Skip to content

Instantly share code, notes, and snippets.

@Loknar
Last active August 17, 2020 19:30
Show Gist options
  • Save Loknar/89a382027f9328b6ba8cb82396034720 to your computer and use it in GitHub Desktop.
Save Loknar/89a382027f9328b6ba8cb82396034720 to your computer and use it in GitHub Desktop.
Íslensk þýðing á Worm, kafla 1.6.x, https://parahumans.wordpress.com/2011/07/02/interlude-1/

Myndbreyting 1.6.x - Sjónarhorn; Danny

Við vitum ekki hversu lengi hann hafði verið þarna. Svífandi yfir miðju Atlantshafi. Þann tuttugasta maí 1982 var farþegaskip komið hálfa leið frá hafnarborginni Plymouth við strendur Devon í Englandi til Boston á austurströnd Bandaríkjanna þegar farþegar urðu hans varir. Hann var nakinn, með hendur hangandi, og sítt hárið hans flöktandi í vindinum þar sem hann sveif í lausu lofti um þrjátíu metra fyrir ofan rólegt yfirborð sjávarins. Húð hans og hári er einungis hægt að lýsa sem dökk gullnu. Með engin önnur hár á líkamanum önnur en á höfðinu og allsnakinn, sjónarvottar hafa sagt að hann hafi litið gerfilega út, líkt honum við listaverk eða styttu.

Eftir samtal milli farþega og áhafnarinnar var ákveðið að snúa farþegaskipinu við og skoða málið nánar. Þetta var sólríkur dagur og farþegar fjölmenntu á dekk skipsins til að bera hann augum. Eins og forvitni fólksins um borð hafi glætt forvitni hjá honum, þá er hann sagður hafa svifið í átt að skipinu en ekki sýnt líkamstjáningu af neinu tagi. Sjónarvottar segja hann hafa virst dapran.

"Mér fannst allt eins líklegt að hann mundi brotna saman á hverri stundu og fara að hágráta", sagði Grace Lands, "En þegar ég teygði mig og snerti fingurna hans þá var það ég sjálf sem fór að gráta óstjórnlega."

"Þessi skipsferð átti að verða síðasta ferðalagið mitt. Ég var með krabbamein og hafði ekki hugrekkið að horfast í augu við það. Trúi varla að ég sé að viðurkenna þetta svona fyrir framan myndavél, en ég var á leið aftur til Boston, þar sem ég fæddist, til að binda enda á líf mitt. Eftir að ég hitti hann þá hætti ég við. Hafði misst löngunina til að deyja. Ég fór til læknis sem sagði mér að ég bæri engin merki á að hafa nokkurntímann verið með sjúkdóminn."

"Ég man að bróðir minn, Andrew Hawke, var seinasti farþeginn til að hafa náð einhverju sambandi við hann. Hann klifraði upp á handriðið og féll næstum utanborðs þegar hann greip í höndina á gullna manninum. Við hin urðum að grípa í hann svo hann félli ekki í sjóinn. Hvað sem gerðist þá skildi atburðurinn bróður minn eftir í orðlausri lotningu. Þegar maðurinn með gullnu húðina flaug í burtu var bróðir minn áfram þögull. Og það sem eftir lifði ferðarinnar til Boston sagði hann ekki eitt aukatekið orð. Þegar skipið lagðist að bryggju var eins og álögin sem hann hafði verið í hefðu brotnað, og hann gaspraði ákafur við alla fréttamennina eins og barn."

Gullni maðurinn átti eftir að birtast við og við á næstu mánuðum og árum. Á einhverjum tímapunkti tók hann að hylja sig með flíkum. Í fyrstu var það einungis lak vafið utanum eina öxlina og fest sitthvoru megin við mitti, síðar meir hefðbundnari föt. Árið 1999 sást hann í hvíta gallanum sem hann er klæddur í enn þann dag í dag. Í meira en áratug höfum við velt því fyrir okkur, hvar fékk gullni maðurinn þessa hluti? Við hverja var hann í sambandi við?

Endrum og eins í fyrstu, svo með aukinni tíðni, fór gullni maðurinn að skipta sér af hættuástöndum. Fyrir atburði eins smávægilega og bílslys og allt upp í náttúruhamfarir hefur hann komið til hjálpar og nýtt hæfileika sína til að bjarga okkur. Leifturljós sem frystir vatn til að stöðva varnargarða frá því að bresta í óveðrum. Stöðvað hriðjuverk. Fangað fjöldamorðingja. Aftrað eldgosum. Kraftaverk, var sagt.

Þegar leið á varð hann sneggri, sumir hafa lagt fram þá kenningu að hann hafi enn verið að læra á krafta sína og komast að því hvers hann væri megnugur, aðrir telja að hann hafi smátt og smátt öðlast betri vitund um hvar hans væri þörf. Um miðjan tíunda áratuginn var hann farinn að fljúga beint frá krísu til krísu, oft á yfir hljóðhraða. Í fimmtán ár hefur hann hvíldarlaust flogið frá einni björgunaraðgerð til annarrar.

Aðeins er eitt þekkt atvik þar sem hann hefur talað í þessi þrjátíu ár. Eftir að hafa slökkt mikla skógarelda í nágrenni Alexandrovsk í Russlandi stoppaði hann og skimaði yfir yfir vettvanginn, að við teljum til að ganga úr skugga um að eldurinn tæki sig ekki upp aftur. Rússnesk fréttakona náði til hans og spurði: "Kto vy?" - hver ert þú?

Þennan dag skók hann heimsbyggðina, atvikið náðist á myndband sem hefur verið spilað ótal sinnum, hann svaraði fréttakonunni með rödd sem hljómaði eins og hún hefði aldrei hljómað áður. Lágmæltur sagði hann þetta við hana: "Scion".

Þetta varð nafnið sem við notum fyrir hann í dag. Ögn skondið, að við notum orð sem þýðir 'afkomandi' sem nafn fyrir þann fyrsta af síðar meir mörgum einstaklingum með ofurkrafta - paramennum - sem hófu að birtast um alla jörðina.

Aðeins fimm árum eftir að sást fyrst til Scion hófu ofurhetjur að stíga úr skjóli orðróma og leyndar yfir í sviðsljós almennings. Þó illmenni stigu fram ekki löngu síðar þá voru það ofurhetjurnar sem riftu öllum blekkingum um að paramennin væru guðlegar verur. Árið 1989, við tilraun til að afstýra óeirðum á körfuboltaleik í Michigan, hlaut ofurhetja þekkt undir nafninu Vikare alvarlegt höfuðhögg í ringulreiðinni sem ríkti. Hann lést ekki löngu síðar úr heilablóðfalli. Síðar var upplýst að manneskjan á bak við grímu Vikare var enginn annar en Andrew Hawke, einn þeirra sem hafði komist í snertingu við Scion í skipsferðinni frægu.

Þannig varð gullöld paramenna skammlíf. Þau voru ekki guðleg eins og talið var í fyrstu. Paramenni voru þrátt fyrir allt venjulegt mannfólk með ofurkrafta, mannleg eins og við hin og berandi alla þá galla ýmsu sem mannkynið ber með sér. Í kjölfar þessa tóku ríki heimsins ástandið fastari tökum, settar voru á laggirnar opinberar stofnanir og ríkistj--

Það slokknaði á sjónvarpinu og skjárinn varð svartur, heimildarmyndin sem verið var að sýna þagnaði í miðri setningu. Danny Hebert andvarpaði og settist á rúmið, aðeins til að standa aftur upp augnabliki síðar og valsa fram og til baka.

Klukkan var korter yfir þrjú um nótt, og Taylor dóttir hans var ekki í svefnherberginu sínu.

Danny renndi höndum sínum í gegnum hárið, sem var tekið að þynnast svo mikið á miðju höfðinu að skalli var byrjaður að myndast. Hann var vanur að mæta fyrstur til vinnu, sjá samstarfsfólk sitt mæta, láta þau vita að hann væri til staðar fyrir þau. Hann fór vanalega að sofa upp úr tíu á kvöldin stundum fyrr eða seinna eftir því hver dagsskráin var í sjónvarpinu. Nema að í kvöld, rétt eftir miðnætti, hafði hann rumskað upp úr eirðarlausum svefni þegar hann fann frekar en heyrði afturhurðina fyrir neðan svefnherbergisgluggann hans lokast. Hann hafði farið á fætur og athugað með dóttur sína, og komið að herberginu hennar tómu.

Frá því hafði hann beðið eftir að dóttir hans kæmi aftur í núna þrjár klukkustundir.

Mörgum sinnum hafði hann litið út um gluggann og vonast til að sjá Taylor á leiðinni aftur heim.

Í tuttugasta skiptið fann hann fyrir þörf til að biðja eiginkonu sína um hjálp, ráð, stuðning. En hlið hennar í rúminu var auð og hafði verið það í þónokkurn tíma. Á hverjum degi, er virtist, fann hann löngun til að hringja í farsímann hennar. Hann vissi hversu heimskulegt það var - hún mundi ekki svara - og ef hann velti sér upp úr því of lengi, yrði hann reiður út í hana, sem lét honum bara líða enn verr.

Hann velti fyrir sér, þó hann vissi svarið, hvers vegna hann hefði ekki enn keypt farsíma fyrir Taylor. Danny vissi ekki hvað dóttir hans var að gera, hvað fengi hana til að laumast svona út um miðja nótt. Hún var ekki þannig týpa. Hann reyndi að hughreysta sjálfan sig með að mögulega liði flestum feðrum þannig um dætur sínar, en samhliða því vissi hann. Taylor var ekki félagslynd. Hún fór ekki á skemmtanir, hún drakk ekki, hún var ekki einu sinni hrifin af kampavíninu sem hann opnaði þegar þau héldu upp á áramótin saman.

Tvær óþægilegar tilgátur mölluðu í höfði hans, báðar mjög trúanlegar. Sú fyrsta var að Taylor hafði farið út að fá sér ferskt loft, eða jafnvel farið út að skokka. Hún var ekki hamingjusöm, sérstaklega í skólanum, hann vissi það, og hreyfingin virtist hjálpa henni að vinna sig í gegnum það. Hann gat ímyndað sér að hún hefði fengið þá hugdettu að fara út að skokka á sunnudagsnótt, með nýja skólaviku yfirvofandi. Hann var ánægður með að skokkið virtist láta henni líða betur með sjálfa sig, að hún virtist stunda það á hæfilegan og heilbrigðan hátt. Hann bara þoldi ekki að hún þyrfti að stunda það hér, í þessu hverfi. Á þessum slóðum var grönn táningsstelpa auðvelt skotmark fyrir einhvern þorparann. Rán eða eða þar af verra - hann gat ekki einu sinni sett fram verstu möguleikana í sínum eigin hugsunum án þess að verða líkamlega bumbult. Ef hún hefði farið út um klukkan ellefu að skokka og ekki komin aftur klukkan þrjú um morguninn hefði það þýtt að eitthvað hefði komið uppá.

Hann leit aftur út um gluggann á staðinn þar sem ljósastaurinn lýsti upp gangbrautina og hann gæti séð hana nálgast. Ekkert.

Seinni tilgátan var verri. Hann vissi að Taylor var að glíma við einelti í skólanum. Danny hafði komist að því síðastliðinn janúar, þegar litla stúlkan hans hafði verið tekin úr skólanum og flutt á sjúkrahús. Ekki á slysadeild, heldur geðdeild. Hún vildi ekki segja af hverjum, en undir áhrifum lyfjanna sem læknarnir höfðu dælt í hana til að róa hana niður hafði hún viðurkennt að hún væri undir stöðugu áreiti gerenda, í fleirtölu, svo það var ekki bara einn gerandi, heldur margir. Hún hafði ekkert tjáð sig um það síðan, hvorki um atvikið sem hafði komið henni í slíkt ójafnvægi að það skilaði henni upp að geðdeild né eineltið. Í hvert sinn sem hann hafði reynt að ræða það við hana stífnaði hún upp og varð meira fjarlæg. Hann hafði dregið sig til hlés í von um að aukið svigrúm gerði hana meðtækilegri til að tjá sig um þetta þegar henni fyndist hún tilbúin til þess, en nú voru liðnir mánuðir án þess að hún gæfi honum neinar vísbendingar um málið.

Það var svo lítið sem Danny gat gert í þessu efni. Hann hafði hótað skólanum lögsókn eftir að dóttir hans hafði verið send upp á sjúkrahús, og stjórn skólans hafði brugðist við með að bjóða sættir í málinu, greiða sjúkrahúskostnaðinn og lofa að fylgja málinu eftir svo þetta endurtæki sig ekki í framtíðinni. Það voru innantóm loforð, gefin af starfsfólki sem var að drukkna í vinnu og gerðu lítið til að létta áhyggjur hans af málinu. Allt sem hann hafði lagt á sig til að fá hana færða yfir í annan skóla hafði skilað engu. Þar stóðu fyrir dyrum reglur og reglugerðir um hámarks ferðatíma milli heimilis og skóla. Eini annar skóli sem var innan fjarlægðarmarka frá heimili þeirra feðgina og kom þannig til greina var Arcadia High en hann var nú þegar yfirfullur og með yfir tvöhundruð nemendur á biðlista eftir inngöngu.

Með allt þetta í huga, og að dóttir hans hafði laumast út um miðja nótt, gat hann ekki hrakið þá hugmynd að gerendurnir hefðu mögulega lokkað hana út með hótunum eða tómum loforðum. Hann vissi einungis af einu atviki, því sem hafði sent hana á sjúkrahúsið, en það atvik hafði verið gróft. Gefið hafði verið í skyn en aldrei útskýrt neitt nánar að eitthvað meira hafði verið í gangi. Hann sá fyrir sér þessa stráka eða stelpur sem höfðu kvalið dóttur hans, eggjandi hvort annað í að finna meira skapandi leiðir til að niðurlægja eða skaða hana. Taylor var staðföst í að tjá sig lítið sem ekkert um málið, en hvað sem það var sem gekk á hafði það verið nógu illkvittnislegt, viðvarandi og ógnandi til að Emma, æskuvinkona Taylor til margra ára, var hætt að eyða tíma með henni. Það nagaði hann.

Gagnslaus. Danny var hjálparvana þar sem það skipti máli. Það var ekkert sem hann gat gert að svo stöddu - símtalið hans við lögregluna klukkan tvö um nóttina hafði einungis unnið honum inn þreytulega útskýringu á að lögreglan gæti ekki brugðist við né hafið leit að henni án meiri upplýsinga til að vinna með. Ef dóttir hans væri ekki búin að skila sér innan tólf tíma var honum sagt að hafa aftur samband. Það eina sem hann gat gert var að bíða og biðja með hjartað í hálsinum að síminn mundi ekki hringja með lögreglumann eða hjúkrunarfræðing á hinni línunni að segja honum hvað hefði komið fyrir dóttur hans.

Það fannst agnarsmár titringur í húsinu þegar heitt loftið innanhúss slapp út í kuldann, og örlítill trekkur þegar eldhúsdyrnar lokuðust aftur. Danny Hebert fann fyrir þvílíkum létti en einnig óbeinum ótta. Ef hann færi niður að taka á móti dóttur sinni, mundi hann sjá hana sára eða jafnvel slasaða? Mundi nærvera hans kannski gera illt verra, að faðir hennar sæi hana í hennar viðkvæmasta eftir hugsanlegar niðurlægingar unnar af höndum gerendanna? Hún hafði beðið hann á alla hátt nema að segja það upphátt að hún vildi það ekki. Hún hafði biðlað til hans með líkamstjáningu, forðun augnsambands, ókláruðum setningum og því sem látið hafði verið ósagt, ekki spurja, ekki þvinga viðfangsefnið, ekki sjá þegar kom að eineltinu. Hann var ekki viss hvað olli meinlokunni. Hann hafði grunað að heimilið hefði orðið einhverskonar griðarstaður, og að ef hún horfðist í augu við eineltið heima við yrði það raunvörulegt þar líka og mundi gera henni ókleift að öðlast hugarró frá því heima við. Kannski var það skömm, að dóttir hans vildi einfaldlega ekki að hann sæi hana þannig, vildi ekki sýna veikleika fyrir framan hann. Hann vonaði innilega að svo væri ekki.

Hann renndi fingrunum í gegnum hárið einu sinni enn og settist á hornið á rúminu með olnbogana á hnjánum, hendur á höfði, starandi á lokaða svefnherbergishurðina sína. Eyrun hans hlustuðu eftir minnstu vísbendingu. Húsið var gamalt og hafði ekki verið neitt frábært hús þegar það var nýtt, veggirnir voru þunnir og stoðirnar áttu það til að gefa frá sér hljóð við hvert tækifæri. Það rétt svo heyrðist í hurð lokast á hæðinni fyrir neðan. Salernið? Varla var það kjallarahurðin, hún hafði enga ástæðu fyrir að fara þangað niður, og hann gat ekki ímyndað sér að þetta hefði verið skápurinn því eftir tvær eða þrjár mínútur heyrðist sama hurðin opnast og lokast aftur.

Eftir að eitthvað rakst í eldhúsborðið heyrðist lítið nema marr í stöku gólffjöl. Fimm til tíu mínútum síðar heyrðist taktfast marr í stiganum á meðan hún labbaði upp. Danny hugsaði um að ræskja sig til að láta hana vita að hann væri vakandi og til staðar ef hún vildi spjalla, en ákvað að gera það ekki. Hann lét eins og heigull hugsaði hann með sér, eins og það að ræskja sig gæti gert það sem hann óttaðist að raunvöruleika.

Hurðin hennar lokaðist rólega, nánast hljóðlaust, það rétt svo heyrðist í hurðinni snerta dyrakarminn. Danny stóð snögglega upp opnaði hurðina sína og ætlaði að leggja af stað fram ganginn að banka á hurðina hennar. Til að ganga úr skugga um að dóttir hans væri í lagi.

Það stoppaði hann lykt af sultu og ristuðu brauði. Hún hafði gert sér nætursnarl. Það fyllti hann létti. Hann gat ekki ímyndað sér að dóttir hans mundi útbúa sér svoleiðis ef hún hefði verið rænd, kvalin eða niðurlægð. Taylor var í lagi, eða í það minnsta nógu hress til að fá að vera í friði.

Hann hleypti frá sér þungu andvarpi af létti og sneri aftur í herbergið sitt og settist á rúmið.

Léttir varð að reiði. Hann reiddist Taylor að hafa valdið honum áhyggjum með uppátæki sínu og að hún skyldi ekki hafa athugað hvort hann væri vakandi til að láta hann vita að hún væri komin heim heilu og höldnu. Hann fann þunga gremju gagnvart borginni fyrir að hafa hverfi og fólk sem hann gat ekki treyst dóttur sinni nálægt. Hann hataði nafnlausa gerendurna sem höfðu gert dóttur hans lífið leitt. Undir því öllu saman kraumaði gremja á honum sjálfum. Danny Hebert var eina manneskjan sem hann gat stjórnað í þessu öllu saman, og Danny Hebert hafði ekki tekist að fá neitt í gegn sem skipti máli. Hann hafði ekki fengið svör, ekki stöðvað gerendurna, ekki getað varið dóttur sína. Verst var hugdettan að þetta gæti hafa gerst áður og að þá hefði hann sofið fast í stað þess að vakna.

Hann langaði svo innilega að fara inn í herbergi dóttur sinnar, krefjast svara. Hvar hafði hún verið, hvað hafði hún verið að gera? Var hún meidd? Hvaða krakkar voru þetta sem gerðu henni lífið leitt? En hann vissi að ef hann byði henni birginn og reiddist henni mundi það gera meira illt en gott, það mundi brjóta trúnaðinn sem þau höfðu skapað á milli sín.

Faðir Danny hafði verið aflmikill og skoðanasterkur maður en Danny hafði ekki erft nein slík gen frá honum. Danny hafði verið nörd þegar það hugtak var enn nokkuð nýtt í dægurmenningunni, tágrannur, vandræðalegur, nærsýnn, með gleraugu, lítið tískuvit. Það sem hann hafði erft var frægt skap föður síns. Það var fljótt að rísa og styrkurinn sem það gat náð gerði mönnum bilt við. Ólíkt föður sínum, þá hafði Danny aðeins tvisvar á lífsleiðinni slegið einhvern sökum reiði, bæði skiptin þegar hann var mun yngri. Að því sögðu þá átti hann það til, líkt og faðir hans, að þylja langa reiðilestra sem skildu áheyrendur eftir slegna. Danny hafði lengi litið svo á að hann hóf að sjá sjálfan sig sem mann, fullorðinn, þegar hann hafði lofað sjálfum sér að missa aldrei stjórn á skapi sínu fyrir framan fjölskylduna sína. Hann vildi ekki skila því til barnsins síns sem faðir hans hafði skilað til hans.

Hann hafði haldið þetta loforð við Taylor og var meðvitaður um að það var í raun þetta loforð sem hélt honum föstum í herberginu sínu, valsandi um, rauður í framan langandi til að slá eitthvað. Þó hann hafði aldrei reiðst henni, aldrei öskrað á hana, þá vissi hann að Taylor hafði séð hann reiðan. Einn vinnudaginn hafði aðstoðarmaður borgarstjórans komið í heimsókn og sagt Danny að endurbygginarverkefnið fyrir Hafnarsvæðið hefði verið afturkallað og þvert á loforð stæði til að segja fjölda fólks upp störfum í stað þess að skapa ný störf fyrir starfsfólk Hafnarsvæðisins sem var þá þegar á hallandi fæti. Taylor hafði eytt morgninum bíðandi á skrifstofu föður síns þar sem feðginin höfðu ætlað út að borða saman í hádeginu, og hún hafði læðst fram og í fundarherbergið og séð föður sinn ausa úr skálum reiði sinnar yfir aðstoðarmanninn. Fyrir fjórum árum hafði hann misst stjórn á skapi sínu við Annette í fyrsta sinn, brjótandi loforðið við sjálfan sig gagnvart henni. Það var í síðasta sinn sem hann sá hana. Taylor hafði ekki verið viðstödd til að verða vitni að föður sínum öskrandi á móður sína, en hann var nokkuð viss um að hún hefði heyrt eitthvað af því. Hann skammaðist sín fyrir það.

Í þriðja og síðasta skiptið sem hann missti stjórn á skapi sínu þar sem Taylor gæti hafa séð eða heyrt til hans var á sjúkrahúsinu í kjölfar uppákomunnar í janúar. Hann hafði öskrað á skólastjórann sem átti það fyllilega skilið, og á þáverandi líffræðikennara Taylor, sem átti það hugsanlega ekki skilið. Hann hafði látið svo illa að hjúkrunarkona hafði hótað að kalla til lögreglu, og Danny, lítið rólegri hafði þrammað af ganginum inn í herbergið þar sem hún lá til að uppgötva að hún var meira og minna komin til meðvitundar og horfði á hann með galopnum augum. Danny var mjög hræddur um að ástæðan fyrir því að Taylor hafði ekki veitt honum nákvæmari upplýsingar um eineltið var af ótta við að hann mundi í bræðiskasti gera eitthvað róttækt. Það lét honum líða mjög illa, tilhugsunin að hann hefði mögulega átt einhvern þátt í því að dóttir hans virtist nú einangra sig með vandamálin sem hún glímdi við.

Það tók Danny drjúga stund að róa sig niður, það hjálpaði að minna sig á það endurtekið að Taylor væri í lagi, að hún væri heima, að hún væri örugg. Það var ákveðin blessun að þegar reiðin rann af honum fann hann sig þurrausinn. Hann skreið í vinstri hlið hjónarúmsins, skildi hægri hliðina eftir tóma af venju sem hann átti enn eftir að brjóta, og dró sængina yfir sig.

Hann mundi ræða við Taylor í fyrramálið. Fá svör af einhverju tagi.

Hann dreymdi um hafið.


Fyrri hluti - Næsti hluti

Sign up for free to join this conversation on GitHub. Already have an account? Sign in to comment