Skip to content

Instantly share code, notes, and snippets.

@Loknar
Last active August 1, 2020 18:14
Show Gist options
  • Save Loknar/a57a337404ab7a9c9e85ce4da31eada5 to your computer and use it in GitHub Desktop.
Save Loknar/a57a337404ab7a9c9e85ce4da31eada5 to your computer and use it in GitHub Desktop.
Íslensk þýðing á Worm, kafla 1.5, https://parahumans.wordpress.com/2011/06/25/gestation-1-5/

Myndbreyting 1.5

Þú áttar þig ekki almennilega á hvað ofurmannlegur styrkur þýðir fyrr en þú sérð einhvern stökkva frá gangstétt yfir á aðra hæð á húsi á hinni hlið götunnar. Hann dreif ekki alveg upp á þakið heldur lenti á hlið hússins í um þrjá fjórðu af leiðinni upp. Ég var ekki viss hversvegna Lung féll ekki niður, en giskaði á að hann hefði grafið fingurna í klæðninguna.

Ég heyrði brak og bresti frá klifrinu hans, ég leit í áttina að einu flóttaleiðinni minni. Ég reyndi ekki einu sinni að telja mér trú um að ég næði að flýja niður eldvarnarstigann áður en Lung yrði kominn upp á þak og mundi leggja saman tvo og tvo hvert ég hefði horfið. Til að gera hlutina verri, jafnvel þó ég næði að komast niður eldvarnarstigann gæti Lung orðið á undan mér niður með því að stökkva niður af þakinu, eða hann gæti einfaldlega varpað eldi í gegnum eldvarnarstigann á meðan ég væri enn í honum. Kaldhæðnislegt að eldvarnarstigi mundi ekki verja mig gegn eldi.

Ég vildi svo innilega að ég gæti flogið. Í skólanum var val á milli efnafræði, líffræði og eðlisfræði, með grunnvísindi sem forkröfu. Ég hafði ekki valið eðlisfræði, en ég var nokkuð viss um að sama hversu margar ég notaði, að stökkva fram af þakinu og láta fljúgandi skordýr grípa mig yrði jafn árangurslaust og níu ára börnin í fréttunum sem vildu verða ofurhetjur og höfðu stokkið fram af hengiflugi vopnuð regnhlífum og rúmfötum.

Eins og staðan var, þá var ég föst uppi á þessu þaki.

Ég teygði mig í lagskipta hryggjarbrynjuna og renndi fingrunum yfir það sem ég hafði komið fyrir í henni. Ofnæmispennana hafði ég ef ég þyrfti að meðhöndla bráðaofnæmisköst vegna býflugnastungna og þess háttar, þeir hefði eflaust lítil sem engin áhrif á Lung, jafnvel þó ég næði einhvernveginn að komast nógu nálægt honum og finna stað til að stinga þeim í hann. Í versta falli gætu stungulyfin jafnvel gert kraftana hans ennþá öflugari með því að auka hormónaflæði eða endorfín sem virkjuðu kraftinn hans. Ekki ákjósanlegt, og líklegra til að gera hlutina enn verri. Ég var með poka af kalki sem hugsað var fyrir klifur og frjálsar íþróttir, ég hafði séð það í íþróttavöruversluninni þegar ég var að kaupa öryggisgler fyrir grímuna mína. Ég var með hanska og hélt ekki að kalkið mundi veita mér auka grip, en ég hafði fengið þá hugdettu að ég gæti notað það til að kasta á ósýnilegan óvin, og hafði gripið það með öryggisgleraugunum. Aftur á litið voru það ekki mjög gáfuleg kaup, sérstaklega í ljósi þess að ég gat með kraftinum mínum greint slíka andstæðinga með því að umkringja þá með fljúgandi pöddum. Sem vopn gegn Lung ... ég var ekki viss hvort kalkryk mundi springa eins og margt annað ryk gat gert ef því var kastað á eld, en eldur skaðaði hann ekki hvort eð er. Gagnslaust.

Ég dró fram litla brúsann með piparúðanum úr hryggjarbrynjunni. Hann var svartur, ekki mikið þykkari en penni, með gikk og öryggisrofa. Þetta var gjöf frá pabba, eftir að ég byrjaði að skokka á morgnana til að styrkja mig. Hann hafði beðið mig að vera á varðbergi á hlaupaleiðinni minni, og gaf mér þennan piparúða til að verja mig með, ásamt keðju til að festa hann við beltið mitt svo árásarmaðurinn gæti ekki tekið hann og notað gegn mér. Í búningnum hafði ég kosið að sleppa keðjunni þar sem mér fannst heyrast fullmikið í henni. Ég smellti örygginu af með þumlinum og beindi brúsanum fram fyrir mig tilbúin að spreyja. Ég kraup niður til að gera mig að smærra skotmarki og beið eftir að hann léti sjá sig.

Hendurnar á Lung voru enn þaktar eldi þegar þær birtust og gripu í þakbrúnina með slíku afli að klæðningin krumpaðist saman. Skömmu á eftir höndunum birtist höfuðið á honum og brjóstkassinn þegar hann hífði sig upp. Hann leit út eins og hann væri þakinn hnífsblöðum, geislandi gul-appelsínugulur og hulinn lághita eldtungum. Það var enga bera húð að sjá lengur, og hann var orðinn minnst tveir og fjörutíu á hæð miðað við lengd handleggjanna og efri búkinn. Axlirnar á honum einar voru um meter á breidd. Augað sem var heilt leit út fyrir að vera málmkennt, glóandi, möndlulaga pollur af fljótandi heitum málmi.

Ég miðaði á opna augað, en úðinn sprautaðist til hliðar og lenti á öxlinni á honum. Þar kviknaði í honum og úr varð skammlífur eldblossi.

Ég bölvaði örvæntingafullt og ítrekað en hljóðlátt og mundaði brúsann. Á meðan Lung setti annan fótinn yfir brúnina lagaði ég miðið á piparúðanum og spreyjaði aftur. Í þetta sinn - með örlítilli stefnubreytingu í miðju skoti - hitti ég hann í andlitið. Það kviknaði í spreyinu þegar það snerti hann en piparúðinn virtist þó virka. Hann öskraði, sleppti takinu á þakinu með annarri hendinni og greip um andlitið þeim megin sem góða augað hans var.

Í smá stund leit út eins og hann væri að missa jafnvægið og falla aftur fyrir sig, en þær vonir hurfu þegar hann náði að rétta sig af. Þó taldi ég mig gríðarlega heppna að þrátt fyrir hve málmkennt andlitið hans virtist vera þá hafði piparúðinn engu að síður virkað.

Lung lauk við að hífa sig upp á þakið. Ég hafði náð að fara illa með hann ... en ég gat bara ekki nýtt mér það á neinn hátt. Pöddurnar mínar unnu ekki á honum lengur, ég hafði engin fleiri tól á mér sem ég gæti notað, og ég mundi valda sjálfri mér mun meiri skaða en nokkurn tímann honum ef ég reyndi að ráðast á hann. Ef ég kæmist lifandi frá þessu ætlaði ég að verða mér úti um hníf eða litla sveðju jafnvel, ég stökk af stað í áttina að eldvarnarstiganum.

"Djöh... Djöfuls gerpi!" öskraði Lung. Ég sneri baki í hann og sá það því ekki, en þakið lýstist upp í skotstund og eldbylgja hæfði mig í bakið. Ég missti jafnvægið við höggið og féll í mölina og skall í upphækkaða þakbrúnina rétt hjá eldvarnarstiganum. Búningurinn minn virtist þola eldinn ágætlega, en hárið mitt - ég renndi höndunum í gegnum það til að ganga úr skugga um að það væri ekki logandi eldur í því.

Smá lán, hugsaði ég, að þakið var ekki tjörulagt. Ég gat rétt ímyndað mér hversu fljótt þakið hefði orðið alelda hefði það verið og hve lítið ég hefði getað gert í því.

Lung reis upp hægt og rólega og hélt enn fyrir góða augað höndinni. Hann gekk áfram örlítið haltrandi í áttina að mér. Blindaður skaut hann frá sér eldboga sem þakti meira en helminginn af þakinu. Ég greip um höfuðið og lagði hnén upp að bringu þegar heitar eldtungurnar fóru yfir mig. Búningurinn minn virtist verja mig alveg fyrir eldinum og að megninu fyrir hitanum, en mér varð þó nógu heitt til að þurfa að bíta í varirnar á mér til að forðast að gefa frá mér hljóð.

Lung hætti að sækja fram og sneri höfðinu hægt frá hægri til vinstri.

"Skít. Seyði," rumdi hann með djúpri röddinni og ríkum hreim, orðið skiptist í tvö sökum þess að hann var orðinn mjög móður og andaði að sér á milli orðanna. "Hreyfðu þig. Gefðu mér eitthvað að miða á."

Ég hélt í mér andanum og var eins kyrr og ég mögulega gat. Hvað gat ég gert? Ég var enn með piparúðann í höndinni, en jafnvel þó ég næði annarri bunu framan í hann mundi ég setja mig í stórhættu með að gefa honum staðsetninguna mína svo hann gæti ristað mig með eldtungunum sínum. Ef ég hreyfði mig mundi hann heyra í mér og ég mundi fá á mig annan eldflaum, líklega áður en ég næði að standa upp.

Lung færði höndina af andlitinu sínu. Hann blikkaði auganu nokkrum sinnum, leit svo í kringum sig og blikkaði svo auganu nokkrum sinnum í viðbót. Það var núna sekúnduspursmál hvenær hann sæi nógu vel til að greina hvar ég væri. Átti ekki piparúði að taka menn út í allt að hálftíma? Hvernig var þetta skrímsli ekki á A-lista?

Hann hreyfði sig skyndilega, logarnir á höndunum hans uxu gríðarlega og ég skellti aftur augnlokunum.

Ég heyrði í brakandi eldtungunum og fann að þær umluktu mig ekki, ég opnaði augun aftur. Lung beindi eldtungunum í átt að endanum á þakinu á húsinu við hliðina á okkur, þriggja hæða hús. Ég leit upp til að sjá hvað hann var að miða á, en gat ekki greint hvað það var í myrkrinu og ekki heldur í þessa sekúndu sem Lung lýsti upp nærumhverfið með eldtungum sínum.

Án þess að gera boð á undan sér lenti eitthvað stórt ofan á Lung með höggi sem ég gat svarið að fólk á hinum enda götunnar mundi heyra. Hvað sem þetta var þá var það á stærð við sendibíl en leit út fyrir að vera eitthvað dýr frekar en farartæki, einhverskonar blanda af eðlu og tígrisdýri, með tægjur af vöðvum og beinum þar sem hefði átt að vera húð, hreystur eða feldur. Lung var kominn á hnén og hélt einni klónni á dýrinu frá höfðinu á sér með annarri höndinni.

Hann notaði hina höndina til að berja þvert yfir trýnið á dýrinu. Þrátt fyrir töluverðan stærðarmun varð höggið til þess að dýrið færðist talsvert til baka. Það brást við með nokkrum stuttum skrefum aftur á bak, en óð svo í hann eins og nashyrningur svo bæði hann og dýrið féllu fram af þakinu. Þau lentu á götunni með háværum skelli.

Ég stóð, meðtók að ég skalf eins og lauf. Fætur mínir voru svo óstöðugir, sökum blöndu af létti og ofsahræðslu, að ég féll næstum um koll þegar tvö högg í viðbót skullu á húsinu svo þakið hristist. Tvær skepnur í viðbót, svipað útlítandi og fyrsta dýrið en aðeins öðruvísi í stærð og lögun, lentu á þakinu. Þessi tvö dýr voru með sitthvor parið af knöpum á sér. Ég horfði á meðan manneskjurnar renndu sér niður af bakinu á dýrunum. Tvær stelpur, strákur, og þann fjórða taldi ég vera karlkyns útfrá stærðinni einni. Sá hávaxni gekk í átt að mér, á meðan hin þrjú hlupu að þakhliðinni sem sneri að Lung og dýrinu etja kappi við hvort annað.

"Þú sparaðir okkur gríðarlega mikil vandræði," sagði hann. Röddin var djúp, karlmannleg en dempuð af hjálminum sem hann var með á sér. Hann var alveg svartklæddur, ég áttaði mig á að í grunninn var búningurinn hans bara svartur mótorhjólaleðursamfestingur og mótorhjólahjálmur. Það eina sem benti til að þetta væri búningur var gríma á hjálminum hans. Hún var í laginu eins og höfuðkúpa og var jafn svört og restin af búningnum, með einungis litlar mattar útlínur sem endurvörpuðu ljósi og gerðu mér kleyft að sjá hvað hún var. Þetta var einn af þessum búningum sem hafði verið settur saman úr því sem var í boði og var alls ekki svo slæmur ef þú rýndir ekki of mikið í hann. Svartklæddi maðurinn rétti fram höndina í áttina til mín, ég bakkaði, vör um mig.

Ég vissi ekki hvað ég átti að segja, svo ég kaus að halda mig við þá reglu að segja ekkert sem gæti komið mér í meiri vandræði.

Svartklæddi maðurinn dró höndina til baka og strauk þumlinum yfir aðra öxlina, "Þegar við fréttum að Lung ætlaði að ráðast gegn okkur í nótt fríkuðum við svolítið út. Við þrættum um mótleik í meira og minna allan dag. Við ákváðum á endanum, til fjandans með það, tökum á móti þeim á leiðinni til okkar. Leika svo af fingrum fram. Ekki það sem ég mundi vanalega kjósa, en já."

Fyrir aftan hann blístraði önnur stelpan hvellt og benti niður á götuna. Skepnurnar tvær sem teymið hafði mætt á stukku niður af þakinu og tóku þátt í bardaganum við Lung.

Maðurinn í svörtu hélt áfram, "Og viti menn, við finnum skósveininn hans, Lee, ásamt kannski tyft manna, en Lung og restin af genginu hvergi sjáanleg," hann hló, það kom mér á óvart hversu venjulegur hláturinn var komandi úr manni með hauskúpugrímu.

"Lee er svosem ekkert lamb að leika sér við, en það er ástæða fyrir því að hann er ekki leiðtogi ABB gengisins. Hann kvekktist þegar ekkert bólaði á Lung og félögum og flúði af hólmi. Ég vænti að þú berir ábyrgð á því?" Höfðukúpu-grímur beið eftir svari frá mér. Þegar ég veitti ekkert svar rölti hann að þakbrúninni og leit niður, hann mælti án þess að líta á mig, "Lung er að skíttapa. Hvað í fjandanum gerðirðu eiginlega við hann?"

"Piparúði, geitunga og býflugu stungur, eldmaurar og eitraðar köngulær," sagði hin stelpan, svarandi spurningunni fyrir mig. Líkamsútlínur hennar voru bersýnilegar í gegnum þröngan gallann sem var blanda af svörtum og bláum eða fjólubláum - ég sá það ekki nægilega vel í myrkrinu - og dökkljóst hárið hennar var langt og frjálst. Hún glotti og bætti við, "Hann er töluvert illa á sig kominn núna. Mun verða helvíti mikið verri á morgun."

Maðurinn í svörtu sneri skyndilega við og leit á mig, "Hvernig læt ég, leyfðu mér að kynna okkur. Þetta er Tattletale. Ég er Grue. Stúlkan með hundana-" hann benti á hina stelpuna, þessa sem hafði blístrað og stjórnað skepnunum. Hún var ekki klædd í búning nema ef maður gat kallað stuttpils, herstígvél, rifinn ermalausan bol og rottweiler plastgrímu búning. "-við köllum hana Bitch, að hennar ósk, en til að vera meira barnvænir hafa góðu kallarnir og fjölmiðlar kosið að kalla hana Hellhound í staðinn. Síðast og klárlega síst höfum við Regent."

Ég áttaði mig loks á því sem hann sagði. Voru þessar ófrýnilegu stóru skepnur hundar?

"Bíttu í þig, Grue," hreytti Regent úr sér, með háðstón sem gaf til kynna að hann var í raun og veru ekkert móðgaður. Hann var með hvíta grímu, ekki alveg jafn skrautlega og þær sem fólk tengdi við kjötkveðjuhátíðarnar í Feneyjum, en svipaða. Hann hafði silfraða kórónu utan um svart liðað hárið og klæddist blúndraðri hvítri skyrtu, svörtum leggings buxum og svörtum hnéháum leðurstígvélum. Hann var eins og klipptur út úr sögubók um endurreisnartímabilið. Líkamsbyggingin hans minnti mig meira á dansara en líkamsræktargæja.

Þau höfðu lokið við að kynna sig, Grue horfði á mig í dágóða stund. Að lokum spurði hann mig: "Hey, er allt í lagi? Ertu meidd?"

"Ástæðan fyrir því að hún kynnir sig ekki er ekki vegna þess að hún er meidd," sagði Tattletale við hann, hún var ennþá hallandi sér yfir þakbrúnina að fylgjast með því sem fór fram niðri á götunni, "Hún kynnir sig ekki vegna þess að hún er feimin."

Tattletale sneri sér við og það leit út eins og hún ætlaði að segja eitthvað meira, en hún stoppaði skyndilega og hristi höfuðið. Brosið hennar var horfið, "Í viðbragðsstöðu. Við þurfum að fara."

Bitch kinkaði kolli til samþykkis og blístraði, eitt stutt og tvö löng. Eftir stutta stund tók húsið að hristast eins og það væri verið að berja það. Skömmu síðar stukku skepnurnar hennar þrjár upp á þakið, hver frá sitthvorri hliðinni.

Grue sneri sér að mér. Ég stóð á hinum enda þaksins við hlið brunastigans. "Hey, má bjóða þér far?"

Ég leit á skepnurnar - hundana? Þeir voru blóðugir, óhuggulegar ófreskjur, martraðarefni. Ég hristi hausinn. Grue yppti öxlum.

"Hey þú," sagði Tattletale við mig, hún var komin á bak fyrir aftan Bitch, "hvað heitirðu?"

Ég starði á hana. Röddin mín kiknaði í hálsinum mínum áður en ég náði að koma út orðunum, "Ég veit ekki... ég er ekki búin að velja mér nafn ennþá."

"Jæja, Padda, það er skikkja á leiðinni hingað sem verður komin eftir innan við mínútu. Þú gerðir okkur feitan greiða með Lung, svo leyfðu mér að gefa þér þetta ráð. Ef meðlimur í Protectorate kemur að vígvelli þar sem tvö illmenni eru að berjast og virðast aðframkomin, þá er hann ekki að fara að láta neinn sleppa. Þú ættir að koma þér héðan," sagði hún. Hún brosti til mín. Hún var með svona kattarbros sem sneri upp á endunum. Á bak við látlausu dómínó grímuna glitruðu augun hennar af bellibrögðum. Ef hún hefði verið rauðhærð hefði hún minnt mig á ref. Hún gerði það samt eiginlega.

Þar með lauk þessum hittingi, þau stukku af stað á skepnunum ófrýnilegu, eitt þeirra lenti á eða rakst í brunastigann á leiðinni niður, það heyrðust skerandi brestir í járngrindinni.

Þegar ég hafði áttað mig almennilega á hvað hafði átt sér stað langaði mig að grenja. Ég hafði séð að Regent, Tattletale og Bitch voru unglingar. Mér fannst nokkuð líklegt að Grue væri það líka. Orðið 'krakkar' sem Lung hafði notað, krakkarnir sem ég hafði lagt líf mitt og limi í hættu til að bjarga, voru illmenni. Ekki nóg með það, þau höfðu ranglega talið mig vera illmenni líka.


Fyrri hluti - Næsti hluti

Sign up for free to join this conversation on GitHub. Already have an account? Sign in to comment