Skip to content

Instantly share code, notes, and snippets.

@Loknar
Last active August 2, 2020 14:25
Show Gist options
  • Save Loknar/b378d2cbaf771cabf00886cf9182d77f to your computer and use it in GitHub Desktop.
Save Loknar/b378d2cbaf771cabf00886cf9182d77f to your computer and use it in GitHub Desktop.
Íslensk þýðing á Worm, kafla 1.6, https://parahumans.wordpress.com/2011/06/28/gestation-1-6/

Myndbreyting 1.6

Ég heyrði skikkjuna mæta á staðinn á töluvert breyttu mótorhjólinu sínu. Ég vildi ekki eiga á hættu að sjást flýja af vettvangi og vera í misgripum bendlað við að vera illmenni af enn einni manneskjunni, en ég færði mig heldur ekki nær götunni, ef svo vildi til að Lung liði betur. Þar sem hvorki kom til greina að hörfa né sækja fram hélt ég bara kyrru fyrir. Hvíldin ein sem fylgdi því lét mér líða betur.

Ef ég hefði verið spurð fyrir nokkrum klukkustundum hvernig mér mundi líða ef ég fengi að hitta fræga ofurhetju þá hefði ég notað orð eins og spennt og kát. Nú blasti það raunverulega við mér og ég var svo búin á því að mér var nánast sama.

Það var eins og hann hefði flogið upp á þakið, en spjótvopnið sem hann hélt á þrykktist til hliðar þegar hann lenti. Ég var nokkuð viss um að ég sá einhverskonar griparm á vír dragast inn í enda spjótsins. Svo þetta var hvernig Armsmaster leit út í eigin persónu, hugsaði ég.

Protectorate samtökin voru ein stærstu og þekktustu ofurhetjusamtök heims, þau börðust gegn ofurillmennum í Kanada og Bandaríkjunum, og viðræður voru í gangi um að bæta Mexíkó inn í samninginn. Þetta var ríkisstyrkt deild af ofurhetjum með bækistöðvar í öllum "skikkjuborgum". Það er, samtökin voru með höfuðstöðvar í borgum með hátt hlutfall hetja og illmenna. Teymið í Brockton Bay bar opinberlega nafnið "Protectorate East-North-East", var með höfuðstöðvar í fljótandi eyjunni með orkuhjúpinn sem blasti við frá Boardwalk svæðinu. Þessi gæji, Armsmaster, var leiðtogi teymisins á svæðinu. Þegar æðstu meðlimir Protectorate samtakanna frá Kanada og Bandaríkjunum hittust í hinni klassísku 'V' uppstillingu fyrir myndatökur, þá var Armsmaster einn af aðilunum í vængjunum. Þetta var aðili sem var með sínar eigin bardagafígúrur og ýmsan merkjavarning. Armsmaster leikfangakallar með mörgum útskiptanlegum atgeirs vopnum.

Hann leit út eins og alvöru ofurhetja, ekki eins og einhver maður í búningi. Það var mikill munur þar á. Hann var í brynvörðum galla, dökkbláum með silfurútlínum, var með vaff-laga merki á hjálminum sem huldi augun og nefið. Einungis neðri hluti andlitsins var sjáanlegt í gegnum grímuna, ég sá að hann var með snyrt skegg sem myndaði línu meðfram kjálkunum. Ef ég þyrfti að dæma útfrá einungis því sem var sjáanlegt af andlitinu hans hefði ég giskað á að hann væri rétt undir eða yfir þrítugsaldri.

Aðalvopnið hans var atgeirinn hans, sem var í grunninn spjót með axarhaus á endanum, drekkhlaðið allskonar hátæknibúnaði sem átti helst heima í einhverri vísindaskáldsögu. Hann kom oft fyrir á tímaritum og í viðtölum í sjónvarpinu, svo þú gast nálgast meira og minna allt um Armsmaster í hinum ýmsu miðlum, fyrir utan hver hann var í raun og veru. Ég vissi að vopnið hans gat skorið í gegnum stál eins og það væri smjör, væri útbúið plasma suðu fyrir efni sem axarblaðið vann ekki á og hann gat víst skotið öflugum hnitmiðuðum rafsegulbylgjum sem tóku niður orkuhlífðarskyldi og raftæki.

"Ætlarðu að berjast við mig?" kallaði hann.

"Ég er einn af góðu gaurunum," svaraði ég.

Hann steig nær mér og hallaði höfðinu aðeins til hliðar, "Þú lítur ekki út eins og góður gaur."

Það var sárt að heyra það, sérstaklega frá honum. Álíka og ef Michael Jordan hefði sagt að þú gætir ekkert í körfubolta. "Það er ... ekki viljandi," svaraði ég, ekki lítið varnarlega, "Ég var búin með meira en helminginn af búningnum þegar ég áttaði mig á að hann var meira ögrandi en ég hafði ætlað mér, og þá var of seint fyrir mig að breyta því."

Það varð langt hlé. Taugaóstyrk beindi ég augunum frá hálfhulda hjálminum yfir á merkið á brjóstkassanum, sama og á hjálminum, blátt á silfruðum grunni, af einhverjum heimskulegum ástæðum mundi ég allt í einu að ég hafði átt sett af nærbuxum með þessu merki framan á.

"Þú ert að segja sannleikann," sagði hann. Þetta var bein yfirlýsing, og mér brá smá. Mig langaði að spurja hann hvernig hann vissi það, en ég vildi ekki segja neitt sem gæti fengið hann til að skipta um skoðun.

Hann kom nær, virti mig fyrir mér þar sem ég sat með hendurnar utanum hnén á mér, hann spurði, "Þarftu aðhlynningu á sjúkrahúsi?"

"Nei," sagði ég. "Ég held ekki. Ég er jafn hissa og þú."

"Þú ert nýtt andlit," sagði hann.

"Ég er ekki einu sinni búin að velja mér nafn. Veistu hvað það er erfitt að finna pöddutengt nafn sem lætur mig ekki hljóma eins og ofurillmenni eða algjör lúði?"

Hann hló létt og það hljómaði hlýlega, mjög eðlilega. "Ég myndi ekki vita það. Ég byrjaði í bransanum nógu snemma til að missa ekki af öllum góðu nöfnunum."

Það kom hik á samræðurnar. Skyndilega fór ég hjá mér. Ég veit ekki hvers vegna, en ég sagði viðurkennandi, "Ég var næstum dáin."

"Þess vegna erum við með Ward prógramið," sagði hann. Hann hljómaði ekki eins og hann væri að dæma mig, engin pressa. Bara yfirlýsing.

Ég kinkaði kollinum einu sinni, meira bara til að veita eitthvað svar en að lýsa yfir samþykki við svarið. Wards deildirnar voru undir-átján undirdeildir í Protectorate samtökunum, og Brockton Bay var með eina slíka deild, með sömu nafnavenju og Protectorate teymið, "Wards East-North-East". Ég hafði íhugað að sækja um, en hugmyndin að komast úr menntaskólanum með því að fleygja mér hugsanlega ennþá meira unglingadrama, með ennþá strangari yfirsýn fullorðinna og strangara skipulag hljómaði niðurdrepandi.

"Náðirðu Lung?" spurði ég, til að beina umræðuefninu frá Wards deildinni. Ég var nokkuð viss um að hann var skyldaður til að reyna að kveða nýjar hetjur í bæði Protectorate teymið eða Wards deildina ef undir átján, að stuðla að eflingu samtakanna um samvinnandi hetjur sem tóku ábyrgð á gjörðum sínum, og ég vildi helst forðast það að hann reyndi að fá mig til að ganga í lið með þeim að svo stöddu.

"Lung var meðvitundarlaus, barinn og laminn áður en ég kom á svæðið. Ég dældi í hann róandi lyfjum til öryggis og lokaði hann inni í stálbúri sem ég sauð fast við gangstéttina. Ég tek hann með mér á leiðinni til baka."

"Gott," sagði ég, "Ef hann endar í fangelsi þýðir það að ég áorkaði einhverju í dag. Eina ástæðan fyrir því að ég gerði árás var að ég heyrði hann tala um að skjóta einhverja krakka. Seinna komst ég svo að því að hann var að tala um önnur illmenni."

Armsmaster sneri sér við og horfði á mig. Svo ég sagði honum sólarsöguna, hvernig bardaginn hefði farið, unglinga illmennin sem skutu upp kollinum, og grófar lýsingar á þeim. Áður en ég hafði lokið sögunni var hann farinn að þramma fram og til baka á þakinu.

"Þessir fjórmenningar. Þau vissu að ég væri á leiðinni?"

Ég kinkaði kolli einu sinni. Eins mikla virðingu og ég bar fyrir Armsmaster, þá var ég ekki í skapi til að endurtaka mig.

"Það útskýrir margt," sagði hann, starandi út í fjarskann. Eftir smá stund hélt hann áfram, "Þau eru sleip. Í þau fáu skipti sem við komumst nálægt þeim þá annaðhvort vinna þau eða komast undan meira og minna ómeidd, eða bæði. Við vitum svo lítið um þau. Grue og Hellhound unnu sjálfstætt áður en þau gengu til liðs við hópinn, svo það eru einhverjar upplýsingar til um þau, en hin tvö? Það eru engar upplýsingar til um þau. Ef þessi Tattletale stelpa hefur leið til að skynja okkur nálgast eða greina hvar við erum, þá mundi það útskýra hvers vegna þeim hefur gengið svo vel að forðast okkur hingað til."

Það kom mér eiginlega á óvart að heyra einn af stærri ofurhetjunum viðurkenna að vera ekki fulla stjórn á málunum.

"Það er smá skondið," sagði ég, eftir smá umhugsun, "Þau virtust ekki vera neitt svo skipulögð. Grue orðaði það eins og þau hefðu verið gripin örvæntingu þegar þau heyrðu að Lung væri á eftir þeim, og þau grínuðust og spjölluðu á meðan bardaginn við Lung stóð yfir. Grue gantaðist í Regent."

"Þau sögðu allt þetta fyrir framan þig?" spurði hann.

Ég yppti öxlum, "ég held að þau hafi haldið að ég væri að liðsinna þeim. Hvernig Tattletale orðaði hlutina þá held ég að hún hafi talið mig vera illmenni eins og þau eða eitthvað." Með vott af beiskleika bætti ég við: "Ætli búningurinn minn hafi ekki látið þau draga þá ályktun."

"Hefðirðu getað unnið þau í bardaga?" spurði Armsmaster.

Ég yppti öxlum og fórnaði höndum. Ég fann að ég var aum í öxlinni eftir að ég steyptist á þakið eftir eldglæringarnar frá Lung. Ég svaraði: "Eins og þú sagðir, þá vitum við ekkert um þau né hvers þau eru megnug, en ég held að þessi stelpa sem stjórnaði hundunum-"

"Hellhound," greip Armsmaster inn í.

"-ég held að hún hefði getað gengið frá mér ein og sér, svo nei. Ég hefði eflaust ekki átt séns á móti þeim."

"Þá skaltu líta á það sem góðan hlut að þau hafi ranglega talið þig vera bandamann," sagði Armsmaster

"Ég mun reyna að líta þannig á það," svaraði ég, hissa á hve auðveldlega hann hefði tekið neikvæðan hlut og snúið honum upp í jákvæðan eins og ég hafði markvisst unnið við að temja mér. Ég öfundaði getuna.

"Það var lagið vina," sagði hann, "Og fyrst við erum að horfa fram á veginn, við þurfum að ákveða stefnuna áfram úr þessu."

Hjartað mitt sökk. Ég vissi að hann ætlaði að nefna að ganga til liðs við Wards deildina.

"Hver tekur heiðurinn fyrir að handsama Lung?"

Spurningin kom mér í opna skjöldu, ég leit upp á hann. Ég byrjaði að muldra eitthvað en hann stöðvaði mig með því að rétta upp höndina.

"Leyfðu mér að koma með uppástungu. Það sem þú áorkaðir í kvöld er stórbrotið. Þú áttir stóran þátt í að hneppa hættulegt ofurillmenni í varðhald. Þú verður bara að huga að afleiðingunum."

"Afleiðingar," muldraði ég lufsulega, þrátt fyrir að orðið stórbrotið hringlaði í eyrunum á mér.

"Lung stýrir stórri og dreifðri klíku í Brockton Bay og er með sterkt tengslanet í nokkrum nágrannaborgum. Og það sem meira er, hann er með tvær hættulegar skikkur sem undirmenn sína. Oni Lee og Bakuda."

Ég hristi höfuðið, "ég hef heyrt um Oni Lee og Grue nefndi að þau hefðu barist við hann. Ég hef aldrei heyrt minnst á Bakuda."

Armsmaster kinkaði kolli, "Kemur mér ekki á óvart. Hún er ný. Það sem við vitum um hana er enn takmarkað. Hún sýndi sig fyrst og hvers hún var megnug í hriðjuverkaárás gegn Cornell Háskólanum. Einhvernveginn fékk Lung hana í lið með sér og kom með hana hingað í Brockton Bay eftir að áætlanir hennar í New York fóru út um þúfur þökk sé aðgerðum Protectorate teymisins þar. Vera hennar hér er ... talsvert áhyggjuefni."

"Hvaða krafta hefur hún?"

"Hefurðu heyrt um Tinker flokkunina?"

Ég ætlaði yppta öxlum, en mundi að ég var helaum í öxlinni og kinkaði kolli í staðinn. Það kom líka eflaust meira kurteisislega út. Ég sagði, "nær yfir alla sem hafa kraft sem veitir þeim djúpan skilning á tækni og vísindum. Veitir þeim getu til að skapa uppfinningar mörgum árum og jafnvel áratugum á undan þeirri tækni sem er til staðar í dag. Leysibyssur, frystigeislar, vélvæddar bardagabrynjur, háþróaðar tölvur."

"Nógu nálægt," svaraði Armsmaster. Ég áttaði mig á að hann væri hlyti að vera svokallaður Tinker, ef atgeirinn hans brynvörn voru einhver vísbending. Það, eða mögulega skaffaði einhver annar honum tæki og tól. Hann áréttaði, "Sko, flestir Tinkerar hafa einhverja ákveðna sérþekkingu eða sérstakt bragð. Eitthvað ákveðið sem þeir eru mjög góðir í sem aðrir Tinkerar geta ekki. Sérþekking Bakuda eru sprengjur."

Ég starði á hann. Kona með getu til að smíða sprengjur með notkun tækni áratugum á undan sinni samtíð. Ekki furða að hann leit á það sem áhyggjuefni.

"Nú vil ég að þú metir hættuna sem felst í því að taka heiðurinn af því að handsama Lung. Líklega munu Oni Lee og Bakuda setja sér tvö markmið. Frelsa foringjann sinn og ná fram hefndum gegn þeim sem ber ábyrgð á að ná honum. Ég vænti að þú gerir þér núna grein fyrir því að ... þetta er ógnvekjandi fólk. Á vissan hátt hættulegri en foringinn þeirra."

"Þú ert að segja að ég ætti ekki að taka heiðurinn," sagði ég.

"Ég er að benda þér á að þú hefur tvo valkosti. Valkostur eitt er að ganga í Wards deildina, þar sem þú munt fá stuðning og vernd gegn hvers kyns hefndum sem gætu sprottið upp gegn þér. Valkostur tvö er að hafa höfuðið lágt. Ekki taka heiðurinn. Fljúga undir ratsjánni."

Ég var ekki tilbúin að taka slíka ákvörðun. Ég fór venjulega að sofa á kvöldin um ellefu, fór á fætur klukkan sex þrjátíu til að taka morgunskokkið mitt. Mig grunaði að klukkan væri orðin kringum tvö um nótt. Ég var tilfinningalega úrvinda eftir geðshræringar næturinnar og átti erfitt með að vefja huganum utanum þá hugmynd að ganga í Wards deildina, hvað þá að vera hundelt af tveimur stórhættulegum siðleysingjum með ofurkrafta.

Í ofanálag vissi ég hvað Armsmastar vildi. Ef ég tæki ekki heiðurinn af handtöku Lung mundi hann gera það. Mig langaði ekki lenda upp á kant við hann.

"Höldum mínum þætti í handtöku Lung leyndum," sagði ég við hann, sáravonsvikin að þurfa að segja það, jafnvel þó ég vissi að það væri langskynsamlegast.

Hann brosti, mér að óvörum. Hann var með fallegt bros. Heillandi jafnvel, mig grunaði að konur mundu heillast af því burtséð frá því hvernig restin af andlitinu hans liti út. "Ég held þú munir líta til baka og sjá að þetta var góð ákvörðun," sagði Armsmaster, hann sneri sér við og lagði af stað í áttina að hinum enda þaksins. "Sendu mér línu í PHQ ef þú ert einhverntímann í klípu." Hann steig fram af þaksyllunni hvarf úr sjónlínu.

Sendu mér línu ef þú ert einhverntímann í klípu. Hann var að segja, án þess að segja það hreint út, að ég ætti inni hjá honum greiða. Hann mundi taka bróðurpartinn af heiðrinum fyrir að handsama Lung en hann skuldaði mér greiða.

Áður en ég var komin alla leið niður brunastigann heyrði ég mótorhjólið hans bruna af stað, væntanlega með Lung áleiðis í lífstíðar fangelsi. Eða ég gat vonað.

Það tæki mig hálftíma að koma mér heim. Á leiðinni mundi ég stoppa og klæða mig í peysu og buxur sem ég hafði falið. Ég vissi að pabbi fór að sofa á undan mér, og hann svaf eins og steinn, svo ég hafði engar áhyggjur af því að laumast aftur heim.

Þetta hefði getað farið verr. Eins undarlega og það hljómaði þá vafði ég þessi orð eins og öryggisteppi utanum mig til að forða mér frá því að dvelja við þá staðreynd að á morgun væri skóladagur.


Fyrri hluti - Næsti hluti

Sign up for free to join this conversation on GitHub. Already have an account? Sign in to comment