Skip to content

Instantly share code, notes, and snippets.

@Loknar
Last active August 1, 2020 13:38
Show Gist options
  • Save Loknar/e8927e63777d39f57ba3336d7cdd354a to your computer and use it in GitHub Desktop.
Save Loknar/e8927e63777d39f57ba3336d7cdd354a to your computer and use it in GitHub Desktop.
Íslensk þýðing á Worm, kafla 1.4, https://parahumans.wordpress.com/2011/06/21/gestation-1-4/

Myndbreyting 1.4

Ég fékk hroll. Núna sá ég eftir því að hafa ekki orðið mér úti um einnota farsíma. Ég var ekki með vasabelti en í lagskiptri hryggjarbrynjunni á búningnum mínum hafði ég komið fyrir nokkrum bráðaofnæmispennum, blaði og penna, litlum brúsa af piparúða sem hafði áður hangið á lyklakippu og poka af kalkpúðri. Ég hefði getað komið fyrir litlum farsíma þar. Ef ég hefði gert það hefði ég getað gert alvöru hetjum viðvart um áform Lung um að ætla að ná sér niðri á andstæðingum sínum með því að fara að skjóta börn.

Eða það var það sem ég hafði heyrt. Ég var ekki ennþá að trúa þessu og snéri orðunum sem ég hafði heyrt í hausnum á mér til að reyna að finna annað samhengi sem vit var í. Það var ekki að ég trúði því ekki upp á hann að gera eitthvað svoleiðis. Ég átti meira erfitt með að gera mér hugarlund um að einhver yfir höfuð gerði það.

Lung svaraði spurningu eins meðlims klíkunnar og skipti stuttlega yfir á annað tungumál. Hann greip í handlegg mannsins og sneri upp á hann svo hann gæti lesið tímann á úrinu hans, svo ég ályktaði að spurningin hefði haft eitthvað með tímann að gera, hugsanlega hvenær þeir yrðu búnir. Meðlimurinn sem Lung hafði snúið upp á handlegginn á kiknaði þegar Lung sleppti handleggnum og hörfaði til baka, en kvartaði ekki.

Hvað átti ég eiginlega að gera? Ég efaðist um að ég gæti fundið nokkurt húst í Bryggjuhverfinu þar sem íbúarnir væru tilbúnir að hleypa mér inn og leyfa mér að hringja símtal í símanum þeirra. Ef ég færi til baka í Boardwalk svæðið var ég ekki viss um að finna neinn stað sem var enn opinn, og ég hafði ekkert klink fyrir tíkallasíma. Það voru mistök sem ég mundi leiðrétta fyrir næsta skipti sem ég færi út. Farsími og klink í tíkallasíma.

Bíll kom og stoppaði nálægt þvögunni og út stigu þrír gaurar klæddir í klíkulitina og gengu inn í þvöguna. Stuttu seinna hélt hópurinn - tuttugu eða tuttugu og fimm í heild - af stað norður götuna, framhjá fyrir neðan mig á leið sinni niður götuna.

Ég hafði ekki meiri tíma til að vega valmöguleikana í boði. Eins mikið og ég vildi ekki horfast í augu við það, þá var í raun bara einn valkostur í boði sem ég mundi ekki sjá eftir. Ég lokaði augunum og fann hverja einustu pöddu í nágrenninu, þar með talið hjörðina sem ég hafði tekið yfir á leið minni yfir í Bryggjuhverfið. Ég tók yfir hverja og eina þeirra.

Árás.

Það var niðamyrkur og ég gat einungis greint hvar pöddusveimurinn minn var með kraftinum mínum. Það hafði þá aukaverkun að ég gat ekki lokað á tenginguna mína við pöddurnar ef ég vildi fá einhverja hugmynd um hvað væri að gerast. Heilinn minn fylltist af gríðarlegu flæði upplýsinga, hvert einasta bit, hver einasta stunga. Á meðan mörgþúsund skordýr og áttfætlur sveimuðu og skriðu í kringum hópinn gat ég næstum séð útlínur hverrar einustu manneskju, með því einu að skynja lögun yfirborðanna sem pöddurnar settust á. Ég einbeitti mér að því að halda meira eitruðu pöddunum í skefjum til að byrja með - ég vildi ekki lenda í að menn fengju bráðaofnæmiskast sökum býflugnastungna eða alvarleg bit frá brúnum fiðlubaks köngulóm.

Ég skynjaði eldinn í gegnum pödduherinn áður en ég áttaði mig á hvað ég var að horfa á með augunum mínum. Krafturinn minn skilaði til mín að pöddurnar hefðu skynjað hita, en mér hafði ekki hugnast að loka á eðliskvatirnar sem eldurinn olli og skaðinn var skeður. Frumstæðar hugsanir paddanna minna urðu að rugluðum hvötum til að til skiptis flýja hitann og svo elta hitann og ljósið sem þær venjulega sóttu iðulega í. Margar drápust eða örkumluðust sökum hitans. Þaðan sem ég lá á þaki hússins sá ég Lung sveifla eldtungum úr höndum sínum í átt til himins.

Ég náði að halda aftur af því að hlæja, ég fann léttleika í höfðinu vegna adrenalíns. Var þetta allt og sumt sem hann gat gert? Ég leiðbeindi sveimnum mínum aftur til verka, svo þær pöddur sem voru ekki nú þegar að bíta og stinga voru saman komnar í miðju genginu. Ef hann vildi beina eldi sínum að pöddunum yrði hann að kveikja í sínum eigin skósveinum.

Upphitaða loftið og lyktin gaf mér nægar upplýsingar í gegnum skordýrin mín til að vita hvar Lung var staðsettur innan hópsins. Ég dró andann djúpt og sendi svo inn varaliðið. Ég beindi hluta af eitruðu gerðunum sem ég hafði haldið í skefjum í átt að Lung. Handfylli býfluga, geitunga, fjöldi eitraðra köngulóa, svartar ekkjur, brúnir fiðlubakar og tugir eldmaura.

Líkaminn hans læknaðist hratt þegar krafturinn hans var virkur. Allt sem ég hafði lesið um fólk með slíka lækningarmátta benti til að það hristi fljótt af sér áhrif eiturefna og lyfja, svo ég ályktaði að ég þyrfti að dæla í hann nógu miklu eitri til að yfirvinna þann þátt kraftsins. Að auki var hann stór strákur. Ég trúði ekki öðru en að hann mundi þola það.

Miðað við upplýsingarnar sem ég gat greint frá pöddunum mínum hafði Lung hulið um fjórðung af líkamanum sínum í brynju. Þríhyrndir hlutar af málmhúð stungust út úr húðinni hans og héldu áfram að vaxa þar til hann var svo til ósnertanlegur. Ef þær voru ekki nú þegar byrjaðar að vaxa þá var líklega ekki langt í að fingra- og mögulega líka táneglur færu að vaxa í beitta málmhnífa.

Ég fann djöfullega gleðitilfinningu þegar ég hugaði að árásinni á Lung. Ég sendi fljúgandi skordýr í að ráðast á andlitið hans. Með ógeðstilfinningu beindi ég skríðandi maurunum og köngulónum á ... önnur viðkvæm svæði. Ég reyndi eftir besta megni að loka á svörin sem ég fékk frá þeirri árás, þar sem ég vildi örugglega ekki samskonar yfirborðsmynd frá því svæði og sveimurinn hafði veitt mér á síðustu mínútu. Lung var hættulegur og ég varð að taka hann úr leik hratt. Ég varð að spila hart.

Það beit mig smá sektarkennd að hafa fengið ánægju útúr því að valda einhverjum öðrum skaða. Ég slökkti þá sektarkennd með því að árétta við sjálfa mig að Lung hafði nú þegar dreift harmleikjum, fíkn og dauða til óteljandi fjölskyldna. Og hann hafði ætlað að drepa börn.

Lung sprakk. Engar myndlíkingar þar. Hann sprakk í hvell af brennandi eldi sem kveikti í fötunum hans, einhverju nálægu rusli og einum klíkumeðliminum við hlið hans. Nánast hver einasta padda í grennd við hann drapst eða örkumlaðist vegna yfirgnæfandi hitans. Frá sjónarhorni mínu á þakinu horfði ég þegar hann sprengdi sig í annað sinn. Eftir seinni sprenginguna var lítið eftir af fötunum hans annað en ræmur og klíkuhópurinn flúði undan honum í leit að skjóli. Hann steig út úr reiknum með hendur sínar brennandi eins og kyndla, silfrað hreistrið sem hafði hulið þriðjung af líkamanum hans endurvarpaði loganum.

Ekki gott. Mjög slæmt. Hann var eldvarinn? Eða nógu flinkur í að stýra eldi að hann gat yfirhitað loftið í kringum sig án þess að brenna sig? Það litla sem var eftir af fötunum hans brann í burtu, og eldur sleikti og dansaði um hendurnar hans án þess að hann gæfi því nokkurn gaum.

Hann öskraði. Það var ekki svona ófreskjulegt öskur eins og fólk hefði búist við, heldur mjög mannlegt öskur, uppfullt af reiði og gremju. En þó það hljómaði mannlegt var það mjög hátt. Alla leið niður götuna og hverfið flöktuðu ljós í takt við sprengingarnar og öskrin. Ég sá þónokkur andlit gægjast út í glugga hér og þar til að sjá hvað væri í gangi. Fávitar. Ef næsta árás Lung mundi mölva einhverjar rúður gæti fólkið slasað sig.

Þaðan sem ég lá á hlið þaksins sendi ég nokkur skaðlaus skordýrum að ráðast á Lung. Hann beitti annarri eldárás um leið og þær fóru að setjast á og skríða um hann, sem ég hafði meira og minna búist við. Hann var að ná að drepa megnið af pöddunum í hverri eldárás og vitandi það sem ég vissi um kraftana hans þá var ég meðvituð um að logarnir hans ættu bara eftir að verða stærri, heitari og hættulegri.

Í venjulegum bardaga gastu búist við að aðilar mundu þreytast eftir því sem bardaginn héldi áfram. Menn mundu skiptast á skotum, þreytast, klára brellurnar sínar. Með Lung var það öfugt. Ég sá smá eftir því að hafa einungis notað hluta af eitruðu pöddunum því það var orðið meira og meira ljóst að þær sem ég hafði notað höfðu ekki haft mikil áhrif. Hann hafði ekki hugmynd um hvar ég var svo ég leit þanng á að ég væri enn með yfirhöndina, en valkostum mínum fór ört fækkandi. Þrátt fyrir gleði mína stuttu áður var ég ekki viss um að ég gæti unnið þetta lengur.

Ég hvæsti í gegnum tennurnar, fullmeðvituð um að tíminn var að renna út. Áður en langt um liði mundi Lung kveikja í húslengjunni, verða ónæmur fyrir bitum og stungum almennt, eða afmá restina af pöddusveimnum. Ég varð að gerast meira skapandi. Ég varð að beita klækjum.

Ég beindi athyglinni að einum geitung, sendi hann fljúgandi fyrir aftan Lung, upp meðfram bakinu hans og bak við höfuðið, síðan örsnöggt taka hálfhring og beint í augað. Geitungurinn snerti augnhárin og Lung blikkaði áður en geitungurinn náði að stinga í augað. Stungan skilaði sér einungis í augnlokið og olli enn einni sprengingu elds og öskrandi reiði.

Aftur. Hugsaði ég. Hunangsfluga í þetta skiptið. Ég var ekki viss hvort að honum mundi vaxa að endingu brynvarin augnlok, en kannski næði ég að stinga augun hans og láta þau bólgna? Hann gæti ekki barist ef hann blindaðist.

Í þetta skiptið náði býflugan að sökkva stungubroddinum sínum í augað á Lung. Það kom mér á óvart að proddurinn hvorki festist né drap býfluguna, svo ég lét býfluguna stinga aftur og í þetta sinn stakk hún húðina í hlið nefsins. Býflugan drapst í það skiptið og skildi eftir sig örsmá líffæri og eitursekk hangandi á stungubroddinum.

Ég bjóst við að sjá hann springa aftur. Hann gerði það ekki. Þess í stað kviknaði eldur allt í kringum hann, frá toppi til táar. Ég beið í smá stund, tilbúin með næsta geitung um leið og eldurinn mundi hverfa, en þegar sekúndurnar liðu áttaði ég mig á að hann ætlaði ekki að stöðva eldinn. Hjartað í mér sökk.

Eldurinn mundi klárlega taka til sín megnið af súrefninu í kringum Lung. Þurfti hann ekki að anda? Hver í fjáranum var uppspretta eldsins hans?

Hann stóð á götunni og leit í allar áttir, leitandi að mér, með líkamann í ljósum logum, lýsandi upp svæðið í kring. Skyndilega beygði hann sig niður. Ég velti fyrir mér - ég vonaði - að hin ýmsu eiturefni sem höfðu skilað sér í líkama hans hefðu gert útslagið. Síðan klofnaði bakið hans í tvennt. Kjötmikið skarð myndaðist meðfram hryggnum og eftirfylgjandi gos af löngum málmkenndum hreistrum niður skarðið. Eftir skamma stund fóru hreistrin að falla niður eins og dómínó kubbar. Hann stóð upp og rétti úr sér, og ég gat svarið að hann var orðinn stærri, nú með brynvarinn hrygg.

Ennþá alelda, frá hvirfli til ilja.

Þetta 'endalaust alelda' dæmi hafði gert baráttuna tilgangslausa, og að horfa á Lung vaxa og verða sterkari var farið að hræða mig. Ég fór að huga að útgönguleið. Ég ályktaði að skósveinar Lung væru dreifðir í allar áttir og hver í verra ásigkomulagi. Hvað sem Lung hafði planað að gera þetta kvöld voru allar líkur á að plönin hans væru farin út um þúfur. Ég hafði meira og minna afrekað það sem ég þurfti og gerði ráð fyrir að ég gæti flúið og náð sambandi við PHQ til öryggis.

Það voru rökin mín. En í rauninni vildi ég bara láta mig hverfa héðan. Ef hlutirnir héldu áfram eins og horfði og ég yrði áfram um kjurrt, þá voru töluverðar líkur á að Lung mundi staðfesta sögusagnirnar um að hann gæti látið sér vaxa vængi og flogið, og þá yrði hann ekki lengi að leita mig uppi. Ég gat hvort eð er ekki unnið Lung lengur á þessum tímapunkti, svo eina valið í stöðunni var að hörfa eins og bleyða.

Lung sneri bakinu í áttina að mér, svo ég reis upp, hægt. Krjúpandi tók ég skref í átt að eldvarnarstiganum og horfði í átt að Lung er ég steig létt á mölina á þakinu.

Eins og byssuskot hefði heyrst sneri Lung sig snöggt við og starði beint á mig. Annað augað hans var bara glóandi lína á bak við grímuna hans, en hitt var eins og hnöttur af bráðnuðum málmi.

Siguröskur ómaði yfir svæðið, minna mannlegt en öskrin sem hann hafði látið frá sér áður, og ég fann einhverskonar uppgjafartilfinningu hellast yfir mig. Ofurheyrn. Einn af kröftunum sem hann öðlaðist við umbreytinguna var ofurnæm heyrn.


Fyrri hluti - Næsti hluti

Sign up for free to join this conversation on GitHub. Already have an account? Sign in to comment