið og örfá ljóst innan úr húsum sem voru enn kveikt og skinu út á hliðargöturnar. Ég reyndi að finna út hver væri leiðtogi hópsins. Það voru fleiri klíkumeðlimir að safnast saman við tveggja hæða hús, mannfjöldinn á götunni jókst. Það leit ekki út eins og þeir væru bara að hittast og hanga saman. Enginn sýndi svipbrigði, sumir virtust skapillir og enginn þeirra sagði orð.

Ég sá loks leiðtoga hópsins þegar gengið færði sig frá hurðinni á húsinu til að gefa honum pláss. Það litla sem ég vissi um þennan mann var úr sjónvarpsfréttum og vefmiðlum, en ég kveikti strax hver þetta var. Hann var stór og þrekvaxinn en ekki þannig að hann liti út eins og einhver jötunn sem fengi fólk til að flýja undan sér, eins og sumir einstaklingar með ofurkrafta voru. Hann var um einn og nítíu á hæð sem var nóg til að vera höfðinu hærri en flestir í kringum hann. Hann huldi andlitið með vandaðri málmgrímu, ber að ofan þrátt fyrir kuldann. Skrautleg húðflúr þöktu líkamann hans frá hálsi og niður, allskonar drekar úr asískri goðafræði.

Hann gekk undir nafninu 'Lung', hafði lent í þónokkrum bardögum við heilu hetjuteymin og gekk enn laus, eins og mátti sjá af veru hans þarna. Varðandi kraftana hans þá vissi ég bara það sem ég hafði leitað uppi á veraldarvefnum, og það var ekkert öruggt að þær upplýsingar væru réttar. Ég meina, það gæti allt eins verið að hann sjálfur hefði dreift röngum upplýsingum um sjálfan sig og kraftana sem hann hafði, það gæti vel verið eitthvað við kraftinn hans sem fólk ekki vissi og hann geymdi eins og ás uppi í erminni fyrir neyðartilfelli, eða það gæti verið eitthvað mjög lúmskt við kraftana hans sem fólk vissi ekki hvernig virkaði.

Upplýsingarnar á netinu og í blöðunum sögðu mér eftirfarandi: Lung gat smám saman breyst. Mögulega var það byggt á adrenalíni, tilfinningalegu ástandi hans eða eitthvað, en hvað sem það var þá gerði það hann sterkari eftir því sem bardagi dróst á langinn. Líkaminn hans læknaðist ofurmannlega hratt, styrktist, harnaði, stækkaði, myndaði brynvarðan þykkan skráp og fingraneglurnar hans voru sagðar vaxa og mynda að lokum einhverskonar hnífa. Það var orðrómur um að ef bardagi við hann dróst of lengi yxu honum meira að segja vængir. Til að bæta gráu ofan á svart þá hafði hann eldkrafta, hann gat skapað elda upp úr þurru lofti, mótað, eflt og svo varmvegis. Sá kraftur varð víst líka öflugri eftir því sem leið á bardaga. Að því ég best vissi voru engin þekkt efri mörk á hversu sterkur hann gat orðið. Hann byrjaði að verða venjulegur aftur þegar enginn var eftir til að berjast við.

Lung var ekki eina manneskjan með krafta í ABB klíkunni. Það var annar þekktur sem var sagður alveg siðlaus og var kallaður Oni Lee, sem gat fjarflutt sig milli staða og skapað tvífara af sjálfum sér - ég var ekki hundrað prósent á smáatriðunum - en Oni Lee hafði auðþekkjanlegt útlit og ég sá hann ekki í mannfjöldanum. Ef einhver önnur manneskja með krafta var á meðal þeirra þá hafði ég ekki séð eða heyrt neitt um þá í rannsóknum mínum.

Lung hóf upp raustina, hún var djúp og valdamikil. Ég náði ekki að greina orðin, en það hljómaði eins og hann væri að útbíta fyrirmælum. Á meðan ég horfði tók einn meðlimur upp hníf úr vasanum og annar lagði hönd sína í beltið sitt. Í gegnum rökkrið hálfri húsaröð í burtu sá ég það ekki mjög skýrt, en greindi dökkar útlínur á grænu peysunni hans. Líklega var það byssuhandfang. Hjartslátturinn varð hraðari þegar ég sá byssuna, sem var kjánalegt. Lung var eflaust hættulegri en fimmtíu manns vopnaðir byssum.

Ég ákvað að færa mig frá staðnum sem ég var á og finna betra sjónarhorn til að fylgjast með og hlusta á samtalið þeirra, sem hljómaði eins og góð málamiðlun milli forvitni og öryggis. Ég bakkaði rólega í burtu frá þar sem ég var, leit um öxl til að ganga úr skugga um að enginn sæi mig og tölti á bak við húsið sem ég hafði falið mig upp við.

Bingó, það borgaði sig. Hálfleið inn í húsasundið var eldvarnarstigi sem lá upp á húsið sem Lung og gengið hans stóðu fyrir framan. Sólarnir á búningnum mínum voru mjúkir svo það heyrðist nánast ekkert á meðan ég klifraði upp stigann.

Þakið var þakið möl og sígarettustubbum, ég hugsaði með mér að ég mundi eiga erfitt með að læðast hljóðlaust yfir mölina. Í staðinn læddist ég meðfram þakskegginu. Þegar ég nálgaðist þakhlutann fyrir ofan Lung og "Azn Bad Boys" klíkuna kraup ég niður og skreið restina á maganum. Það var líklega nógu dimmt til að ég gæti hoppað og baðað út höndunum án þess að nokkur þeirra tæki eftir mér, en það var engin ástæða fyrir fíflaskap.

Ofan af þakinu á tveggja hæða húsinu gerði mér erfitt fyrir að heyra hvað verið var að segja. Lung var líka með þennan sterka hreim, sem gerði að verkum að ég skildi ekki fyllilega hvað hann sagði fyrr en hann var búinn með tvær þrjár setningar. Það hjálpaði að þorpararnir í kringum hann voru alveg þögulir og stilltir á meðan hann talaði.

Lung rumdi, "... krakkana, skjótið bara. Skiptir ekki máli hvert þið miðið, bara skjóta þá. Og ef þið sjáið einhvern liggjandi á jörðinni? Skjótið litlu tíkina tvisvar til að vera viss. Gefum þeim engan möguleika á að vera sniðug eða heppin, er það skilið?"

Það heyrðust muldur af samþykki.

Einhver annar kveikti í sígarettu og hallaði sér svo til að kveikja í sígarettu fyrir gaurinn við hliðina á sér. Á augnablikinu sem hann vafði ekki höndina utan um logann hjá sér gat ég greint andlit á yfir tólf óþokkum sem voru saman komnir kringum Lung. Ég gat greint byssur í höndum, beltum og slíðrum endurspegla appelsínugulan logann frá sígarettukveikjaranum. Ef ég þyrfti að leggja áhættumat á aðstæður mundi ég áætla að þeir væru allir vopnaðir byssum.

Þeir ætluðu að drepa börn?


Fyrri hluti - Næsti hluti

Sign up for free to join this conversation on GitHub. Already have an account? Sign in to comment